22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því frv., sem hér liggur fyrir, vildi ég leyfa mér að drepa með nokkrum orðum á þær breytingar, sem orðið hafa á aðstæðum presta í okkar þjóðfélagi. Það var sú tíð, að prestar fengu sín laun frá söfnuðunum í lambsfóðrum og ljóstollum og ýmsu slíku. Var þeim þá aðallega ætlað að lifa á búskap, eins og það fólk gerði, sem þeir áttu að vinna með og vinna fyrir. Þá voru laun þeirra ákaflega lág. — Fyrir um það bil 30 árum fór fram mat á heimatekjum þeirra og þær metnar til tekna og til frádráttar. Voru þær jarðir, sem þeir bjuggu á, allgóðar. Það var ætlazt til, að mat færi fram á 10 ára fresti. Nú eru liðin 30 ár eða einn mannsaldur síðan, og hefur aldrei farið fram neitt endurmat á brauðunum. Prestarnir sitja enn við sömu kjör hvað viðkemur afgjaldi ábýlisjarða þeirra. — Fyrir um það bil 20 árum voru samþ. lög á Alþingi um að ætla þeim aukafjárhæð upp í embættiskostnað. Það vissi hver þm., að hér var ekki um að ræða fjárhæð til embættiskostnaðar, heldur launauppbót, sem var kölluð þessu nafni. Það fer enginn prestur með 200 kr. á ári í pappír til þess að skrifa á ræðurnar sínar. Þegar launalögin 1945 komu til umræðu, þá sögðu þeir, að þeir yrðu að fá þau laun, að þeir gætu lifað á þeim eingöngu. Þeir gerðu þá kröfu til Alþingis, að þeir þyrftu ekki að stunda búskap eða nein önnur störf, heldur eingöngu sinna sínum prestsstörfum. Laun þeirra voru hækkuð, en samt fengu þeir að halda skrifstofufénu og ýmsum heimatekjum; og þeir hafa einnig fengið aðra víssa ívilnun fram yfir aðra embættismenn, þeir hafa aldrei þurft að borga neina húsaleiguvísitölu.

Ég rifja þetta upp vegna þess, að mér virðist, að prestarnir sjálfir hafi litið þannig á, að þeir ættu að geta lifað á sínu embætti og stundað það eingöngu, og svo hefur ríkisstj. óg Alþingi einnig litið á, að rétt væri að þeir gætu eingöngu hugsað um sitt starf. Hæstv. ríkisstj. hefur látið undir höfuð leggjast að innheimta húsaleiguvísitölu í fleiri ár. Mín skoðun hvað embættismenn snertir er, að yfirleitt eigi þeir að hafa svo há laun, að þeir geti lifað af þeim eingöngu, en þurfi ekki að stunda önnur störf jafnframt.

Hvað prestana snertir, en það eru nú þeir, sem verið er að ræða um núna, þá verður því vart neitað, að prestur, sem hefur 10–30 messur á ári og þarf að framkvæma 10–20 embættisverk á ári, hefur ekki starf allt árið. Þetta gildir einnig um marga aðra starfsmenn hins opinbera, sem hafa ekki nægilegt starf til þess að geta fullnægt sinni eðlilegu starfsorku og getu.

Ég vildi krefjast þess, að embættismenn hafi fullkomið ársstarf, hvort sem það sé 8 tíma vinna á dag eða með öðru móti. Þar sem ég tel, að prestarnir hafi ekki nóg að gera, þá vildi ég ganga lengra í þessu máli en meðnefndarmenn mínir, og var ég því þeim ósammála í höfuðatriðum og skrifaði með fyrirvara undir nefndarálitið, þar sem ég vildi gera ýmsar brtt.

Ég held, að það sé rétt, af því að ég hafði þarna sérstöðu, að ég geri grein fyrir afstöðet minni, sem byggist á því, að ég tel, að prestarnir hafi ekki nóg að gera. Nú hefur komið fram viðurkenning í þessa átt frá meðnm. mínum, sem telja, að prestarnir geti tekið að sér kennslu sem viðbótarstarf. Ég vildi láta þessi tvö höfuðsjónarmið koma fram. Ég tel ekki ástæðu til að hafa prófastsdæmin eins mörg og gert er ráð fyrir í frv. Ég tel ekki ástæðu til að hafa prófast, þar sem 3 eða jafnvel 2 prestar eru í prófastsdæminu, og er þá annar presturinn prófastur yfir hinum. Ég vildi hafa prófastsdæmin færri og stærri, og ég geri ráð fyrir, að það leiddi til þess, að meira samband yrði milli prestanna í prófastsdæminu heldur en ef þeir væru tveir eða þrír.

