04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

109. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Áður en ég tala um brtt. þær, sem ég flyt við þetta frv., á þskj. 311, .ætla ég að fara nokkrum orðum um frv. sjálft og gang þess.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af hinni svokölluðu prestakallanefnd, sem starfaði milli þinga. Í þeirri n. átti sæti meðal annarra hv. 1. þm. N-M., og er hann sá eini af þessum nm., sem á sæti hér á Alþ. (PZ: Sigurður Bjarnason á sæti á Alþ. enn.) Ég bið afsökunar á þessu, en í svipinn mundi ég ekki eftir öðrum þm. úr n. en hv. 1. þm. N–M., af því að hann á sæti hér í hv. d. — Ég held, að það hafi verið við 1. umr. eða nú í dag, að ummæli féllu hjá þessum hv. þm. á þann veg, þegar hann minntíst á, að n. hefði ekki klofnað, — þá gaf hann í skyn, að hann hefði ekki klofið n. meðal annars vegna þess, að nokkrir menn í n., sem ekki vildu fækka prestum, hefðu slakað nokkuð til, — þm. mælti á þá leið. Þetta bendir til þess, að þm. hafi í n. fengið nokkrum af kröfum sínum fullnægt í starfi n., sem sagt, að n. hafi gengið inn á hans sjónarmið að nokkru leyti, enda má sjá þess merki á frv., þar sem um prestafækkun er að ræða. En nú hefur þessi hv. þm. borið fram brtt. við þetta frv. í yfir 30 liðum. Þetta bendir ekki til þess, að hann hafi verið með heilum huga, þegar hann tjáði meðnm. sínum, að hann væri ekki klofinn frá n. Það getur ekki verið annað en klofningur frá n., þegar einn nm. ætlar sér að gerbreyta því, sem n. er búin að gera, á þann hátt, sem liggur fyrir á þskj. 311. Og brtt. hans fara nú í þá átt að fækka prestaköllum, — ég hef varla getað talið það saman, en ég hygg, að það sé um 8 eða 9 presta, sem hann vill fækka í viðbót, og fyrir fjölgun í stað þess hef ég ekki séð móta neitt hjá hv. þm.

Það, sem ég hef að segja um þetta frv. í heild, er það, að ég er á móti fækkun presta í sveitum; ég vil ekki fækka þeim, nema þá mjög takmarkað og að beztu manna yfirsýn, þeirra manna, sem með þessi mál hafa farið, og ég tel, að það sé skaðlegt fyrir þá staði, þar sem þeim er fækkað. Ég vil fjölga prestum í þéttbýlinu, en það, sem hefur komið fram í frv., er það, að prestum er fjölgað nokkuð í þéttbýlinu, en það er gert á kostnað sveitanna. og eins og ég hafði á orði á nefndarfundi í menntmn. þessarar d., er ég algerlega á móti því. En þetta frv. hljóðar um ýmislegt annað en fækkun presta. þar eru einnig ákvæði um útfærslur á prestaköllum og breytingar á sóknaskipun, og ég álit, þar sem það er líka komið enn þá berar í ljós með undirskriftum presta utan af landi, að Alþ. það, sem nú situr, eigi að samþ. frv. Það er gott. ef fram koma brtt., sem bæta úr þessu, sem ég hef nú minnzt á, og þær ná samþykki. En það er mín skoðun, að þetta frv. hafi ýmislegt annað að geyma, sem sé mikils virði fyrir kirkju og kristindóm í landinu, og þess vegna eigi að samþ. frv. Að því er snertir breytingar á prestakallaskipuninni, ef eitthvað kemur í ljós, t.d. á næsta ári eða næstu árum, sem betur má fara, þá má alltaf breyta því, en höfuðatriðum þessa frv., sem fara í rétta átt, verður ekki komið inn aftur og ekki breytt. Þess vegna álít ég, að það eigi að samþ. frv.

Nú, svo að ég minnist á brtt. þær, sem fram hafa komið, ætla ég ekki að fara mörgum orðum um þær, en vil segja það um brtt. á þskj. 309, sem fer í þá átt að fella niður 7. gr. frv., sem fjallar um aðstoðarpresta, að þá gr. vil ég ekki láta fella niður, því að starf þessara manna á að vera það að ferðast út um land, þar sem vantar presta eða prestar eru forfallaðir eða slíkt og þar sem prestsstarfið er ef til vill í daufara lagi og þarfnast lagfæringar, og ættu þessir prestar að geta komið lífi í kirkjustarfið á þeim stöðum, þar sem þeir koma.

