23.01.1952
Efri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

162. mál, gjald af kvikmyndasýningum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í raun og veru má segja, að þessi brtt. sé meinlaus, en ég tel líka, að hún sé óþörf, sérstaklega eftir að d. veitti áðan í ekki ósvipuðu tilfelli almenna heimild þar sem heiðni kom frá einu sveitarfélagi. Ef heimildin hefði þar verið takmörkuð, hefði verið eðlilegra að takmarka þetta einungis við Reykjavík. En þar sem það var ekki gert, er samræmi í því að hafa almenna heimild hér.

Út af því atriði, að kvikmyndasýningar annars staðar leggist niður, verð ég að segja, að það kemur ekki til þess. Sveitarstjórnirnar haga ekki störfum sínum þannig, að þær banni í raun og veru kvikmyndasýningar. Er því engin hætta af þessu í framkvæmd. — Varðandi hitt atriðið, sem væri bezt að bera upp í tvennu lagi, þá er ómögulegt að hafa á móti því út af fyrir sig. Það er óþarft, því að þetta er aðeins heimild fyrir sveitarstjórnir. En ef fyrri till. verður samþ., þarf að breyta 3. gr.