22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út frá því sjónarmiði, sem fram kom hjá hv. 2. þm. S-M. um kennsluprestaköll, er það að segja, að þar sem gert er ráð fyrir kennsluprestakalli, er sáralítið fyrir einn prest að gera, það má segja, að það sé ekki nema hálft verk.

Það er rétt, að það er erfitt að fá presta á þessa staði, en þeir hafa þar sáralítið að gera, og ég vil í því sambandi benda hv. þm. á það, að ýmsir prestar hafa sótzt eftir kennslu, og margir þeirra hafa mjög gaman af að kenna börnum, og það verður að ætla, að kennsla barnanna verði ekki verr komin í höndum þeirra en hverra annarra. Og enn fremur vona ég, að það verði ekki aðalatriðið fyrir þá presta, sem koma til með að sækja um embætti á næstunni, að sækja um eitthvert embætti, sem þeir þurfa ekkert að gera í, — ég vona, að þeim finnist eins fýsilegt að taka við starfi, þar sem séð verður, að eitthvað sé að gera.

Ég skal taka dæmi um þetta, sem er Hvammur í Laxárdal, skammt frá Sauðárkróki. Það má segja, að svo erfitt sé fyrir prest að komast þangað að vetri til, að ógerlegt sé að leggja þetta prestakall niður, en hins vegar er þar ekkert starf fyrir einn mann, það er kannske einn fjórði, meira er það ekki. Slík prestaköll eru það, sem hugsað er að verði gerð að kennsluprestaköllum, og ég er þeirrar skoðunar, að það verði til þess að gera þessi prestaköll eftirsóknarverðari, en ekki hitt.