Um brtt. hv. 1. þm. N–M. vil ég segja það, að þar sem ég er kunnugur staðháttum, eru þær ekki til bóta, og vil ég í því sambandi aðallega minnast á Rangárvallaprófastsdæmi, þar sem hann leggur til, að Kálfholtsprestakall verði lagt niður og sú sókn lögð undir Fellsmúla á Landi. Það er opið fyrir öllum kunnugum, sem þekkja til staðhátta þarna, að þetta er gert út úr hreinustu vandræðum, því að hv. þm. er búinn að leggja þarna eitt prestsembætti niður. Hann leggur svo til, að presturinn, sem nú situr í Þykkvabæ, hætti og það prestakall verði lagt niður og því skipt milli annarra prestakalla í prófastsdæminu. — Nú, svo er það þannig í sambandi við mikinn hluta af þessum brtt. hv. þm., að þar er ég gersamlega ókunnugur staðháttum, og getur verið, að sumar brtt. hans um tilfærslur hafi rétt á sér, en ég verð bara að segja það, að ég hef meiri trú á því, að n. hafi þar komizt að réttri niðurstöðu en hv. þm., því að hún var skipuð mönnum, sem voru kunnugir staðháttum og búnir að leggja mikla vinnu í þetta, og verð ég því að segja, að ég tel meira leggjandi upp úr starfi n. en því, sem hv. þm. leggur til í þessum mörgu brtt. sínum.

Ég vil þá víkja að þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 311. Ég vil taka fram, að þar er ekki um að ræða neina heildarbreytingu á frv., heldur aðeins í sambandi við Árnesprófastsdæmi, þar sem ég er kunnugastur og þekki þess vegna bezt til. Þar hefur n. farið inn á þá braut, sem ég minntist á í byrjun, að fækka um einn prest í sveitum, en aftur fjölga um einn prest í þéttbýli, m.ö.o. að setja prest að Selfossi, en leggja niður Stóra-Núpsprestakall. Ég flyt vitanlega brtt. við þetta, því að þarna gengur frv. á móti því, sem ég álít vera rétt í þessu máli, þ.e. að fjölga prestum í þéttbýlinu á kostnað sveitaprestanna. Ég hef ekki á móti því að fá prest að Selfossi að öðru jöfnu, en vil ekki, að það sé gert á kostnað sveitaprestanna. Ég flyt þess vegna brtt. um það, að Stóra-Núpsprestakall haldi sér eins og það er og Hrunaprestakall eins og það er og Hraungerði breytist eitt og þar verði ekki nema tvær sóknir. Stóra-Núpsprestakall er svo þekkt, að ég þarf ekki að lýsa því hér mikið, en vil aðeins geta þess, að samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í frv., verða í því eftir minni brtt. 588 manns, þ.e. í Stóra-Núps-, Hrepphóla- og Ólafsvallasóknum. Hrunaprestakall verður með tæplega 300 manns eftir minni brtt., og Hraungerðisprestakall verður þá, þegar Ólafsvallasókn hefur verið tekin frá því, með 428 manns, en Selfoss með rúmlega 1100.

Nú vil ég einnig geta þess, að þessar sveitir, sem þarna er um að ræða, Hrepparnir, eru í mikilli framför; það er stóraukinn býlafjöldi á hverju ári, býli rísa upp, ungir bændur reisa þar nýbýli á jörðum feðra sinna, og þarna er t.d. mikil gróðurhúsaframleiðsla að rísa upp, þannig að á því er enginn vafi, eigi sveitirnar á Íslandi nokkra framtíð fyrir sér, að þá eigi eftir að stórfjölga í þessum sveitum í framtíðinni, og sé ég því enga ástæðu til þess að vera að leggja þarna niður eitt stærsta og nafnfrægasta prestakallið í sveit, sem svona er ástatt um. En ef til vill hefur þetta, að leggja Stóra-Núpsprestakall niður, verið eitt af því, sem hv. 1. þm. N–M. fékk í sinn hlut, en hafi svo gefið það eftir í staðinn fyrir það að láta einn prest koma að Selfossi.

Ég skal nú láta máli mínu lokið, en vænti þess, að þær brtt., sem fluttar eru við frv. og horfa til bóta, verði samþ. og síðan verði frv. samþykkt.