04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst, áður en ég vík að mínum brtt., láta í ljós gleði mína yfir tveimur hlutum. Annars vegar yfir því, að umr. um þetta frv. hafa orðið til þess, að a.m.k. einn prestur, sem vanur er að vera á sínu prestssetri sem selstöðu yfir hásumarið, ætlar að vera þar í vetur. Í öðru lagi af því, að fjöldi af prestum, sem vanalega sleppa niður öllum húsvitjunum, eru nú að húsvitja. Einu sagði við mig í gær, að hann væri búinn að vera hálfan mánuð að húsvitja. Þetta bendir til þess, að þó að frv. verði ekki að l., þá veki það eitthvað svolítið sofandi menn, sem undanfarið hafa vanrækt sín störf meira og minna.

Þá skal ég snúa mér að mínum brtt. Þær eru margar að tölunni til, en fáar, þegar þær eru krufnar til mergjar, því að það leiðir oft hvað af öðru, þannig að sama brtt., sem er sú sama og ein í eðli sínu, verður að gerast við fleiri liði frv. af því, hvernig það er upp byggt. Þessar brtt., sem ég flyt, eru ekki nema brot af þeim brtt., sem ég vildi flytja. En það var svo, að n. klofnaði ekki og ég sætti mig við það að skrifa undir með fyrirvara. Hinir nm. létu af mörgum brtt., sem þeir vildu koma með, og ég lét líka af því, sem ég vildi koma með, en tilkynnti, að þessar brtt., sem ég hér flyt, mundi ég yfirleitt flytja, svoleiðis að þeim er öllum vitanlegt, að þessar brtt. koma fram, nema tvær þeirra, sem ég skal nefna, þegar ég kem að þeim, sem þeir vissu ekki um, en ég hef flutt og eru utan við minn fyrirvara.

Fyrsta brtt. mín er sú, að við Hof í Vopnafirði verði bætt Möðrudalssókn, en henni er nú ætlað að liggja undir prestssetrið Hofteig. Þetta byggist í fyrsta lagi á því, að ég legg til, að Hofteigur sé lagður niður sem prestssetur. Þar hefur ekki prestssetur staðið í 20 ár, og það mundi aldrei kosta innan við hálfa milljón að byggja Hofteig upp og gera hann þannig úr garði, að prestur mundi sætta sig við að koma þangað. Það var í sumar, eftir að bréf kom frá einum manni úr prestakallanefnd, sem lagði fast að sókninni að taka afstöðu til þess, hvort þarna ætti að koma prestssetur aftur, að þá var haldinn fundur, og 42 á þeim fundi voru með því að fá prestssetrið aftur, en 20–30 á móti því, svo að skoðunin var þarna ekki einróma. Ég segi þetta til þess að segja hlutina eins og þeir eru, svo að menn geti áttað sig á því máli með og móti. Nú vil ég leggja Möðrudalssókn undir Hof, af því að með breyttum samgöngum er það heppilegra. Að vísu er heldur lengra niður að Hofi en að Hofteigi, en það er styttra niður að Hofi en niður að Kirkjubæ, þar sem ég legg

