07.12.1951
Efri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

109. mál, skipun prestakalla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég skal enn sem fyrr gera lítið að því að tala um þetta mál almennt. Ég get þó ekki annað en látið í ljós nokkra undrun yfir því, hvað umræður um þetta mál hafa farið mikið á við og dreif, og mér finnst, að menn hafi stundum gerzt næstum furðulega órökvísir um þessa hluti. Það kom m. a. fram í gær í ræðu hæstv. forseta deildarinnar, sem venjulega er allra manna rökfastastur, að það væri sérstaklega óaðgengilegt að fækka mikið prestum í sveitum, m. a. vegna þess, að með því væri skapað misræmi milli fólksins í landinu á þann hátt, að þeir, sem byggju í þéttbýlinu, ættu þess yfirleitt kost að hlýða á messu um hverja helgi í sinni kirkju, meðan fólkið í strjálbýlinu ætti þess máske ekki kost að fara til kirkju nema sjötta hvern helgan dag, ef miðað væri við róttækustu till. í þessu efni, þar sem sami presturinn ætti að þjóna í 6 kirkjum. Ég er alveg undrandi yfir því, að þetta út af fyrir sig skuli vera talið svo fráleitt, því að það er vitað, að fólk notar sér það yfirleitt ekki að sækja kirkju hvern helgan dag, þótt það eigi þess kost, og það er því ekki um það að ræða að taka frá mönnum rétt, sem þeir yfirleitt nota. Hins vegar er það svo vitað, að aðstöðumunur manna er óskaplega mikill á mörgum sviðum í þjóðfélaginu, án þess að mönnum komi til hugar, að hægt sé að bæta úr því til fulls. Ef við t. d. lítum á læknisþjónustuna, sjáum við það, að í þéttbýlinu eiga menn þess kost að ná í lækni á örskömmum tíma, en í dreifbýlinu getur oft liðið langur tími, þar til hægt er að ná fundi læknis. Mér finnst liggja alveg opið fyrir, að það getur ekki komið til mála í svo strjálbýlu landi sem við lifum í, að hægt sé að jafna metin á ýmsum sviðum, svo að nálgist jafnræði. Ekki heldur um þá hluti, sem menn þó sækja mest eftir og telja þýðingarmesta, svo sem læknisþjónustu og almennar samgöngur, svo að ég nefni eitthvað. Því finnst mér dálítið undarlegt, að nokkrir menn skuli halda því fram í alvöru, að það beri að leggja sérstaka áherzlu á að laga það misræmi, sem stafar af því, að sumir hafa möguleika á að sækja kirkju um hverja helgi, en aðrir ekki nema á sex vikna fresti, því að vikulegar kirkjugöngur eru þau hlunnindi, sem aðeins örlítill hundraðshluti fólksins í landinu virðist hafa hug á að njóta.

Það komu fram hjá hv. þm. Barð. nokkur atriði, sem ég sé ástæðu til að leiðrétta, því að hann virtist hafa misskilið mig nokkuð. M. a. kom það fram hjá hv. þm., að hann skildi mál mitt þannig, að ég vildi fækka embættum yfirleitt án tillits til þess, hvort þau væru þörf eða ekki. Þetta er auðvitað misskilningur. Ég get endurtekið það, sem ég sagði um þetta í gær, að þegar svo stendur á, að ég get ekki séð, að embættið sé nauðsynlegt, á ég bágt með að ljá atkvæði mitt til þess að styðja að viðhaldi þess. Og mér er ómögulegt að fá sannfæringu fyrir nauðsyn þess að halda sérstakan prest fyrir 100–200 manna söfnuði. — En hver skyldi vera afstaða fólksins sjálfs í hinum afskekktu sveitum? Tökum dæmi: Við getum hugsað okkur prestakall með 100 manns í söfnuði. Nú er það upplýst hér og hefur ekki verið borið til baka, að það mundi kosta allt að ½ millj. kr. að koma upp aðstöðu fyrir prest í sveit, þar sem allt þarf að byggja upp frá grunni. Þar við bætast svo árslaun prestsins, sem munu nema á milli 40 og 50 þús. kr. Nú tel ég víst, að flestir eða allir íbúar á svona stað teldu mjög æskilegt að hafa prest innan sveitarinnar, ef þess væri kostur. En setjum dæmið þannig upp, að þessari sveit væru fengin í hendur umráð yfir fjárupphæð sem þessari og hún mætti ráða því, hvort hún verði fénu til að byggja yfir prest í sveitinni og greiða honum laun eða þá til annarra almennra þarfa í þágu sveitarinnar. Ég er náttúrlega ekki svo nákunnugur hugarfari manna, að ég geti staðhæft nokkuð í þessu efni. En ég er sannfærður um það, að ekkert sveitarfélag mundi verja fjárupphæðinni til þess að byggja yfir prest og greiða honum laun, enda þótt þeim þætti út af fyrir sig gott að hafa hann. — Mér skildist líka á hv. þm. Barð., að hann teldi mig hafa lýst því yfir, að ég fylgdi frv. Þetta er einnig á misskilningi byggt. Ég sagði einmitt, að mér væri ómögulegt að fallast á margar þær breytingar, sem í frv. felast, og mundi ég greiða atkvæði í samræmi við það.

Hv. þm. Barð. hefur mjög oft við þessa umr. deilt á þá nefnd, sem hafði þetta frv. til umræðu á milli þinga. Við því væri út af fyrir sig ekkert að segja, þótt deilt væri á nefndina, ef ekki væri sífellt látið í það skína, að einstakir menn í nefndinni hafi í starfi sínu unnið vísvitandi skemmdarverk. Það hefur borið nokkuð mikið á slíkum málflutningi hjá hv. þm. Barð. Honum hefur verið mótmælt jafnharðan, og hefur hv. þm. hörfað úr einu vígi í annað í þeirri viðureign. Seinast í gær var það landnámsstjóri, sem átti að hafa verið sérstakur misindismaður í þessu máli, og lét hv. þm. orð falla í þá átt, að landnámsstjóri hefði unnið að því að ná jörðum undan kirkjunni til þess að geta afhent þær til vissra aðila. Ég verð að segja það, að þótt hv. þm. Barð. leggi á margt gerva hönd og ég virði hann fyrir hinn mikla dugnað hans að kynna sér öll þau mál, sem fyrir koma hér á þingi, þá álít ég það ofvaxið hverjum manni að viðhafa í sömu andrá guðrækilegar íhuganir um Passíusálma Hallgríms Péturssonar og ferlegar getsakir um fjarstaddan heiðursmann eins og landnámsstjóra. Vil ég beina því til hv. þingmanna, hvort það sé nauðsynlegt fyrir hv. þdm. að viðhafa slíkan málflutning hér í hv. Ed. Og ég leyfi mér að mótmæla eindregið aðdróttunum hv. þm. í garð landnámsstjóra sem og öðrum slíkum málflutningi, sem hann hefur beitt fyrr í þessu máli.