27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

20. mál, hegningarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. N. átti tal um þetta orðalag á fundi, sem hún hélt í gær, og sá hún ekki ástæðu til að bera fram brtt. við þetta orð. Ég skal ekki þrátta við hv. þm. um málfræði, en eftir íslenzkri málvenju fær þetta orð vel staðizt. Það er talað um fjölskyldufeður og forsvarsmann fjölskyldu og vandamenn hans. Ég held, að það skipti því engu máli, hvort orðið er haft. Hér er haft fjölskyldu forseta, og er þar átt við konu hans og börn, sem ekki eru orðin sjálfráða, þ.e.a.s. nánustu vandamenn. N. er nákvæmlega sama, hvort orðið er notað, en henni fannst tilgangslítið að vera að breyta um, og ég sé ekki ástæðu til, að hv. d. sé að ræða svona mál.