til að prestssetur verði. Enn fremur er Möðrudalur búinn að færa alla sína verzlun til Vopnafjarðar, þegar fært er, og þegar ekki er fært, þá er alveg lokað öllum samgöngum milli Jökuldals og Möðrudals, og enginn maður á leið þar um þá, þó að Vopnafjarðarleiðin sé farin, meðan menn verzla þar. Þess vegna er nú orðin greiðari leið yfirleitt allt árið milli Vopnafjarðar og Möðrudals heldur en milli Möðrudals og Héraðs. Þetta er orsökin til þess, að ég tek Möðrudal og legg hann undir Vopnafjörð. Þar við bætist, að Vopnafjarðarprestur hefur ekki nema tvær kirkjur, en Hofteigspresturinn hefur 3–4 kirkjur. Hofteigsprestakall legg ég niður. Ég er búinn að segja, hvernig sóknin skiptist um það. Þar stendur ekki steinn yfir steini; þar verður að byggja allt frá rótum, og það kostar a.m.k. hálfa milljón eða meira, ef dæma má eftir byggingunni á Torfastöðum. Hins vegar legg ég til, að presturinn sitji áfram, eins og hann hefur setið gegnum aldaraðir, á Kirkjubæ, og sá prestur, sem ætlazt er til eftir frv. að sitji á Hofteigi, legg ég til að sitji á Kirkjubæ, og þegar ég geri það, þá er það fyrst og fremst til að verða við óskum hvers einasta manns í Kirkjubæjarsókn og Sleðbrjótssókn. Þegar ég hins vegar í n. klauf hana ekki á þessu, þá er það af því, að þar var aðstaðan sú, að Kirkjubær er ekki kominn í vegarsamband vestur á við. Nú er frv. í þinginu, og ég veit ekki annað en að n., sem hefur með vegal. að gera, taki upp í það að lengja þennan veg og taka hann í þjóðvegatölu. Hér er ekki um að ræða nema 3 km, og þá er Kirkjubær kominn í vegarsamband, og þá er hann bezt settur til að vera prestssetur áfram eins og hann hefur verið frá alda öðli. Þar er líka sæmileg bygging, þótt það sé ekki eins og nýuppbyggt, og þarf í bili engu til að kosta, þó að ég geri ráð fyrir því, að eftir 10–20 ár, sérstaklega ef ekki er haldið við, mundi koma að því, að þyrfti að byggja þar upp kirkjuna. Í sumar var gert við það stóra timburhús, sem þar er. Það er þess vegna bæði til að verða við óskum þeirra manna, sem þarna eiga hlut að máli, og til að spara ríkissjóði uppbyggingu á Hofteigi og af því að ég tel Kirkjubæ betur settan, þegar vegurinn er kominn þangað, að ég legg til, að Kirkjubær verði þarna prestssetur. Að vísu má viðurkenna, að Eiríksstaðir verða lengra frá, en aftur á móti verður Sleðbrjótur nær, svoleiðis að það étur dálítið hvað annað upp. En náttúrlega er auðgert að þjóna þessu öllu frá Kirkjubæ, eins og dæmin sýna, þegar búið er að gera það í 20 ár. En til þess að láta ekki prestinn á Kirkjubæ fá of mikið, legg ég til, að Hjaltastaðarsókn leggist undir Desjarmýri. Um það má deila. Ég viðurkenni, að eins og enn hagar til, þá er erfitt fyrir Desjarmýrarprest að þjóna Hjaltastað. Það mun vanta eina fjárveitingu í veginn enn þá, þangað til hann er kominn yfir, en þegar hann er kominn niður yfir, þá vantar aðeins 3–4 km, til þess að hann sé kominn yfir.

5. brtt. er sú, að í stað „Þingmúlasóknir“ komi: Þingmúla- og Eiðasóknir. — Vallanespresturinn hefur bara tvær kirkjur. Frá Vallanesi að Eiðum eru 24 km og góður vegur, og það er sýnilega upplagt mál að láta hann þjóna þremur kirkjum. Og þar að auki falla þá sóknartakmörkin saman við sýslutakmörkin, eins og hv. 11. landsk. þm. var að leggja svo mikið upp úr, þegar hann talaði um takmörkin á milli Breiðabólstaðar og Kvennabrekku. Eiðar hafa alltaf heyrt undir Kirkjubæ. Og presturinn þar hefur alltaf þurft að fara yfir ána, þegar hann hefur þurft að þjóna. Ég legg því til, að þessi sókn falli undir Vallanes, og Vallanespresturinn fái því þrjár kirkjur. Desjarmýrarpresturinn kæmi þá til með að hafa fjórar kirkjur. Tvær af þeim eru með sárafáa sóknarmeðlimi, Húsavíkursóknin með þremur heimilum eða 19 mönnum og Njarðvikursóknin með tveimur heimilum eða 11 mönnum, þannig að það er rétt á takmörkum, að hægt sé að kalla það sóknir. Þannig fengi Desjarmýrarpresturinn fjórar kirkjur, Vallanespresturinn þrjár kirkjur, Kirkjubæjarpresturinn fengi fjórar og Hofspresturinn þrjár kirkjur. Og þá er ekkert, sem aðskilur prestaköllin innbyrðis og engir erfiðleikar aðrir en þeir, að vegur er ekki kominn yfir milli Borgarfjarðar og Héraðs. En við þetta er líka það að athuga, að breyt. kemst ekki til framkvæmda fyrr en fram færu ný prestaskipti, og maður veit ekki til, að þau standi til, þannig að það er ekki útlit fyrir, að vegurinn verði kominn, áður en þessi breyt. yrði gerð.

