22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal verða við óskum hæstv. forseta um að ræða málið í heild í ræðu minni.

Á síðasta Alþingi var til umr. frv. til l. um skipun prestakalla. Illu heilli var málið þá afgr. héðan frá hv. þd., og þá var mörkuð ný stefna í þessum málum um að fækka prestum. Ýmis prestaköll voru þá felld niður í því frv. Í Nd. var gerð sú breyt. á frv., að það yrði ekki að l. fyrr en 1. jan. 1952, þ.e.a.s., að lögin kæmu ekki fyrr til framkvæmda. Eftir að þetta var skeð, hefur ráðh. sett n. til þess að rannsaka málið, og hefur hann m.a. sett mann í nefndina, sem vitað var fyrir fram að bar fjandsamlegan hug til málsins yfirleitt og hafði sýnt málinu fullan fjandskap við fyrri afgreiðslu þess. Ráðh. hefði því átt að vera það ljóst, hvern árangur starf nefndarinnar mundi bera. Ég lít svo á, að skaðlegt sé að taka þessa stefnu upp. Ég efast um, að séra Hallgrímur Pétursson hefði orðið Íslendingum það, sem hann er, ef hann hefði setið í Reykjavík og þurft að þjóna 10 þúsund manna söfnuði. Og ég leyfi mér að efast um, að séra Matthías Jochumsson hefði ort sín stórbrotnu trúarljóð eða séra Valdimar Briem fært þjóðinni þau verðmæti, sem hann gaf henni, ef þeir hefðu ekki setið í fámenninu og haft tíma til þess að sinna þessum hugðarefnum sínum. Ég er ekki heldur viss um, að Bjarni Þorsteinsson hefði samið lög sin, ef hann hefði ekki getað sinnt slíku starfi með prestsverkunum sökum annríkis. Ég læt þetta nægja til þess að sýna fram á, hvert tjón það hefði verið fyrir þjóðina, ef þessir menn, sem ég nefndi, hefðu ekki haft tíma til að vinna þessi verk.

Mér hefur skilizt, að meginrökin, sem fram eru færð fyrir því að fækka prestum í dreifbýlinu, séu þau, að nú sé komið það gott vegasamband um landið og búið að ryðja svo helztu fjallleiðir, að prestarnir geti ferðazt fleiri kílómetra en áður. Nú gildir þetta ekki nema skamman tíma af árinu. Er haustar að og vetur gengur í garð, stöðvast samgöngur á heiða- og fjallvegum og vegirnir lokast. Á vetrum er ekki þörfin hvað minnst, að prestur sinni söfnuði sínum sem mest og bezt. Hv. þm. N–M., er talaði hér síðast, sagði, að það væri óþarft að hafa svo marga presta. Ég býst ekki við, að það hefði góð áhrif, og líklegt er, að slíkt mundi aðeins stuðla enn frekar að því en orðið er, að fólkið flyttist burt úr dreifbýlinu í þéttbýlið. Það er annars táknrænt, að einmitt sá flokkurinn, sem sérstaklega telur sig vera fulltrúa þeirra manna, sem búa í dreifbýlinu. skuli nú flytja þetta mál með slíku ofurkappi og offorsi. Hvað sem menn annars vilja segja um trúhneigð fólksins og að sumir menn vilji gera litið úr gildi húsvitjana prestanna, þá mælir ekki fátæk ekkja í afskekktri byggð svo, sem kannske er sjúk og vill hafa náið samband við sálusorgara sinn. Hún mælir ekki, hve margir kílómetrar séu til næsta bæjar, og það er henni engin huggun, hvort fært er á jeppa yfir fjarlæga heiði. Það, sem henni er stoð og styrkur, kemur fram í trú hennar og í lifandi sambandi við sinn prest. Sama er um marga aðra úti á landsbyggðinni, sem setja traust sitt á æðri máttarvöld og lifa í trúnni á guð sinn. Mér er sama, þótt hv. þdm. hlæi að þessu. Það snertir mig ekki, en ég sé, að hv. 1. þm. N–M. hlær. Um viðhorf fólksins til þessara mála veit ég eins vel og hv. þm. N–M., og það er ekki sæmandi kirkjumrh. að ætla sér að skera á þessar taugar. Mig undrar það stórlega, að form. mþn. skyldi hafa getað léð sig til þess að láta þetta fara svona frá sér. Það er ótrúlegt, að hann hafi viljað gefa út af sinni hendi þetta plagg, maður, sem starfað hefur í þjóðkirkjunni, séra Sveinbjörn Högnason. Það er ótrúlegt, að hann vilji svipta alla þessa menn sálusorgurum sínum. Mig undrar, að kirkjuyfirvöldin og kirkjuráð skuli setja slík ákvæði sem í þessu frv. felast. Það eðlilega væri að leggja megináherzlu á það, að prestum yrði ekki fækkað í sveitunum, heldur jafnframt fjölgað í fámenninu. Hins vegar virðist þetta hafa gefið hæstv. ráðh. byr undir vængi til að fremja þetta. Hæstv. ráðh. segir: Hér er samkomulag um eitt atriði, og það skal verða lögfest. — Þennan baráttugrundvöll hefur n. skapað, og á honum ætlar hæstv. ráðh. að standa, og tel ég það miður. Ég vík ekki frá þeirri skoðun minni, hve þýðingarmikið það er að hafa presta í fámenninu.

Ein eru þau rök, sem fram hafa verið borin fyrir því, að rétt væri að fækka prestum í dreifbýlinu. Þau eru, að á einstaka prestssetur hafi enginn prestur fengizt. Meginástæðan fyrir því er sú, að ríkisvaldið hefur vanrækt og þverskallazt við að búa þessum mönnum mannsæmandi húsakynni á prestssetrunum, og hafa þeir menn, sem hafa viljað sitja þessar jarðir, hvorki haft hús yfir sig né fénað sinn. Á nokkrum jörðum hefur jarðnæðinu verið skipt á milli prestsins og annars aðila. Á Brjánslæk var jörðinni t.d. skipt, með þeim árangri, að prestinum var ýtt burt, vegna þess að á móti honum bjó maður, sem ekki var hægt að hafa samskipti við. Sama er að segja um Sauðlauksdal. Þar gat presturinn ekki setið lengur, vegna þess að hann hafði ekkert hús yfir kindurnar. Ég tek þessi dæmi aðeins til þess að sýna fram á, hvernig ástatt er um þessi mál.

Ég vænti þess, að þótt hv. Ed. hafi samþykkt þetta frv. í fyrra, þá verði þetta mál athugað gaumgæfilegar að þessu sinni. Sér í lagi vænti ég þess, að hv. menntmn. vandi meðferð sína á málinu og athugi það mjög nákvæmlega. Ég leyfi mér eindregið að leggja það til, að 1. gr. l., sem taka á lagagildi hinn 1. jan. 1952, nú eftir áramótin, komi ekki til framkvæmda.

Það þarf að undirbúa þetta mál miklu betur en gert hefur verið.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál frekar nú. Einstök atriði frv. mun ég ekki fara út í við þessa umr., en hef aðeins skýrt skoðun mína á málinu. Einstök atriði frv. mun ég ræða síðar, er málið kemur frá nefnd, sem ég vona að verði ekki í því formi, sem það er nú.