22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér þykir það merkilegt varðandi þessi tvö mál, sem hér eru til umr. og búin eru að fara í gegnum Nd., að hæstv. dómsmrh. skuli ekki geta lagt þau skýrar fyrir en hér er gert. Fyrra málið var um samkomulag um það, að greiða skuli fyrir börn og skólafólk, sem hér nýtur sundkennslu, og það skuli gilda fyrir Reykjavík eina. Nú eru sundlaugar um allt land, sem eins stendur á um. Hvers vegna á Reykjavík að hafa sérréttindi? Hvað er hér um mikla upphæð að ræða? En hæstv. dómsmrh. þykir málið svo vel undirbúið, að hann sér ekki ástæðu til, að það fari í nefnd. — Svo kemur málið, sem nú er verið að ræða, og þykir engin ástæða til að láta rannsaka það. Nei, nei, engin ástæða til að upplýsa, hvað á að leggja mikið á almenning með þessu nýja álagi. Þetta mál kemur illa undirbúið inn í Alþ. og fer í n. í Nd., án þess að þar sé leitað nokkurra upplýsinga. Ég get gjarnan verið með því, að þeir, sem sækja kvikmyndahús að staðaldri, verði fyrir nokkrum útlátum, en þrátt fyrir það vil ég fá að vita, hvað það er, sem hér er um að ræða.

Þetta mál er flutt að tilhlutan bæjarstjórnar Reykjavíkur. Hún hefur annaðhvort ekki nennt eða ekki talið það svo mikils virði að gefa um þetta nánari upplýsingar, og svo er málið sett í þessa hv. d. á síðasta degi, sem henni er ætlað að starfa, alveg eins og okkur þm. komi þetta ekkert við. — Nú, þarna er hæstv. menntmrh. kominn og hann gefur vonandi nánari upplýsingar í þessu máli.