21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. minni bl. (Gísli Jónsson):

Ég vil í sambandi við það, sem hv. 1. þm. N–M. sagði, benda á, að þetta gildir einnig um fjölda af þeim vélum, sem hér eru settar undir eftirlit í sambandi við aðrar atvinnugreinar; þær eru líka undir eftirliti rafmagnseftirlitsins. Ég vil einnig taka það fram, að till. okkar byggist á því, að ekki verði settur kostnaður á landbúnaðinn, heldur er hún til að vernda á sama hátt það fólk, sem starfar við landbúnaðarstörf, því að það er sett undir sömu hættu og annað fólk, úr því að það notar sömu tæki og eru eftirlitsskyld annars staðar. Ég tók eftir því, að hæstv. landbrh. greiddi atkv. gegn því í mínum till. að láta vera eftirlitsskylt aðeins þar, sem er einn maður og 3 verkamenn, og það er með hans atkv. komið inn að hafa eftirlitsskylda alla starfrækslu, þar sem er einn maður og einn verkamaður. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi gert það að athuguðu máli, vegna þess að hann hafi talið vera slysahættu í sambandi við það, og ég geri einnig ráð fyrir, að hann fallist á að vernda þannig bændur landsins, því að það er ekki minni áhætta að vera við 10–20 ha. súgþurrkunarvélar og aðrar vélar við landbúnaðinn heldur en annars staðar. Það er því sannarlega ástæða til að hafa þær vélar undir eftirliti eins og aðrar vélar. Ég vil því vænta þess, að þessi till. verði samþykkt.