18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á öndverðu þessu þingi flutti hv. þm. Barð. frv. um ný orkuver, og er það 78. mál. Í því er fólgin till. um það, að ríkisstj. sé heimilt að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja Fossá í Suðurfjörðum, Seljadalsá við Bíldudal og Suðurbólsá á Rauðasandi. Nokkru síðar var fram borið frv., og er það 130. mál, frá hv. þm. Seyðf. og þm. Norð- og Sunnmýlinga um það, að einnig heimilist að virkja Fjarðará í Seyðisfirði eða Grímsá á Völlum, Hvammsá eða Selá í Vopnafirði. Sú n., sem fékk málið til meðferðar í Ed., ákvað að fengnum till. raforkumálastjóra að sameina þessi mál, og liggja þau nú fyrir þessari hv. d. sem 78. mál, að því viðbættu, að orkuveita frá Landeyjum til Vestmannaeyja hefur verið tekin inn í frv. Þingskjalsnúmerið er 447.

Allshn. Nd. hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum og m.a. rætt við raforkumálastjóra og leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. En ég vil vekja athygli á prentvillu í 1. gr., 3. tölul. b. Í seinni hluta þess tölul. segir: „... og leggja frá orkuveri aðalorkuveitur til Bíldudals, Patreksfjarðar og um nálægar byggðir.“ Þetta á að vera sjálfstæður liður, sem á bæði við a og b undir tölul. 3 og verður að leiðréttast í prentun síðar.

N. er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Ég vil taka fram, að um það var nokkur ágreiningur í n., hvort sumar þær virkjanir, sem þarna er um að ræða, séu nægilega undirbúnar og kostnaðaráætlun nægilega nákvæm. En þá er þess að geta, að í fyrsta lagi er samkv. 1. gr. um það að ræða, að ríkisstj. er heimilt að fela rafmagnsveitum ríkisins þessi verkefni. Og í 3. gr. er skýrt tekið fram, að framkvæmdir megi ekki hefja, nema fyrir liggi nægilegar kostnaðaráætlanir um virkjanirnar og tryggt sé nægilegt fé til framkvæmdanna.

Nokkrar brtt. hafa komið fram við þetta frv. Á þskj. 543 eru till. frá hv. þm. N-Þ. (GG), um virkjun Sandár í Þistilfirði. Þá er till. frá hv. þm. A-Sk. (PÞ) og hv. 5. landsk. (ÁS) á þskj. 546, um virkjun Smyrlabjargaár í Austur-Skaftafellssýslu. Í þriðja lagi er till. frá hv. þm. Snæf. (SÁ) um það að tengja þetta við ákveðin lög frá 1947 um virkjun Fossár eða að bæta við háspennulínu frá væntanlegu raforkuveri við Fossá í Fróðárhreppi um Fróðárhrepp og Eyrarsveit, um Helgafellssveit að Hrísum og niður Þórsnes til Stykkishólms. — Iðnn. hefur ekki tekið afstöðu til þessara þriggja till. og vill beina til flm. þeirra, að þegar þeir hafa gert grein fyrir till. sínum við þessa umr., taki þeir till. aftur til 3. umr., og mun þá iðnn. athuga þær fyrir þá umræðu.