07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

134. mál, girðingalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Segja má, að svo bregðist krosstré sem önnur tré, úr því að hv. 11. landsk. þm. vill ekki verða við svo sanngjarnri bón að fresta þessu máli. Þó að ég telji hv. 1. þm. N-M. ágætan, þá tel ég þó hv. 11. landsk. langbeztan af öllum þeim, sem í landbn. eru. En það var misskilningur hjá honum, að ég ætlaðist til, að öll sveitarfélög á landinu þyrftu að skoða frv. Mér sýndist nóg, ef stjórn Sambands sveitarfélaga fengi þetta til álita. Ég sé, að einn sveitarstjórnarmaður hér í hv. d. hefur skrifað undir nál. athugasemdalaust, raunar tveir. En ef þeir hugsa um þetta betur, munu þeir sjá, að hér er um að ræða gífurlegan útgjaldaauka fyrir sveitarfélög frá því, sem verið hefur, og ég efast um, að menn hafi gert sér nokkra grein fyrir þessu. Og þegar þeir kvarta mjög undan þeim miklu gjöldum, sem búið er að leggja á sveitarfélögin, þá finnst mér þó færast skörin upp í bekkinn, ef menn vilja athugasemdalaust leggja á þau jafnstórkostlegar byrðar og þær að taka þátt að jöfnu við landeigendur í öllum girðingarkostnaði byggingarlóða í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum. Það er vissulega ekki að ófyrirsynju, þó að þess sé óskað, að fulltrúum þessara stofnana sé gefinn kostur á að athuga málið. Ég lét þess getið í minni fyrstu aths. áðan, að mér hefur ekki unnizt tími til að athuga þetta fra. til hlítar, en rak þó augun í þetta mikilsverða ákvæði. Það kunna að vera í því fleiri atriði, sem varða sérstaklega sveitarfélögin. Það var upplýst af hv. frsm., að það hafi ekki enn verið borið saman við vegalögin, og vegamálastjóri átti eftir fyrir hönd ríkisins að gera sér grein fyrir því, hvort ákvæðin fái staðizt. Mér virðist, að hér sé um snöggsoðið frv. að ræða og geti því ekki skaðað, þó að þessi athugun fari fram. Ég vil því eindregið beina því til þess samsafns af góðum mönnum, sem eru í landbn., að þeir verði við þessari hógværu till. og fresti málinu.