Þá er 6. brtt. mín sú, að liðurinn Mjóifjörður falli niður. Þarna er um að ræða eina litla sókn, sem í eru 28 heimili eða 161 maður. N. gerir till. um, að komi þarna kennsluprestur. Presturinn, sem þarna var seinast, átti sjálfur jörðina, sem hann bjó á, og hún er í eigu hans. Ríkið á þarna enga jörð, ekkert hús og engan stað til að vísa prestinum á. Hins vegar er ágæt sjóleið frá Norðfirði með reglulegum bátsferðum, sem alveg er haldið uppi af ríkinu. Ég tel þess vegna, að það sé auðgert mál að láta Norðfjarðarprestinn, sem hefur aðeins eina kirkju, þjóna Brekkusókninni líka. Ég legg það til.

7. brtt. er í því fólgin. að 10. liðurinn orðist þannig: Norðfjarðar- og Brekkusóknir. — Þá fengi presturinn í Norðfirði tvær kirkjur að þjóna. Annarri kæmist hann að vísu ekki til að þjóna nema fara á sjó, en afar tíðar ferðir eru þar á milli, og einnig er fóðurbætir fluttur þarna á milli. Ég vildi því spara ríkissjóði að byggja þarna fyrir prest, er mundi kosta um 1/2 millj. kr., og láta Norðfjarðarprestinn fá eitthvað meira að gera en hann nú gerir, og skal ég í þessu sambandi benda á, að Norðfjarðarprestar hafa stundum verið skólastjórar — ég veit ekki, hvernig það er nú — og stundum verið líka kennarar þar. Það væri þess vegna hægt, sérstaklega þegar maður lítur á stefnu hv. þm. Barð., að ætla þeim að vera alveg við sitt starf og bæta þannig við sig prestsstarfi í stað þess að taka annað starf fyrir aðalstarf, svo sem kennslu.

Þá er 8. brtt. sú, að Brunnhólssókn, sem er sókn á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu og hefur heyrt undir Kálfafellsstað, verði þjónað með Stafafellssókninni. Það er þannig nú og eftir l., að prestur á að vera á Sandfelli í Öræfum. Þar hefur enginn prestur verið nú um langt skeið, á Kálfafellsstað hefur ekki heldur verið prestur um langt skeið. En það hefur verið prestur í Bjarnanesi, sem hefur haft Bjarnanes- og Stafafellssóknir. Ég legg því til, að Brunnhólssólm verði færð undir Bjarnanesprestinn. Það er bara tilfærsla. Ég skal viðurkenna, að það má deila um það, hvort þægilegra er að þjóna prestakallinu frá Bjarnanesi eða Kálfafellsstað. Ekki orkar það tvímælis, að á veturna, þegar vötnin eru á ís, þá er miklu hægara að þjóna frá Bjarnanesi. En á sumrin, þegar vötnin eru ekki á ís, þá má deila um það, hvort hægara sé. Ef hann fer ríðandi frá Kálfafellsstað, þá er betra að fara frá Kálfafellsstað ríðandi en frá Bjarnanesi, nema hann fari beint yfir fljótið, sem er á miðjar síður og stundum efst á síður á hesfum. En ef hann ætlar að nota bíl eða traktor, þá er eins gott að þjóna frá Kálfafellsstað. Það má því deila um það og ekki hægt að segja með rökum, hvort auðveldara sé að þjóna frá Bjarnanesi eða Kálfafellsstað.

Ég legg til, að Hof í Öræfum falli niður sem prestssetur og því verði þjónað frá Kálfafellsstað. Þá þykir mér rétt að létta af þeim presti og láta Bjarnanesprestinn fá þrjár kirkjur, en Kálfafellsstaðarprestinn fá Hof. Það er þannig ástatt bæði á Kálfafellsstað og Hofi, að ómögulegt er að byggja upp frá grunni á báðum þessum bæjum. Á Hofi er ekki til neitt land, sem hægt er að byggja á, og engin aðstaða til að koma þar niður presti. En ríkið á Kálfafellsstað, og þar þarf ekki annað en að byggja upp. Þess vegna er það, að ég vil enn spara ríkissjóði um 1/2 millj. kr. með því að byggja ekki upp á Hofi, heldur leggja prestakallið undir prestinn á Kálfafellsstað.

