18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram ásamt hv. 5. landsk. brtt. við þetta frv., og er hún prentuð á þskj. 546. Þar er lagt til, að heimilað verði að virkja Smyrlabjargaá í Austur-Skaftafellssýslu í allt að 1000 hestafla orkuveri og leggja frá því aðalorkuveitur til Hafnarkauptúns og um nálægar byggðir. Það er nú svo, að Skaftafellssýsla hefur orðið á undan öðrum sýslum í að reisa einkastöðvar til þess að fullnægja raforkuþörf einstakra heimila, en þetta reynist þó ekki fullnægjandi, bæði vegna þess, að þessar stöðvar ná ekki til allra heimilanna, og svo vegna þess, að við Hornafjörð er nú kauptún í örum vexti, kauptún, sem hyggir afkomu sína öðrum þræði á sjávarútvegi og iðnaði í sambandi við þann atvinnuveg, og til þessa þarf nokkra raforku. Kauptúnið hefur leyst sína raforkuþörf til bráðabirgða með því að reisa dieselrafstöð, og mun sú framkvæmd verða alls ófullnægjandi á næstu árum. Mælingar hafa því farið fram á þessu vatnsfalli, sem um ræðir í brtt., og hafa þar verið gerðar vatnsmælingar í alllangan tíma. Aðstaða er þarna til vatnsmiðlunar uppi á heiðunum, og er miðað við slíka miðlun í áætlunum þeim, sem raforkumálaskrifstofan hefur gert. Áætlun sú, sem í till. greinir, er í höndum hv. iðnn., og fer ég því ekki hér að gera grein fyrir einstökum atriðum í henni, en hún mun við það miðuð, að frá þessu orkuveri verði leiddar raflagnir niður í þrjár sveitir í kring og til kauptúns Hafnarhrepps.

Ég skal svo verða við tilmælum hv. frsm. iðnn. um það að taka þessa till. aftur til 3. umr., enda sýnilegt, að þær till., sem hér liggja fyrir, þurfa að lagfærast, áður en þær verða bornar undir atkvæði, og á ég þar sérstaklega við, að tölur þær, sem gefa upp það heildarframlag, sem ríkinn er heimilað að útvega í þessu skyni, þurfi að samræma. En þessi orð segi ég í fullu trausti þess, að hv. iðnn. taki þessa till. okkar upp, ef hún gerir heildartill. um þau atriði, sem hér liggja fyrir, eða þá að hún styðji fyrir sitt leyti að samþykkt þessarar till. við 3. umr. málsins.