18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Varðandi það, sem hv. þm. Barð. spurði mig um, hvort ég teldi þessa rannsókn fullnægjandi, þá skal ég játa, að auðvitað mætti hafa þessa rannsókn fullkomnari og leita til fleiri fagmanna, en það, sem úr sker, er það, að hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, hefur sagt við n., að hann áliti þetta fullnægjandi og mundi ekki, þótt málinu yrði vísað til rn. til þess að láta rannsaka þetta nánar, láta framkvæma meiri rannsókn. Þetta er hans afstaða. — Það er mjög venjulegt að leita til þeirra manna, sem eru kunnugir í því starfi, sem um er að ræða, og það eru ekki aðrir menn hér á landi kunnugri verksmiðjueftirliti og skipaskoðun en verksmiðjuskoðunarstjóri og skipaskoðunarstjóri. (GJ: Hvað ætli skattdómari hefði sagt, ef hann hefði verið spurður að því, hvort leggja ætti skattdómaraembættið niður?) Hér er ekki um það að ræða, heldur er hér spurningin, hvort eigi að sameina þetta undir eitt. Annar hvor þessara forstjóra yrði deildarstjóri hjá fyrirtækinu, og hvor þeirra sem er mundi ekki verða lækkaður í launum, þannig að hugsanleg sameining hefði engin áhrif á afkomu þessara manna. Það mundi enginn lækka Ólaf Sveinsson í launum. (GJ: En hann fengi ekki leyfi til að vinna sér inn 30 þús. annars staðar.) Það er annað mál, ég skal ekki bera blak af því, ef þeir hafa frjálsræði til þess að vinna önnur störf við hliðina á þessu. En úr því að það hefur getað gengið fram að þessu, sé ég ekki annað en mætti vænta áfram sömu framkvæmda. Það er vitanlega yfirsjón af hendi ráðh. að láta slíkt viðgangast og slæmt, að framkvæmdin sé ekki í eins góðu lagi og vera ber; það segir sig auðvitað sjálft. Það er svo gefinn hlutur, að eftir því sem lögin um eftirlit eru víðtækari og ná til fleiri fyrirtækja og fleiri tegunda iðngreina, útheimtir það fleira starfsfólk til þess að annast eftirlitið. Það liggur í augum uppi, og þess vegna er vitanlegt, að hvort sem eftirlitíð verður sameinað eða ekki, þá mundi a.m.k. samþykkt þessa frv. útheimta fleira fólk en nú starfar að þessu, einnig þó að þetta yrði sameinað undir einn hatt. Ég tel, að það sé mál út af fyrir sig að taka ákvörðun um það, hvort haganlegt sé að sameina þetta í eitt, og það má eins gera það, þó að búið sé að samþ. þetta frv., og þess vegna engin ástæða að mínum dómi að láta það verka á afgreiðslu þessa máls. Og það liggur fyrir, að ráðh., sem fer með þessi mál, segist ekki telja ástæðu til að rannsaka það mál frekar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta mál, en vildi leggja þessi gögn á borðið, og ég legg nokkuð upp úr þeim.