26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

20. mál, hegningarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég minntist á það við 2. umr., hvort ekki mundi vera viðkunnanlegra að orða 2. málsgr. 101. gr. þannig: „Sé slíkum verknaði beint gegn heimili hans, má auka refsingu svo, að við hana sé bætt allt að helmingi bennar.“ Ég held, að þetta væri viðkunnanlegra orðalag, svo að ekki séu yfirfærð á forsetann orð, sem réttmæt gætu verið, ef um konungsfjölskyldu væri að ræða. Konungsfjölskyldan naut alveg sérstakra hlunninda gagnvart löggjafarvaldinu, sem byggðust á því, að konungurinn var talinn kjörinn af guðs náð og öll hans ætt hafin langt yfir aðra mennska menn. En forsetinn og fjölskylda hans eru hins vegar alveg jöfn fyrir lögunum og allir aðrir. Forsetinn er ekki hærra settur gagnvart lögunum en hver annar í þjóðfélaginu, og sé ég ekki, hvernig hægt er að innieiða slíkt ákvæði sem hér á að taka með, því að við verðum að gera okkur ljóst, að Ísland er ekki lengur konungsríki. Ég vil leyfa mér að koma með brtt. um þetta efni, úr því að nefndin hefur ekki séð ástæðu til að hreyfa við því, því að mér finnst viðkunnanlegra að færa þetta til samræmis við það, að við erum nú ekki lengur konungsríki, heldur lýðveldi. Ég kann ekki við það að yfirfæra hugtök, sem eru eðilleg í konungsríki, á forseta lýðríkis. Þarna koma ólík sjónarmið til greina, þar sem forseti er kjörinn af fólkinu, en konungurinn var talinn kjörinn af guði. Ég mun því koma með brtt. um þetta atriði. (Forseti: Telur hv. þm. ekki eins heppilegt að koma fram með brtt. við 3. umr. málsins?) Jú, það er að sjálfsögðu alveg nóg.