Þá er 11. brtt. mín um það, að í staðinn fyrir Prestsbakka komi Kirkjubæjarklaustur. Þar er ekki um annað að ræða en það, að síðan núvorandi prestur í prestakallinu var kosinn, hefur hann óskað ettir því að geta heldur verið á Kirkjubæjarklaustri. Þar var byggt yfir hann gott hús og honum útveguð aðstaða til að hafa eina kú og nokkrar kindur. Ég held, að þær hafi verið 50, en ég er þó ekki viss um, hvort þær voru 40 eða 50. Og landið, sem hann fékk, gaf af sér 200 hesta á ræktuðum bletti. Þessi aðstaða var honum veitt á Kirkjubæjarklaustri. Nú er þarna prestur, sem hefur mikinn áhuga fyrir búskap. Hann langar til að búa og getur haft margt fé. Og þess vegna fer hann fram á, að honum verði ætlað að sitja á Prestsbakka og þar byggt upp fyrir hann, sem mundi kosta um 1/2 millj. kr. Ég hef sagt honum; að ég væri á móti þessu, en ég skyldi vinna allt, sem ég gæti, til þess að hann gæti haft bú á Prestsbakka, þótt hann sæti á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann getur haft 500–600 fjár. Það er 5–7 mín. keyrsla á bíl á milli staðanna, og hann á bíl og getur því vel búið á Prestsbakka, þótt hann sitji á Kirkjubæjarklaustri. Og satt að segja heyrðist mér á honum, að hann sætti sig vel við þá hluti. Með þessu fengi hann aðstöðu til að slarfa við sitt fjárbú, sem hann vill. En það kostar hann, að hann verður ekki alveg heima við, þegar hann væri að slá túnið þar. Hann yrði að fara á milli á bíl, en það er stutt leið. Og ef hann færi beint yfir ána, þá væri það ekki nema lítil húsaleið. Og ég hef talað um það við landnámsstjóra, og hann álítur, að ekkert sé því til fyrirstöðu að láta hann hafa Prestsbakka, svo að hann geti haft stórt sauðfjárbú, eins og hann langar til að hafa.

Þá kemur 12., 13., 14. og 15. liðurinn, sem allir heyra saman. Ég legg til, að Kirkjuhvoll, sem er prestssetur í Þykkvabæ, leggist niður. Eftir l. á þessi prestur að sitja að Kálfholti. En þar hefur hann ekki setið um langt árabil. Þess vegna var n. sammála um að leyfa honum að sitja áfram að Kirkjuhvoli, og það leggur meiri hl. n. til. Hann mun hafa byggt timburhús, sem hann býr í. Og ríkissjóður hefur nú keypt það af honum, svo að ríkissjóður á það nú. Þessi prestur hefur engin jarðarafnot í Þykkvabæ, en hann er á þeim stað í sókninni, þar sem þéttbýlið er mest, og vel settur að því leyti, enda hefur hann líka samhliða prestskapnum verið kennari þar við barnaskóla um langt skeið, þannig að hann er að því leyti betur settur í Kirkjuhvoli. Ég legg til, að þetta prestssetur verði lagt niður. Þá hef ég lagt til, að Stórólfshvoll leggist undir Breiðabólstað. Hv. þm. vita, að þar er stutt á milli. Það eru þá þrjár kirkjur, sem Breiðabólstaðarpresturinn fengi, og það er auðvelt. En það er ekki eins auðvelt að fækka um neinn annan af prestunum, t.d. í Odda. Mér þykir miklu skemmra að fara að Odda frá Árbæ heldur en frá Þykkvabæ að Árbæ. En þá er eftir Kálfholt. Ég skal viðurkenna, að það er dálítið erfitt að koma fyrir góðri þjónustu í Kálfholti, sem byggist á því, að presturinn, sem á eðlilegan hátt á að þjóna Kálfholti, hefur langt að sækja. Þarna er nokkuð langa leið um að ræða, eða 34 km. En það er eftir vegi að fara, sem mjólkin er flutt hvern einasta dag allt árið, þannig að óskaplegt er það nú ekki að bæta einni sókn við. En það er þó það, sem er erfiðast af því, sem ég enn þá hef átt við.

Þá er 17. brtt., um að Þingvallaprestakall leggist niður, af henni leiðir svo 16. brtt., að Úlfljótsvatnssókn leggist undir Mosfell, og er það enn ein prestsfækkun. Af því leiðir það, að Úlfljótsvatnssókn er lögð undir Mosfell í Grímsnesi, sem hefur verið þjónað þaðan nú um langt skeið, og Þingvallasókn leggist svo undir Mosfell í Mosfellssveit, sem hefur líka verið þjónað þaðan um langt skeið. Þessum tveim sóknum, sem báðar eiga að hafa sama prestinn eftir frv., er skipt, önnur lögð undir Mosfell í Grímsnesi, en hin lögð undir Mosfell í Mosfellssveit. Að þessu hníga 16., 17. og 18. brtt. Nú er það svo, að þó að Viðeyjarsóknin sé orðin lítil og varla nokkur, þá hef ég samt fulla ástæðu til að taka Brautarholtssókn og færa hana undir Reynivelli. Það er 19. brtt. Reynivellir eru nú með tveimur sóknum og tiltölulega fáu fólki, sérstaklega áberandi fátt fólk þegar maður athugar, hve það er nálægt Reykjavík. Í Þingvallasókn er nú 75 manns, og í Úlfljótsvatnssókn eru 62 menn. Það er ekki mikið yfir 100 manns í þessu prestakalli, sem n. leggur til að sett sé á Þingvelli, en ég legg til að skiptist á milli Mosfellanna í Grímsnesi og í Mosfellssveit.

