22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt tilgáta hjá hv. þm. Vestm., að ég þekki ekki allar ár, sem nefndar eru í þessu frv., og því siður, hvort hægt er að virkja í þeim þann hestaflafjölda, sem tilgreindur er í frv. En ég er sannfærður um, að flm. vita litið um það, þannig að á því sé byggjandi, hvað mörg hestöfl það verða endanlega, sem vatnsföllin gera á öllum tímum árs; úr því verður að vinna af sérfræðingum rafmagnseftirlitsins og til þess þyrfti það að liggja rökstutt fyrir. En engin slík fskj. liggja fyrir með þessu frv.

Hv. þm. Barð. segist vænta þess, að þeir, sem hafa flutt brtt. við þetta frv., hafi undirbyggt sin mál líkt og hann. En hvernig gerði hann það? Hann hefur fengið mælingamann frá rafmagnseftirliti ríkisins á s.l. sumri til að líta á, þessar ár í eitt skipti að sumrinu til. Það er öll rannsóknin þar, og meira að segja er hv. þm. Barð. ekki kunnugri í sínu kjördæmi en það, að nafnið á hans á er vitlaust. Hann vissi ekki einu sinni nafnið. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að þessu, en það er undarleg virkjun vatnsafls, sem ekki þarf að gera áætlanir og teikningar að. Sumir hafa að vísu iðkað að búa til teikningar húsa eftir á, en það hafa ekki þótt fyrirmyndar vinnubrögð, en hér er farið inn á þá braut.