07.12.1951
Efri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það má segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fara nú enn einu sinni að taka til máls, en það, sem hvatti mig til að standa upp, voru aðallega ummæli hv. 1. þm. Eyf. um menntmn. og störf hennar. Hv. þm. var með þungar ádeilur á n. og störf hennar, en ég var nú áður búinn að bera blak af n., en það hefur e. t. v. farið fram hjá hv. þm. Það var þegar séð, er n. tók til starfa, að þar voru jafnmörg álit og höfuðin eru í n. og því auðséð, að ef n. hefði farið að gefa út álit, hefðu þau orðið 4 eða 5. Það var því reynt að athuga frv. og þess óskað, að þeir nm., sem vildu leggja fram brtt., bæru þær undir n., áður en þeir létu prenta þær, svo að meðnm. þeirra gætu atbugað þær. — Ég vil geta þess í sambandi við það, sem hv. 6. landsk. sagði, að ég skal taka aftur til 3. umr. d-lið 1. brtt. minnar og enn fremur 2. brtt. mína.

Ég vil geta þess, að það vakir fyrir mér að slíta sem allra minnst sóknir frá prestum, sem þeir hafa áður haft. Þannig er það um tvær sóknir á Reykjanesi. Ég vil ekki, að Kálfatjarnarsókn sé lögð undir Grindavík og Kirkjuvogssókn lögð undir Útskálaprestakall. Um hinar aðrar sóknir, sem ég get ekki fellt mig við, að verið sé að slíta eina frá annarri, er það helzt að segja, að eins og fram kemur í brtt. mínum, þá legg ég til, að Bjarnarhafnarsókn verði lögð undir Setberg, en ekki Stykkishólm, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er ekki nema skiljanlegt, að þegar fara á að taka eina sókn undan annarri, þá setji þeir prestar, sem fyrir þeirri meðferð verða, sig upp á móti því, en það er annað nú en þegar prestarnir voru nokkurs konar skattheimtumenn og þeir fengu mikinn hluta launa sinna greiddan í ýmiss konar tollum, sem sóknarbörn þeirra inntu af hendi, enda er til gamalt spakmæli, er segir: „seint fyllist sálin prestanna“. Þá voru þeir í sífelldum tollheimtuferðum. (JJós: En nú hafa sýslumenn komið í staðinn.) Já, það er að vissu leyti rétt, og eru þeir ekki vinsælir af starfinu, og gengur það svo langt, að þeir verða næstum eins óvinsælir og heildsalar og stórkaupmenn, og er þá langt gengið.

Ég hef veitt því athygli, og það er rétt hjá hv. 1. þm. N-M., að það er að vakna sterk alda um það, að menn hafi mikinn áhuga um kirkjumál. Mér barst t. d. nú fyrir skömmu skjal frá 75 sálum í Tjarnarprestakalli, þess efnis, að það verði ekki látið hverfa.

Ég hygg, að það sé fremur til skaða en gagns, ákvæðið um þessa tvo farandpresta, því að það er mín spá, að í þau embætti veljist mætir klerkar úr sveitum landsins, og flytjast þeir síðan til höfuðstaðarins og hafa þá ef til vill ekki nema hálflokið sínum Passíusálmum.

Ég vil taka undir það með hv. 6. landsk., að það er full nauðsyn á því, og það engu síður þótt þetta frv. lendi allt í handaskolum, að hreyfa eitthvað við prófastaskipuninni, þar sem ófært má teljast, að í einu og sama prófastsdæminu hafi prófasturinn yfir engum að ráða nema sjálfum sér. Ég lít því svo á, að það þurfi að færa þau mikið saman.

Ég vil svo aftur minnast á sakir þær, sem menntmn. hefur hlotið. Ég leit svo á, að þar sem hún flutti málið eins og það kom frá nefnd þeirri, sem skipuð var til að rannsaka þetta mál, prestakallanefndinni svonefndu, þá væri ekki nauðsynlegt að gefa út nál. Ég bar þetta einnig undir þann mann hér í skrifstofu Alþingis, sem er þessum málum allra manna kunnugastur, og tjáði hann mér, að í svona tilfellum væri það ekki venja að gefa út nál.

Ég læt að svo stöddu útrætt um þetta mál og vonast til, að ég þurfi ekki oftar að taka til máls.