06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Af því að hv. þm. Barð. sagði, að ég færi með ósannindi viðvíkjandi prestunum í Reykjavík, ætla ég að lofa honum að heyra lög nr. 76 frá 7. maí 1940. og les 2. og 4. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„2. gr. Eftir afhendingu dómkirkjunnar í hendur safnaðarins skal skipta söfnuðinum í 4–6 sóknir. Kirkjustjórnin ákveður takmörk sókna, eftir tillögum prestakallaskipunarnefndar og kirkjuráðs.

4. gr. Sóknir þær, sem nefndar eru í 2. gr., skulu vera jafnmörg prestaköll, og skulu vera í þeim svo margir prestar, að því svari, að einn prestur sé fyrir hverja 5000 sóknarmanna. En ef fólkinu fjölgar, skal prestum fjölga í hlutfalli við fólksfjölda, þannig, að á hvern prest komi sem næst fimm þúsund manns. Skulu þessi prestaköll vera sérstakt prófastsdæmi með dómprófasti. Ákveður héraðsfundur þess prófastsdæmis, hvernig skipta skuli tillagi ríkissjóðs til kirkjubygginga milli sóknanna.“

Þetta sagði hv. þm. að væri fjarstæða. En menn fá nú að heyra, hve rétt hann fer með mál á þingi.

Hv. þm. hélt því fram, að þeir, sem áttu sæti í milliþn., hefðu ekki verið fulltrúar fólksins, heldur fulltrúar sjálfs sín. Prófessorar í guðfræði, sem eiga að kenna mönnum að boða rétta trú, — nei, þeir eru ekki fulltrúar fólksins. Prófasturinn á Breiðabólstað, sem þjónað hefur í einu snjóþyngsta héraði landsins auk síns héraðs, hann á ekki að þekkja neitt til, nema síður sé. Ásmundur Guðmundsson prófessor á ekki að þekkja neitt til fólksins. Hv. þm. Barð. er víst sá eini, sem þekkir til fólksins. Hann segir, að hæstv. ráðh. hafi gert þetta til að losa eina jörð á Ströndum. Hv. þm. Barð. virðist vita um frumhvatir og hugsun manna, þegar þeir gera þetta og hitt. Hann sér alveg í hendi sér, að hæstv. ráðh. hefur ekki gengið annað til en að losa Kollafjarðarnes til að selja eða gefa einhverjum bónda það. Þetta eru alveg dæmalausar getsakir á menn og alveg óheimilar. Ég fullyrði, að a. m. k. þeir fjórir prestvígðu menn, sem sátu í milliþn., hafi ekki haft annað fyrir augum en hvernig prestsþjónustan notaðist sem bezt fyrir þjóðina. Ég tel, að þetta komi að gagni, þó að prestarnir sitji ekki eins þétt og þeir vilja vera láta að sé nauðsynlegt. Þá sagði hv. þm. Barð., að það væri meiri ástæða að hafa presta, þar sem ríkið ætti kirkjuna. Það eru til ýmsar kirkjur, þar sem ekki hefur verið messufært í áratugi. Á ríkið þessar kirkjur? Nei, þetta eru bændakirkjur. Ef hv. þm. langar til að heyra fleira, þá get ég haldið áfram, en ég held, að þetta ætti að vera nóg. Þetta er alveg sami hundavaðshátturinn hjá honum og þegar hann segir að ég þekki ekki l., og hann sagði, að ég hafi rangfært þau í gær. Það er ákaflega viðkvæmt mál að fækka kirkjum, en ég tel, að ekki sé þörf á að hafa kirkju bæði á Staðarbakka og á Melstað, en þetta kemur ekki til okkar kasta. Ég tel, að að skaðlausu megi færa kirkjur saman í landinu. Hann gerði grín og henti gaman að prestum og sagðist alltaf vona, að það væri líf eftir dauðann. Ég veit, að það er líf eftir dauðann, því að mér hefur oft tekizt að losna úr skrokknum og ferðast til annarra staða. Ég get sagt honum annað. Ég hef verið meðhjálpari og það hjá klerki, sem nú er talinn einn bezti klerkur landsins, ég nefni engin nöfn. Ég sagði, að ég vildi ekki vera meðhjálpari, ég vildi vera laus við það, vegna þess að það væru viss atriði í bæninni, sem ég gæti ekki lesið af sannfæringu. Þá segir hann: Heldur þú, að við prestarnir segjum ekki daglega úr stólnum ýmislegt, sem við getum ekki sagt af sannfæringu? — Sá, sem talaði þetta, er einn af beztu prestum landsins. Prestar eru alveg eins og aðrir menn, sumir fara í starfið af köllun, en aðrir fara í það af ytri aðstæðum og rækja það sem embættisskyldu, eins og þessi prestur gerði, þó að hann sé talinn góður prestur. Ég veit það með vissu, að hann er prestur án þess að vera það af hjarta, og þannig er það með ýmsa fleiri. En í þetta ættu ekki að veljast aðrir en þeir, sem fengju köllun til þess og vildu beita sér í sínu starfi.

Það er ekki skiljanlegt, hvers vegna hv. 2. þm. Árn. leggur svo mikið upp úr óskum biskups og presta um að fá frv. óbreytt, en flytur svo brtt. Ef hann á að vera sjálfum sér samkvæmur, ætti hann enga brtt. að koma með, en hann vill bæta það, en hann gerir ráð fyrir, að aðrir vilji gera breyt. til hins verra, en það má alltaf deila um það, hvort það sé til bóta eða ekki. Fyrst hann leggur svo mikið upp úr óskum presta, ætti hann að taka sína brtt. aftur sem rökrétta afleiðingu af því, sem hann sagði.

Ég lofaði hæstv. forseta að hafa þetta aðeins stutta athugasemd, og skal ég ekki tefja umr. mikið. Ég sagði það í dag og ég endurtek það, að ég hef engar sannanir fyrir því, nema síður sé, að það standi minni þjóðarvilji bak við till. mínar en till. hv. þm. Barð. Þó að hann telji sig einan vita vilja þjóðarinnar og vera fulltrúa hennar, þá er það hann — í hans augum —, sem veit það, og aðrir ekki.