Ég vildi þá snúa mér að einstaka prófastsdæmum. Ég er ósamþykkur till n. um Norður-Múlaprófastsdæmi. Tel ég, að hægt sé að láta prestinn í Sauðanesi, sem hefur eina annexíu, þjóna Skeggjastöðum og hafa þannig 3 kirkjur. Það eru engar hindranir á því, því að vegasamband er nú orðið gott þar, en með því að n. gerir Skeggjastaðaprest að kennslupresti, þá sé ég ekki ástæðu til að koma með brtt. þar við. — Ég tel, að Hofsprestur í Vopnafirði eigi að þjóna Möðrudal. Nú er kominn vegur þar í milli og skipulagðar ferðir. Öll verzlun frá Möðrudal fer fram við Vopnafjörð. — Svo er það presturinn að Kirkjubæ, sem nefndin vill færa að Eiðum. Hann hefur ekki nema rétt skikkanlega kirkjusókn. Hann tel ég að eigi að sitja að Kirkjubæ. Ég viðurkenni, að Kirkjubær er í dag í óþægilegu vegasambandi, en það vantar aðeins 4 km. Sá vegur er einn af þeim vegum, sem till. er um að taka upp í vegalög, og verði það samþ., þá má búast við, að fljótt verði úr þessu bætt. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að á Kirkjubæ er sæmilegt prestsseturshús, en það er ekki fyrir hendi á Eiðum og þar verður að byggja allt upp frá grunni. — Enn fremur finnst mér, að spara megi einn prest, þar sem einn situr á Valþjófsstað og annar í Vallanesi. Mér finnst, að spara megi annan prestinn og láta hann hafa 4 kirkjur. Það er kominn bílvegur á milli þessara staða og brú í Fljótsdal.

Hvað snertir Suður-Múlaprófastsdæmi, þá tel ég fjarstæðu að hugsa sér að setja prest í Mjóafjörð, heldur ætti hann að fá þjónustu frá Norðfirði. Að vísu yrðu að vera sjósamgöngur þar á milli, en í Mjóafirði er ekkert fyrir hendi. Þar er ekkert jarðnæði, ekkert hús, og yrði að reisa allt frá grunni, og þar að auki er söfnuðurinn fámennur, ekki nema 161 manns, ef ég man rétt. Það verða að meðaltali 4 prestsverk á árí fyrir utan messur, svo að þetta væri ekki of mikið fyrir prestinn á Norðfirði, sem hefur aðeins eina kirkju. — Einnig taldi ég rétt að athuga, hvort ekki mætti færa prestinn frá Kolfreyjustað og láta hann sitja á Fáskrúðsfirði og þjóna einnig Stöðvarfirði. Ég viðurkenni, að eins og vegasambandi er nú háttað, þá er þetta óþægilegt, en eftir 3–4 ár ætti þetta að lagast. Ég viðurkenni, að þetta er ekki alveg tímabært, en þegar maður er að gera breytingar fyrir framtíðina. þá verður maður að taka tillit til þess, sem er framundan. Ég mun flytja brtt. um Mjóafjörð og sömuleiðis um, að Kirkjuhær verði áfram prestssetur og Möðrudal verði þjónað frá Vopnafirði, en ekki brtt. um Stöðvarfjörð. — Þá mun ég flytja brtt. við Hof í Öræfum. Þar á að taka upp nýtt prestssetur. Þar er engin jörð fyrir hendi, og verður að byggja allt upp. Þar er að vísu jörðin Sandfell, og var þar prestssetur, en það hefur verið í eyði í mörg ár, og ber öllum saman um, sem þekkja til, að hún verði ekki byggð aftur. Tel ég sjálfsagt, að presturinn á Kálfafellsstað þjóni Öræfum.

Þá er það Vestur-Skaftafellssýsla. Það var ágreiningur um það, hvort presturinn skyldi sitja á Prestsbakka eða Kirkjubæjarklaustri. Núverandi prestur vildi sitja að Kirkjubæjarklaustri, og var þá allt byggt þar upp, en nú mundi hann vilja fara að Prestsbakka, og yrði þá að byggja þar upp líka. Ég tel fjarstæðu að hringla þannig eftir því, sem einhverjum presti kann að detta í hug.

Í Rangárvallaprófastsdæmi tel ég að megi fækka prestum um 1–2, sennilega mun vera hægt að fækka þar um 2, og mun ég gera brtt. þar um. — Í Árnessýslu mun ég ekki gera aðrar breyt. en varðandi það, að ég tel, að það sé óþarfi að láta sérstakan prest sitja á Þingvöllum. Ég tel, að presturinn á Mosfelli geti þjónað Úlfljótsvatns- og Þingvallasóknum frá Mosfelli. — Kjalarnesprófastsdæmi skal ég ekki tala frekar um, en ég tel Þingvelli eiga að vera þar.

