18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 643 hef ég leyft mér að bera fram brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, um orkuver og orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins. – Sú fyrri er þess efnis, að aftan við 4. lið 1. gr. bætist nýr tölul., svo hljóðandi: „að leggja háspennulínu frá væntanlegu orkuveri við Fossá í Fróðárhreppi um Fróðárhrepp og Eyrarsveit, um Helgafellssveit að Hrísum og niður Þórsnes til Stykkishólms.“ — Hin síðari er, að í stað 40 millj. kr. í 2. gr. komi 44.6 millj. og í stað 13.4 millj. kr. komi 14.9 millj. kr. Fyrr á þinginu flutti ég frv. um þetta efni á þskj. 243, þar sem gert var ráð fyrir, að kostnaður við þessar framkvæmdir yrði greiddur af tekjuafgangi ríkissjóðs fyrir árið 1951. Eins og hv. þm. er nú kunnugt, er þegar búið að gera till. um ráðstöfun á þessum tekjuafgangi. Ég hef því leyft mér að bera fram þessa till. á þskj. 643. Það er gert ráð fyrir því, að þarna risi 1200 hestafla orkuver og muni það fullnægja raforkuþörf íbúanna á norðanverðu Snæfellsnesi. Það munu vera yfir 2300 íbúar í 6 hreppum Snæfellsnessýslu, sem fengju rafmagn frá virkjuninni, ef háspennulína sú yrði lögð, sem till. ræðir um. Ég treysti því, að hv. þm. verði sammála um réttmæti þessarar brtt. og ljái henni atkv. sitt.