23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er mesti misskilningur, að ég hafi sagt, að ég vildi láta prestatöluna haldast óbreytta, ef þeir gerðu skyldu sína, en ég sagði, að ef þeir gerðu það, mundu þeir gera meira gagn en þeir gera núna. Og þeir gætu vel uppfyllt þær kröfur, sem ég geri til þeirra, en það er að halda uppi safnaðarlífi í sóknum sínum, húsvitja og tala við þá menn, sem þeir eiga að tala við; þeir gætu það vel fyrir því, og er þess vegna ekkert samband á milli þessa og hins, að ég vil fækka prestum niður í þá tölu, að þeir hafi nóg að gera, ef allir gera skyldu sína.

Að öðru leyti þarf ég ekki frekar um þetta að ræða. Það, sem ég hef deilt á kirkjumálastjórnina, ætla ég að standa við, hvort sem er utan þings eða innan, og get, ef hv. þm. Barð. vill, nefnt nöfn til staðfestingar á því, sem ég hef sagt um þetta.