Um Reykjavík er það að segja, að ég tel, að það þurfi að búa betur um þá nefnd, sem ætlað er að skipta bænum í prestaköll. Hér er öllu ráðstafað af prestum og formönnum sóknarnefnda. Ég tel, að það þurfi að leyfa söfnuðunum að hafa tækifæri til meiri þátttöku í þessu efni og láta ekki prestana vera einráða, heldur skipa þessu meira við hæfi fólksins.

Um Borgarfjarðarprófastsdæmi er það að segja, að mér finnst óþarfi að færa Innra-Hólmssókn frá Akranesi til Saurbæjar, en ég játa, að við þetta fæst meiri jöfnuður á fólksfjölda. — Ég tel ekki ástæðu til að taka upp nýtt prestakall í Staðarhólsþingum, því að þar er enginn staður fyrir prest frekar en í Mjóafirði og Öræfum. Ríkið á að vísu jörð þar, og var byrjað að reisa þar prestsseturshús fyrir 20 árum. Inn í kjallarann hefur alltaf runnið vatn, og hefur ekki verið hægt að hafast þar við, svo að ekkert þýðir að hugsa um það og allt verður að byggja að nýju, ef þangað verður settur prestur. Ég tel auðvelt fyrir einn prest að þjóna þessu, þar sem Garpsdalur fellur úr.

Um Barðastrandarprófastsdæmi er það að segja, að þegar betri vegur er kominn yfir Þingmannaheiði, þá tel ég, að Múlasókn eigi að fylgja Brjánslæk og presturinn í Flatey að verða kennsluprestur. Þegar ég gekk inn á að hafa frv. svona, þá var það af því, að maður, sem ég áleit manna kunnugastan, sagði mér, að vegurinn yfir Þingmannaheiði ætti langt í land. Nú er mér sagt, að það sé kominn bilfær vegur yfir Þingmannaheiði.

Um Vestur-Ísafjarðarsýslu er það að segja, að ég tel óþarfa að láfa sérstakan prest sitja á Hrafnseyri. — Í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi tel ég óheppilegt að færa til prestinn í Ögurþingum, þar sem er sæmilegt prestsseturshús, sem annars mundi fara í niðurníðslu. Það væri heppilegra að flytja Ögursókn undir Vatnsfjörð og Eyrarsókn undir Ísafjörð og með því spara einn prest, sem gert er ráð fyrir að sitji í Súðavík. — Við Strandaprófastsdæmi hef ég ekkert að athuga, ekki heldur Húnavatnsprófastsdæmi. — Í Skagafjarðarprófastsdæmi tel ég að megi fækka prestum.

Í Eyjafjarðarsýslu tel ég ástæðulaust að fjölga prestum. Ég tel ástæðulaust annað en að Vallaprestur þjóni áfram Hrísey. Það var talið gerlegt áður fyrir eldri mann, Stefán Kristinsson, og veit ég ekki til, að nokkur hafi að hans þjónustu fundið, enda þjónaði hann með prýði. Tel ég því, að yngri maður ætti að geta það eins vel.

Í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi er hægt að fækka um einn prest, prestinn, sem nú situr á Vatnsenda. Það væri hagkvæmara að skipta söfnuði hans á milli nágrannaprestanna og færa Brettingsstaði undir Hálssókn.

Nú hef ég í stuttu máli talið upp þá staði, sem ég ætla að koma með brtt. við, og líka þá, sem ég er óánægður með. Í þessu sambandi vil ég benda á, að ég tel nauðsynlegt að taka upp breytingu á sóknaskipuninni. Sóknaskipunin er frá eldgömlum tíma, og er hún leiðinda„apparat“. Hefur henni ekki verið breytt neitt, en þó féllst n. á að færa hluta af Höskuldsstaðasóku undir Blönduós. Í sóknaskipuninni eru svo miklar fjarstæður, að t.d. verður síra Sveinbjörn Högnason að Breiðabólstað að aka gegnum sókn nágrannaprests síns til þess að komast að einum bæ í sinni eigin sókn. Áður var farið yfir fjallveg, en nú liggur bílvegurinn gegnum nágrannasóknina. Í Skagafirði er kirkja að Ábæ í Austurdal, og hefur hún lengi verið í eyði. Tveir bæir heyra undir hana, og eru það Merkigil og Skatastaðir. Jökulsá skilur á milli þeirra. Engin önnur leið er fyrir hendi en erfiður fjallvegur. Það er enginn vegur frá Skatastöðum að Ábæ, og er því sjálfsagt að leggja Ábæjarkirkju niður og láta sóknina ganga inn í nágrannasóknina. Þótt breytingar hafi ekki verið gerðar víðar en við Blönduós, þá er þeirra þörf. Hér á landi er ein jörð, sem tveir virðulegir prestar komu sér saman um, að ætti að heyra undir tvær kirkjur, þ.e.a.s., hún átti að vera sitt árið í hvorri sókninni. Þetta sjá allir heilvita menn að nær ekki nokkurri átt að hafa þannig. Til þess að gera einhverja breyt. á þessu, þá verður fyrst að gera samþykkt heima fyrir, hún verður að ganga gegnum ótal ráð og eftir nokkur ár kennir hún svo í skrifstofu biskups. Það hefur verið viðurkennt nauðsynlegt að breyta þessu, en nefndarmenn töldu það vera fyrir utan verksvið nefndarinnar.

