22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það mun vera flestum hv. þdm. kunnugt, að meginþorri þeirra vatnsfalla, sem hér er farið fram á að heimilað verði að láta virkja, hefur enn ekki verið rannsakaður til neinnar hlítar með þetta fyrir augum, og virðist mér það sannarlega vera öfugþróun, ef fara á að lögfesta þessar og þessar virkjanir, án þess að fyrir liggi nokkuð um það, að viðkomandi vatnsföll séu virkjunarfær eða þau séu hagkvæmari en önnur vatnsföll til þessara hluta. Að mínu áliti ætti alls ekki að setja lög um virkjanir vatnsfalla, nema fyrir liggi nákvæmar rannsóknir og kostnaðaráætlanir frá rafmagnseftirliti ríkisins, hvort virkjanirnar séu heppilegastar á þessum og þessum stað, o.s.frv. En hér á að fara alveg öfugt að, þar sem á að lögfesta virkjanir á vatnsföllum, sem enginn veit máske, hvort eru virkjunarhæf. Ég álít þetta algerlega öfuga aðferð, ef nokkurt mark á að vera takandi á þessum l. um virkjun vatnsfalla. Mér er kunnugt um það, að flest þessara vatnsfalla, sem hér er um að ræða, hafa enn ekki verið rannsökuð til neinnar hlítar, og mun ég því ekki greiða atkv. með frv.