Þá er 20. brtt., um það, að í staðinn fyrir, að Skálmarnesmúlasókn heyri undir Flatey á Breiðafirði, þá sé hún lögð undir Brjánslæk. Jafnframt Legg ég til, að settur sé kennsluprestur í Flatey. Þetta byggist á því, að það er afar erfitt að þjóna Skálmarnesmúlasókn frá Flatey. Þar eru mjög fáar messur á hverju ári, venjulega innan við 10 og oft færri. Hins vegar er mér sagt, og tek ég það sem sannleika, að nú sé verið að ryðja veg yfir Þingmannaheiði. Og ég veit ekki annað en að í till., sem nú eru hér í Alþingi og munu koma fram prentaðar bráðum frá hv. samgmn., sem hefur haft vegal. til meðferðar, sé lagt til, að vegurinn niður í gegnum Barðaströndina verði tekinn í þjóðvegatölu, sem er líka sjálfsagt að gera. Og mér er sagt, að þar séu till. um það að gera veg frá Vattarnesi og út með firðinum og kannske alla leið út að Skálmarnesmúla. Þegar þessar vegabætur koma til framkvæmda, og þegar búið er að gera þessa vegi, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að hver einasti athugull maður getur séð, hve það er miklu hægara að þjóna Skálmarnesmúlasókn frá Brjánslæk heldur en þjóna þessari sókn frá Flatey. Hins vegar er það rétt, að þessi vegagerð er ekki komin til framkvæmda, þó að hún fari inn á vegal. nú. En þá er þess að gæta, að í Flatey situr ungur prestur, sem er kostaður til að þjóna Múlasókn líka, og hefur hann hana á meðan hann lifir. Hins vegar getur maður búizt við, þó að einhver eldri hrökkvi upp af, að maður þurfi held ég ekki að gera ráð fyrir því, að þessi prestur geri það svo bráðlega. Og við verðum að reikna með því, að þessi prestur sitji í Flatey lengi eftir að vegurinn verður kominn um Barðaströndina og að Skálmarnesmúla einnig, þannig að þessi breyting kemur ekki til framkvæmda fyrr en eftir nokkur ár. Þess vegna er ég ákveðinn í að leggja þetta til, vegna þess að þegar það verður hvort sem er að hafa prest á Brjánslæk, þá getur hann þjónað Skálmarnesmúlasókn líka. Og ég tala nú ekki um, þegar þessi breyting verður komin til framkvæmda, sem ég vona að verði áður en langt um líður.

22. og 23. brtt. tek ég aftur til 3. umr.

Þá kem ég að 24., 25. og 26. brtt., sem binda hver aðra. Það er ætlazt til þess af hv. n., að prestur komi og setjist einhvers staðar að, þar sem hún kallar Ögur. Þó er ekkert prestssetur þar til. Við töluðum um Mjóafjörð án þess að vita, hvar ætti að hola presti þar niður. Að vísu er til þar uppbyggt prestssetur á Hvitanesi. (Forseti: Ég bið þm. að afsaka, en á hann mikið eftir af ræðu sinni?) Ég á eftir 10 mínútur af ræðunni. (Forseti: Þá mun ég óska, að hv. þm. fresti ræðu sinni. — Fundi er frestað til kl. 9 í kvöld.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég ætla að lýsa því yfir, að ég taki 22. og 23. brtt. minar aftur til 3. umr. Að svo stöddu tek ég þær ekki alveg aftur, en þó má vel vera, að ég geri það síðar. Það horfir alveg sérstaklega við um þetta prestakall, og er þarna að mínu áliti ekki nein sérstök þörf á presti á Hrafnseyri. Það eru 92 manneskjur í sókninni og messað hefur verið undanfarin 7 ár á báðum kirkjustöðunum. Það er því ekki bein ástæða til að hafa þar prest. Hins vegar heitir staðurinn Hrafnseyri, og hefur verið skipuð n. á Alþingi til þess að reisa þennan stað við. N. hefur yfir að ráða nokkuð á annað hundrað þús. kr. í því skyni að byggja staðinn upp, en staðurinn er nú fremur illa farinn, þó að hann sé ekki svipað því eins illa farinn og t.d. Hofteigur, Hof og Vatnsfjörður, þar sem allt þarf að reisa frá grunni, til þess að hægt sé að bjóða presti upp á það, og ekki hægt að hugsa sér, að prestur komi þangað fyrr en búið er að byggja þar upp. En nú eru uppi hugmyndir um að sameina byggingu prestssetursins og þessa viðreisn Hrafnseyrar, og er búið að taka um það ákvörðun. Ég vil ekki standa í vegi fyrir því, að samvinna geti tekizt um þetta. Ég hafði hugsað mér að láta till. mína ganga til atkvæða, en kannske yrði hún nú samþ., og þess vegna tek ég hana aftur til 3. umr. Mun ég nota þann tíma til þess að kynna mér, hvernig stendur á um till., hve miklu fé n. hefur yfir að ráða og hvernig hún hefur hugsað sér samband milli starfs sins og viðreisnar prestssetursins.

