22.11.1951
Efri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. kirkjumrh. sagði, að þetta mál væri komið í þingið af því, að það væri svo mikil sparnaðarlöngun hjá ríkisstj., að nú vildi hún fara að fækka embættum. Ég verð nú að segja, að menn hafa ekki almennt komið auga á þennan sparnað enn. Eini sparnaðurinn í sambandi við nefndir og ráð er í viðskiptalífinu, en það kom til af því, að þær nefndir voru orðnar svo illræmdar, að það var ekki talið fært að hafa þær lengur. Og ég get ekki skilið að sú þjóð, sem sífellt heimtar aukna þjónustu, geti um leið heimtað fækkun embætta. Menn verða að skilja það, að um leið og þeir heimta meiri þjónustu af ríkisvaldinu, eru þeir að heimta stærra ríkisbákn. Og mér finnst það koma úr hörðustu átt, ef nú á, um leið og fjölgað er á flestum sviðum ríkisþjónustunnar, að ráðast á þá stétt, sem um aldir hefur rekið starf sitt af prýði, því að það er ekkert annað en blekking að halda því fram, að prestum sé ekki með þessu fækkað. Ég er ekki að fala um stéttina, heldur fólkið, sem verið er að taka frá, og ef ráðh. óskar, þá skal ég benda honum á aðra þjóna, sem meiri landhreinsun væri að, ef fækkað yrði, en prestunum. Ég er alveg viss um, að ef við hæstv. ráðh. settumst saman á bekk, þá sæjum við fljótt, að það eru aðrir þjónar, sem miklu frekar mættu missa sig.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði ekki verið hann, sem hafði áhuga á þessum breytingum, heldur biskupsskrifstofan, og þá mun hann hafa undirbúið frv. í flaustri og drifið það hér inn í þingið, og það er öllum mönnum kunnugt, hvernig hann með ráðherravaldi sínu knúði þetta mál fram í fyrra. Og nú reynir hann að hræða menn með lögunum til þess að knýja þetta frv. gegnum þingið. Þetta er ekki gert af samúð með málinu, og það er ábyrgðarleysi að undirbúa mál með slíkum klækjum og alls ekki sæmandi kirkjumrh.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé eðlilegt að fækka prestum í strjálbýlinu. Þetta er ekkert annað en blekking. Markmiðið er að fækka ekki andlegum leiðtogum fólksins í dreifbýlinu. Markmiðið er, að þeir verði þar þangað til straumurinn snýst við. Hitt er ég honum sammála um, að það sé rétt að gefa prestum meira verk að vinna, og er ég honum sammála um, að vel sé til fallið, að einmitt prestarnir taki að einhverju leyti að sér kennsluna í strjálbýlinu. Í þessu sambandi virðist mér einkum á það litið, hvað hægt sé að komast á jeppa í júní, en ekki hvað hægt er að komast í janúar; það virðist sem mönnum finnist, að þá sé allt í lagi, þó að þessir staðir séu prestlausir og jafnvel kennaralausir líka. Og hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið skylda sin að setja fjandmann málsins í nefndina. En var það þá ekki jafnframt skylda hans að setja mann í nefndina, sem hafði vit á og samúð með málum dreifbýlisins? Hví setti hann ekki einn þeirra presta í nefndina, sem mótmæla fækkun prestakalla á Ströndum, til þess að opna augun á séra Sveinbirni Högnasyni og prófessor Ásmundi Guðmundssyni? Í stað þess setur hæstv. ráðh. í nefndina einn þeirra presta, sem hefur beztar samgöngur í sínum sóknum. (PZ: Kemur ekki snjór í Þingeyjarsýslu?) Jú, en hvaða snjór kemur í Laufási hjá því, sem kemur á Ströndum? Það er sannarlega réttmæt krafa, að einum þeirra presta, sem bezt þekkja til samgönguerfiðleikanna í dreifbýlinu, verði lofað að segja álit sitt hjá nefndinni? [Frh.]