06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

109. mál, skipun prestakalla

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir það verra, að hv. 1. þm. N-M. er hér ekki viðstaddur, því að það er einmitt út af einni brtt. hans, sem ég vildi segja nokkur orð, og jafnvel hefði ég nú haft löngun til að minnast frekar á þær brtt. En nú ætla ég að sleppa því að tala almennt um þær og aðeins víkja að 30. lið í brtt. hans við 1. gr., um það, að það falli niður úr frv., að skipta skuli Vallaprestakalli í tvö prestaköll. Ef brtt. hans verður samþ., þá mun þetta prestakall vera eina prestakallið á landinu, þar sem presturinn á að þjóna 6 kirkjum. En svo mun vera nú, að þetta er eina prestakallið, sem svo er háttað um. Og þó að þetta ástand hafi nú verið um stund, þá er þess að gæta, að ein af þessum kirkjum, sem presturinn þjónar, er tiltölulega mjög ný, og var hún alls ekki komin, þegar prestakallalögin frá 1907 voru sett. Þá var gert ráð fyrir því, að presturinn þjónaði 5 kirkjum. Auk þess ber að líta á það, að allmikill mannfjöldi er í Vallaprestakalli. Það er með fjölmennustu prestaköllum utan kaupstaða. Þar eru t. d. tvö kauptún og annað allstórt. Ég vil því mæla á móti þessari brtt., og mun ég yfirleitt greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 310.

Mér fannst margt athugavert af því, sem hv. 2. þm. S-M. sagði. Það, sem mér finnst einna vafasamast í þessu frv., eru þessir kennsluprestar, því að eins og hann sýndi fram á, þá er það að mörgu leyti mjög ólíkt að vera prestur og kennari. En ég skal ekki fara nánar út í þetta. — En það er við eitt atriði í ræðu hans, sem ég vil gera athugasemd, og það því fremur, þar sem þetta hefur komið fram hjá fleiri mönnum og þá sérstaklega hv. 1. þm. N-M. Þetta atriði er um það, að hann ber saman lækna og presta og störf þeirra. Ég hef heyrt þessa menn halda því fram, að prestar þurfi ekki að vera fleiri en læknar. Það má vel vera, ef fólkið byggi á litlu svæði, að það væri rétt, að prestar gætu þjónað eins mörgum og læknar. En það er á fleira að líta hér heldur en það, sem þessir menn gera. Það ber einnig að líta á það, hve mörgum kirkjum prestarnir þurfa að þjóna. Læknarnir kalla ekki fólkið saman á nokkrum stöðum í læknishéraðinu til að lækna það þar, heldur koma sjúklingarnir heim til þeirra. En prestarnir þurfa að messa í sínum kirkjum. Þegar prestur hefur t. d. 6 kirkjur og þær eru í dreifbýli, þá getur hann ekki messað í hverri þeirra nema sjötta hvern sunnudag. Sumum finnst það nægilegt, og sumum finnst, að engar kirkjur ættu að vera og engir prestar. Menn hafa svo misjafnar skoðanir í þessum efnum. En þar sem ríkið hefur tekið að sér að reka þjóðkirkju, ef svo má að orði komast, þá verður ríkið að sjá um, að fólkið geti fengið prestsþjónustu svo oft, að forsvaranlegt megi teljast, og að ekki sé mjög mikið misrétti í þessum efnum. Nú mætti segja, að rétt væri að leggja sumar kirkjurnar niður, og getur það verið rétt. En sumt fólk er þannig gert, að því þykir vænt um kirkjuna sína. Ég er uppalinn og var meiri hluta þess, sem af er ævi minni, í frekar fámennri sveit, sem er orðin fámennari nú en hún var, þegar ég fór úr henni. Ég skal játa, að það er ekki sérstaklega langt að fara frá þeim bæjum, sem enn eru byggðir í þessari sveit, til næstu kirkju. En það er nú bara svona, að Öxndælingum, — en þetta er Öxnadalur, — þeim þykir vænt um kirkjuna sína og vilja ekki leggja hana niður. Þess hefur verið farið á leit við þá til þess að efla næstu kirkju meira, en þeir vildu það alls ekki. Þetta er kirkja, sem þeim þykir vænt um, bæði vegna þeirra minninga, sem alltaf eru við kirkjur tengdar hjá mjög mörgum mönnum, og jafnvel af fleiri ástæðum. En ef það á að fækka prestum mikið, þá verður óhjákvæmilegt að fækka kirkjum líka. Og hvað sem líður tölu lækna og hvað sem líður tölu presta, þá eru þetta atriði, sem verða að fylgjast að. Ef fólkið í landinu á að fá þjónustu prestsins, þá má ekki hafa það þannig að gefa sumu fólki í landinu kost á að heyra til prests síns sjötta hvern helgidag, en öðrum kost á því á hverjum einasta helgidegi. Það er ekkert jafnrétti í því. Þetta vildi ég taka fram.

Að öðru leyti vil ég að lokum segja það, að ég held, að það verði mjög vandasamt fyrir hv. deildarþm. að greiða atkv. með þessum brtt. eða breyta frv. á þann hátt, að til bóta sé. Ég játa alveg fáfræði mína um það, hvað sé rétt í þessum efnum víða úti um land. Það þarf staðarþekkingu til þess að geta um það dæmt. Hv. þm. N-M. taldi það skyldu okkar þm. og sérstaklega þeirra, sem eru í samgmn., að hafa Íslandskort og mæla þetta allt saman. Ég er nú ekki í samgmn., og kannske hvílir þessi skylda ekki á mér, en jafnvel þótt Íslandskort væri nú fyrir hendi og einnig eitthvert málband, þá er ég ekki viss um, að það gengi ákaflega vel fyrir ókunnuga menn að mæla þetta allt út og átta sig á því. Það gefur ekki svo nákvæma mynd af landinu, að nægilegt sé. Að vísu munu vera til vegakort og mætti þá mæla vegina á þann hátt, en það kemur bara fleira til greina en aðeins vegirnir. T. d. þurfa prestarnir oft að koma heim á bæina og annað slíkt.

Ég verð nú að láta í ljós, að mér finnst þetta leiðinleg vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð, og hversu mjög n., sem flutti þetta mál, hefur tvístrazt, og eru eiginlega engar leiðbeiningar frá n. í heild. Það væri mjög athugandi fyrir n. og nm. og alla, sem hér hafa flutt brtt., að taka þær aftur til 3. umr. og athuga allt málið á ný, ef nokkur von væri um að fá nánari leiðbeiningar. Það getur vel verið, að þessar brtt. falli, vegna þess að menn treysta sér ekki til að dæma svo um þetta og álíta öruggara að fylgja því, sem milliþn., sem hefur grandskoðað málið, hefur lagt til. Mun ég sem þm. styðja lítið að þessum brtt., sem fyrir liggja.