24., 25. og 26. brtt. mínar hanga allar saman, og er þar gengið út frá því að leggja niður það, sem í frv. er kallað Ögurþing, en prestssetrið hefur verið á undanförnum árum í Hvítanesi, sem var á sínum tíma keypt af ríkinu og ætlað fyrir prestssetur. Nesoddinn milli Hesteyrar og Skutulsfjarðar er einangraður og kemst ekki á næstu áratugum í vegasamband. Þess vegna sá n. sér ekki fært að kenna prestssetrið við Hvitanes, því þó að þar sé uppbyggt prestssetur og til þess ætlazt í lögum, að prestur sitji þar, þá mun hann ekki gera það. Þess vegna kallar hún það Ögurþing, sem annars er brot á þeirri reglu, sem hún hefur fylgt. Það er nýlega kominn prestur í þetta prestakall, og situr hann í Súðavík. Vill hann sitja þar og láta byggja yfir sig þar. Þetta er áhugasamur, ungur prestur, sem vinnur þarna mikið starf fyrir unglingana í Súðavík. Er það meira en hægt er að segja um marga aðra presta. Vill hann vera áfram í Súðavík og láta byggja yfir sig þar. Þá verður að byggja þar frá grunni eða kaupa handa honum hús. Getur þá farið eins með prestssetrið eins og fór með læknissetrið. Læknishúsið, sem var byggt fyrir opinbert fé, stendur nú autt í Ögri, en læknirinn er í Súðavík. Hugsanlegt væri að láta prestinn sitja í þessu læknishúsi, sem er á öðrum kirkjustaðnum. Ég legg til, að þetta prestakall verði lagt niður og Eyri í Seyðisfirði verði þjónað frá Ísafirði. Að vísu er ekki enn þá kominn bilvegur þangað, en ég veit ekki annað en nú sé till. um að leggja þjóðveg alla leið að Eyri í Seyðisfirði. Ef sú till. verður samþ., þá kemst Eyri í Seyðisfirði áreiðanlega í samband við Ísafjörð, áður en sá prestur, sem nú situr þar, fellur frá, ef allt fer eins og almennt má gera ráð fyrir lífi mannanna. Ögur ætlast ég til að leggist undir Vatnsfjörð. Það er sízt lengra fyrir prestinn að fara sjóleiðis frá Vatnsfirði, þar sem prestur situr nú, og að Ögri heldur en að Unaðsdal. (GJ: En Súðavík?) Þar er engin kirkja, en Ögurpresturinn situr þar nú, en ekki er að ræða um neina sókn þar, eins og nú horfir. En eins og ég sagði áðan, er sízt lengra fyrir prestinn í Vatnsfirði að fara að Ögri en fara að Unaðsdal. Það er að vísu rétt, að þá fær hann til viðbótar fjórðu kirkjuna. Færi hann leiðina frá Ísafjarðarbotni að Skálavík, og þá væri ekki eftir nema stuttur spotti til þess að gera þarna. Er því miklu hægara að þjóna Ögri frá Vatnsfirði heldur en Unaðsdal.