Það má fækka prestum miklu meira en lagt er nú til með þessu frv. Ég tel, að ekki þurfi fleiri presta en lækna. Hins vegar er vafasamt, hvort taka eigi það spor í einu skrefi. Hins vegar ætti að vera hægt að sjá til þess, að prestar hefðu nóg starf að vinna. Það má að vísu taka þetta nokkuð á mismunandi hátt. Aðalstarf prestanna er sálgæzla, og ef það ætti að vera í lagi, þá þyrftu prestar að húsvitja að minnsta kosti tvisvar á ári hverju. Það kann að vera, að er prestur húsvitjar, sé það fallegt, gott og ágætt, en það er nú einu sinni svo, að það eru engir prestar, sem húsvitja nú á dögum. Það kann að vera, að þeir húsvitji fyrsta árið, en svo verður yfirleitt lítið úr slíku. Þessi sálgæzla, sem oft er nú gert helzt til mikið úr, er ekki framkvæmanleg, ef prestur hefur 300–400 manna söfnuð að þjóna. Í kaupstöðum má telja 4000 manna söfnuð sem hámark, eða tífalt fleiri en í dreifbýli. Nú er það svo, að margir prestar hafa önnur verk að vinna með prestsstörfunum, t.d. kennslustörf. Það er nú nokkuð mismunandi, hvað menn leggja að sér í störfum sínum og hvernig þeir sinna þeim störfum, sem á þá hlaðast. Sumir telja hæfilegt að vinna aðeins 8 stundir á degi hverjum, en aðrir starfa 12–14 klst. á degi hverjum.

Ég átti sæti í n. þeirri, sem fjallað hefur um þetta mál, og hef drepið á nokkur atriði og bent á, í hverju till. mínar liggja í þessu máli, en ég vil sérstaklega benda á, að sú rýmkun, sem felst í frv., er til þess að auðvelda mönnum breytingar á sóknartakmörkunum. Í öðru lagi vil ég breyta ákvæðum um prestaköll í Reykjavík, að þau verði þannig, að söfnuðunum sé gefið meira vald en gert er með 2. gr. frv. Enn fremur vil ég benda á, að þrátt fyrir það, sem fram kemur hér, t.d. í ummælum biskups hér í skjalinu, sem fylgir frv., þá er það sjónarmið nokkuð mismunandi. Í fyrra lá prestur þjóðkirkjunnar í Fljótsdalshéraði veikur. Hann var veikur mikinn hluta vetrar, en með leyfi biskups leyft að vera hér í Reykjavík, og einn prestur var þá eftir í öllu héraðinn. Þetta gat svo verið eftir sjónarmiði biskups þá, en hins vegar er það ekki í samræmi við það, sem lagt er til í frv.

Loks vil ég benda á, að margir staðir, þar sem prestssetur eru ákveðin, eru prestunum ofviða. Margir þeirra hafa engar tekjur af búum sínum, og enn aðrir lifa í eymd og volæði fyrir þá sök, að þeim hefur verið ofvaxið að reka búskap á jörðunum. Enn aðrir hafa gripið til þess úrræðis, að þeir hafa leigt jörðina til þess að geta bjargað sér frá búskapnum. Hins vegar tel ég, að það eigi að vera nokkur góð prestssetur, þar sem þeir prestar, sem vilja búa, geti búið góðu búi. Það er bókstaflega illa gert, þegar nýútskrifaðir, skuldugir kandidatar frá prestaskólanum taka við embættum úti í héruðunum, að þeim sé leyft að hefja búskap undir slíkum kringumstæðum. Það er eðlilegra að taka sum af prestssetrunum og leyfa dugandi bændaefnum að reka þar bú sitt, en taka hins vegar nokkrar jarðir, t.d. 10–20, þar sem þeir prestar, sem vilja búa og hafa dugnað og aðstæður til, geti setið að búum sínum. Eins og nú er ástatt, er verið að níða niður prestssetrin meira eða minna, og það er fyllilega tímabært, að breytt sé um viðhorf til þessara mála.