11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

160. mál, sundhöll í Reykjavík

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar lög um sundhöll í Reykjavík voru sett 1928, var í þeim meðal annars kveðið svo á, að nemendur í skólum, sem ríkið kostaði að meira eða minna leyti, skyldu fá ókeypis aðgang að sundhöllinni til æfinga. Í þeim l. var enn fremur svo fyrir mælt, að ekki mætti selja almenningi aðganginn dýrara en þyrfti til þess, að fyrirtækið bæri sig. Reynslan hefur orðið sú, að á þessu fyrirtæki hefur orðið, eins og á sundlaugum yfirleitt hér á landi, verulegur rekstrarhalli, sem nemur mörg hundruð þúsundum króna ár hvert, og hefur ekki þótt fært að hafa aðgangseyrinn það háan, að mætt gæti hallanum. Hins vegar var með íþróttal. frá 1910 lögboðin sundskylda í skólum landsins, og hér í Reykjavík hefur þessi sundkennsla að mestu farið fram í Sundhöll Reykjavíkur, en það þýðir, að sundhöllin er lokuð öllum almennum sundhallargestum fimm daga í viku yfir vetrarmánuðina. Utan Reykjavíkur, þar sem kennslan fer fram í sundlaugum og sundhöllum, er sá hluti ekki með í skólakostnaðinum og er greiddur af ríkinu, en ríkissjóður hefur ekki viljað gera slíkt hið sama varðandi Sundhöll Reykjavíkur vegna þess ákvæðis, sem lagt er hér til, að fellt verði niður. Frv. þetta fer einungis fram á, að kostnaður við sundkennslu nemenda, er fram fer í Sundhöll Reykjavíkur, verði færður á skólakostnað og að hluta endurgreiddur af ríkissjóði eins og annars staðar.

Vænti ég þess, að frv. þetta fái góðar undirtektir, og legg til, að því verði vísað til hv. allshn.