Þá geri ég engar breytingar við till. n., fyrr en komið er í Skagafjörð. Þar vildi ég gera ýmsar breytingar, en fell frá því að gera nema eina. Hún er viðkomandi 27., 28. og 29. brtt. minni. Nú hefur presturinn á Vatnsleysu, sem ætlazt er til að flytji í Hóla, Hóla-, Viðvíkur-, Hofstaða- og Rípursóknir. N. leggur til, að Rípursókn sé lögð undir Sauðárkrók. Það er rétt, að það er miklu hægara og léttara að þjóna henni frá Sauðárkróki en frá Hólum. Presturinn er illa settur á Hólum. Hofsósspresturinn hefur hins vegar Hofsóss-, Hofs- og Fellssóknir. Ég tel, að það sé óþarflega lítið fyrir hann, og legg til, að Hofs- og Hofsósssóknum verði bætt við Hóla. Það er 18 kílómetra ferð að fara frá Hólum í Hofsós og skemmra en frá Hólum í Hofstaði. Fellskirkja legg ég til að verði lögð við Barð, sem hefur ekki nema tvær sóknir og fengi þá þriðju kirkjuna. Með því að þarna er oft snjóþungt, þá hefur verið erfitt fyrir Barðsprestinn að hafa meira en þessar tvær kirkjur. En eins og nú er háttað vegasamböndum þarna, þá er mjög auðvelt, þótt snjóasamt sé, að presturinn þjóni litla Felli. Það er ekki lengra fyrir hann að fara en að fara að Knappsstöðum. Einu sinni var kirkja í Stórholti, sem búið er að leggja niður, og hefur hann því tvær kirkjur nú. Eftir minni till. hefur hann þrjár kirkjur til að þjóna, sem er tiltölulega auðvelt veik fyrir hann, jafnvel þótt þarna sé snjóþungt og hann geti þurft að fara um prestakallið á skíðum, sérstaklega innan síns gamla prestakalls. Frá Barði að Felli er snjóléttara, því að það er miklu snjóléttara fyrir innan Barð.

30. og 31. brtt. mínar eru um að breyta aftur þeim till., sem n. gerði um að kljúfa Vallaprestakall í tvö prestaköll. Eins og ég sagði við 1. umr., þá þjónaði þarna gamall prestur allt þangað til hann lét af embætti fyrir aldurs sakir, en þessi prestur Stefán Kristinsson, þjónaði þarna með prýði. Ég tel, að ungir prestar eigi að geta fetað í fótspor hins aldurhnigna fyrirrennara sins og þjónað öllum kirkjunum. Ég viðurkenni hins vegar, að þetta er það prestakall, sem hefur hvað flestar kirkjur, og vafalaust má segja, að það sé rétt að skipta prestakallinu. En við athugun sjáum við, að þetta er ekki eins erfitt og það virðist. T.d. eru Valla- og Tjarnarkirkjurnar með svo stuttu millibili, að það eru ekki nema svona 2 km milli þeirra. ef farið er beint. Sömuleiðis er tilvalið að messa í Stærra-Árskógi, um leið og komið er frá því að messa í Hrísey. Þannig er þetta ekki eins erfitt og kirkjufjöldinn segir til um. En ef Alþingi vill skipta þessu prestakalli í tvö prestaköll, þá á presturinn að sjálfsögðu ekki að sitja úti í Hrísey. Ríkissjóður á margar jarðir og þar á meðal kirkjustaðinn Stærri-Árskóg. Jörðin er laus, þar sem bóndinn dó í vetur. Væri þá helzt, að presturinn sæti á kirkjustaðnum Stærra-Árskógi. Ef hann hefur ekki setu þar, vegna þess að honum þyki sú jörð óhagkvæm einhverra hluta vegna, þá eru nógar aðrar jarðir til. En viðkomandi Stærra-Árskógi er þess að gæta, að þar er búið að byggja heimavistarskóla alveg við túnfótinn, 100–150 m eru frá íbúðarhúsinu niður að skólanum. Þessa ættu þeir að minnast, sem leggja mikla áherzlu á, að prestar séu nærri skólum og hafi áhrif á skólana. Þar að auki þarf ekki að byggja þar allt upp frá grunni, en það þarf, ef hann situr í Hrísey. Þetta vildi ég benda á. Ef brtt. mín verður felld hér í d., má vel vera, að ég komi með till. við 3. umr. um það, að prestssetrið skuli vera í Stærra-Árskógi, en ekki í Hrísey.

Þá er það 2. brtt., við 2. gr., sem er um ráð, sem ætlazt er til að verði myndað hér í Reykjavík og kallað er safnaðaráð. Það verður dálítið sérstætt að því leyti til, að sóknir og sóknaráð eiga yfirleitt að mynda eina heild utan um prestakall, og þá verður eftir frv. Reykjavík skipt í prestaköll, þar sem fleiri prestaköll mynda svo saman sókn utan um eina kirkju, en hér þurfa prestarnir að nota sameiginlega þær kirkjur, sem til eru. Sóknarnefndarformenn og prestar prófastsdæmisins koma sér saman um það, á hvern hátt Reykjavík skiptist í prestaköll, sem verða svo að minnsta kosti alltaf tvö eða þrjú utan nm hverja kirkju, t.d. tvö utan um dómkirkjuna. Það hafa komið til mín margir leikmenn héðan úr Reykjavík, og það formenn sóknarnefnda, sem hafa kvartað yfir því, að í þessari gr. er ætlazt til þess, að safnaðarnefndarformenn og prestar ráði því, hvernig prestaköllin verði í Reykjavík, og vilja fá henni breytt á ýmsa lund. Af öllum þeim breytingum, sem þeir hafa farið fram á við mig, er aðeins ein, sem ég hef tekið til greina. Hún er sú að láta líka safnaðarfulltrúa vera í þessari nefnd. Ef ekki væru nema formenn safnaðarnefnda í þessari nefnd, mundu þeir ráða öllum störfum hennar, en öðru máli gegndi, ef þar væru líka safnaðarfulltrúar. Þetta er það, sem þeir leikmenn, sem hafa talað við mig, eru óánægðir með. Þess vegna legg ég til, að á eftir orðunum „formönnum safnaðarnefnda“ bætist: og safnaðarfulltrúum. Nú eru formenn sóknarnefndar stundum líka safnaðarfulltrúar, og er þá ekki nema einn maður, sem kemur úr þeirri sókn. En líka er algengt, að annar sé safnaðarfulltrúi heldur en formaður safnaðarnefndar, og koma þá tveir frá þeirri sókn. Það var með þetta og ekki annað, sem ég gat komið á móti þeim mönnum, sem hafa talað við mig um þetta. Þeir hafa komið margir til mín og rætt um þetta og bera kvíðboga fyrir þessum málum. Þeir segja sem svo: „Eins og þetta er nú, komast prestarnir vel yfir þetta. Það er ekki bein þörf á að fjölga þess vegna. Það er líka þess að gæta, að sumir söfnuðir hér hafa lagt sig fram um að koma upp hjá sér kirkju. Nú getur allt í einu komið fyrir, að söfnuður klofni, og við það missir hann þær tekjur, sem hann hefur til þess að standa undir þessum lánum vegna kirkjubygginga.“ Þeir segja: „Þið verðið að lofa okkur að halda þessum söfnuðum, sem nú eru, til þess að geta risið undir þeim lánum, sem búið er að taka.“ Þetta segja þeir t.d. í Laugarneshverfinu. Ég hef bent þessum mönnum á, að hér væru sett ákvæði um það, hvernig með þetta skyldi fara, — þeir skuli fá gjöld frá þessum mönnum í nokkur ár. En togstreita út af þessu mundi standa í vegi fyrir því, að farið væri að óskum landsmanna um skiptingu safnaðanna. Það er þess vegna gott, að þessi gr. er komin inn í l., þó að þurft hafi að ákveða með l. breytingar á sóknaskipuninni hér og þar á landinn. Ýmislegt fleira hefur verið talað við mig, og skal ég ekki fara út í það, en vegna þessara manna flyt ég þessa litlu brtt. Ég veit, að það gerir n. fjölmennari, og það er oft verra að ná mönnum á fundi, þegar n. eru fjölmennar og áhugi fyrir fundarsetu og fleiru er svo takmarkaður, en mér finnst rétt að koma til móts við þá í þessu og leyfa einnig safnaðarfulltrúum að skipa safnaðaráð.

3. brtt., við 6. gr., er afleiðing af 1. brtt. og er um að fella niður kennsluprestaköll. Verður líklega að taka þá till. aftur til 3. umr., vegna þess að eins og gr. er orðuð, fellur Hrafnseyri úr henni, en ætlazt er til, að þar verði kennsluprestakall. Hef ég tekið út úr gr. Mjóafjörð, Hof í Öræfum og Hrafnseyri, en bætt inn í hana Flatey á Breiðafirði.

Ég skal þá endurtaka það, sem ég byrjaði á í ræðu minni, sérstaklega af því að ég sé, að biskupinn yfir Íslandi er hér í áheyrendaherberginu, að ég gleðst yfir því að sjá, hvaða árangur hefur þegar orðið af þeim umr., sem hér hafa farið fram. þar sem margir prestar eru nú farnir að húsvitja, þar af einn, sem hefur ekki gert það í 21 ár.