17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú tekið allmiklum breyt., meðan ég var fjarverandi. Það mátti búast við því eftir þeim umr., sem féllu um málið við 1. umr. þess, að einhverjar breyt. — og það jafnvel óvenjulegar breyt. — yrðu gerðar á frv., áður en það yrði afgreitt út úr deildinni. Það er vitanlega ekki svo, að frv., eins og það kom frá þeirri nefnd, sem gekk frá því, og ég mælti með því, væri einhvers konar hæstaréttardómur í þessu máli. Það gefur því að skilja, að það er ekkert óeðlilegt, þótt á því hafi verið gerðar ýmsar breyt. Ég held, að það þurfi ekki að kvíða því, að þetta mál verði ekki afgreitt með sæmilegum hætti hér á Alþ., og því virðist mér ástæðulaust að fara að framlengja um eitt ár, að lögin, sem voru samþ. um þetta mál í fyrra, taki gildi. Og þótt þetta frv. verði enn til umræðu eftir áramótin, sem allar horfur eru á, þá kæmi ekki til mála að framkvæma þau lög, meðan þetta mál væri til umræðu hér á Alþ. Ég held það sé nú svo með þetta mál, sem er talsvert hitamál, að þegar menn hafa rætt það og íhugað í nokkrar víkur hér á Alþ., þá verði komizt að eins skynsamlegri niðurstöðu og búast má við, að hægt verði að komast að. Ég vil enn fremur benda á, að það er vitanlega svo að segja frágangssök að láta þetta mál verða óafgreitt í eitt ár enn, m. a. vegna þess, að mörg af þeim prestssetrum, sem búið er að leggja niður, en leigð hafa verið út, eru í hinni mestu niðurníðslu. Það gefur að skilja, að það er ekki gert mikið fyrir slíkar jarðir, sem leigðar eru út eitt og eitt ár í senn, og þeir, sem leigja jarðirnar, vilja að sjálfsögðu ekki gera þeim mikið til góða, og því eru margar þessara jarða í hinni mestu niðurníðslu. Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja umr. frekar um þetta, því að eins og ég sagði áðan, er málið nú þegar mikið rætt, og ég býst við, að við munum þá geta myndað okkur frekari skoðanir um málið á jafnrúmum tíma og lítur út fyrir, að við fáum, ef frv. verður rætt í janúar.

Nú, það er skemmst af því að segja, að ég hefði helzt kosið, að frv. yrði afgreitt með sem minnstum breytingum, og mun ég því greiða atkvæði með þeim brtt., er stefna í þá átt að koma frv. í svipað horf og það var, þegar það var lagt fram. Ég viðurkenni að vísu, að það getur ýmislegt orkað tvímælis í þessu máli. Það má t. d. með nokkrum rétti halda því fram, að prestar ættu að vera færri í sumum prófastsdæmunum, en ég læt nægja að vísa til þess, að þótt nokkurt ranglæti kunni að þykja koma fram af hálfu ríkisstj. í þessu máli, þá eru nú breytingarnar ekki stórvægilegar og ganga mjög til móts við þær breyt., sem gerðar voru í fyrra. Ég mun þess vegna greiða atkv. með öllum þeim brtt., sem ganga í þá átt að koma frv. í svipað horf og það var áður, en þær eru að vísu ekki margar, en þó nokkrar.

Ég vil þá minnast hér á þessar brtt. með örfáum orðum. Það er þá fyrst till. frá hv. 2. þm. S-M. (VH), sem fjallar um það, að þeir prestar, sem gegna þessum kennslustörfum, fullnægi ákvæðum fræðslulaganna um menntun kennara. Ég sá þessa till. ekki fyrr en í dag, og mér er ekki vel ljóst, hvað í þessari brtt. kann að felast. Það er nú svo, að til kennaranna og þeirra, er starfa að kennslu, eru gerðar vissar kröfur. Nú er það vitað, að prestar hafa að nokkru leyti ekki hliðstæða menntun og kennarar. Á sumum sviðum hafa þeir víðtækari menntun, á öðrum sviðum ekki. Og ég hygg, að ef þetta ákvæði yrði sett inn í frv., mundi það valda því, að þeir prestar, sem ætluðu sér að sinna þessum störfum, þyrftu að verja einum vetri til náms í kennaraskóla og bæta þannig einu ári ofan á prestsnámið. Ég efast satt að segja um, að nokkur þörf sé á að setja ákvæði af þessu tagi inn í lögin. Það hefur verið þannig, að prestar hafa kennt um margar aldir og gera sums staðar enn, og þrátt fyrir hinar afmörkuðu reglur um menntun kennara efast ég um, að kennsla þeirra sé fullkomnari en var og er hjá sumum prestum, sem fullnægja þó ekki þessum formlegu skilyrðum. Það er ástæðulaust að leiða þetta atriði inn í umræðurnar hér um þetta mál, en vitað mál er það, að kennslan fer ekki fyrst og fremst eftir því, hvort kennarinn fullnægi formlegum reglum um menntun, heldur að langmestu leyti eftir því, hvort sá, sem kennir, er upplagður til og hefur áhuga fyrir að annast kennsluna, og þannig hefur það alltaf verið. Kennslugæðin fara fyrst og fremst eftir því, hve upplagður kennarinn er að inna starfið af hendi. Nú höfum við leyfi til að gera ráð fyrir, að þeir prestar sæki helzt um þessi kennsluprestaköll, sem hafa ánægju af að kenna, og má þá ætla, að þeir geti innt sitt kennslustarf betur af hendi en ýmsir kennarar. — Viðkomandi 2. tölulið brtt. á þskj. 422, um það, að ákvæði 6. gr. komi til framkvæmda jafnóðum og kennarastöður losna í hlutaðeigandi skólahverfum, vil ég segja það, að ég tel þetta ákvæði alveg óþarft, því að ég veit, að það kemur aldrei til mála að framkvæma þessi ákvæði með öðru móti en þessu, og skiptir því engu máli, hvort sú málsgr. verður samþ. eða ekki.

Viðkomandi till. hv. þm. Barð. vil ég taka fram, að ég geri ráð fyrir, að ég greiði atkvæði með till. undir 2. lið, um að prestur komi á Þingvelli. Þetta mál hefur verið rætt talsvert, m. a. við Þingvallanefnd, að prestur gegni þarna störfum og verði jafnframt leiðbeinandi á sögustaðnum, og sýnist mér, að það fari ekki illa á því að hafa þarna eldri klerk, sem væri sögufróður og hæfur til að leiðbeina ferðafólki. — Ég hef áður rætt um þá till. hv. þm. Barð. að fresta l. frá í fyrra, og er ég henni andvígur.

Viðkomandi till. á þskj. 481 frá hæstv. utanrrh. vil ég taka fram, að ég er henni samþykkur. Ég var þó fylgjandi því, að heimilt yrði að hafa tvo slíka presta, sem gætu gripið inn í störf annarra presta, er þeir væru forfallaðir, en ég get þó fallizt á þessa till. á þskj. 481 um að hafa slíkan prest aðeins einn. Þessu máli er þannig háttað nú, að líkur eru til, að hægt verði að komast að sæmilegu samkomulagi um það, og ég heyrði t. d. á ræðu hv. 1. þm. N-M., sem hefur nú viljað ganga einna lengst í að fækka prestunum, að hann mundi geta greitt þessari miðlunartill. atkv. sitt, að hafa aðstoðarprestinn aðeins einn í stað tveggja, og má til sanns vegar færa, að það geti verið rétt.

Viðkomandi till. hv. 1. þm. N-M. á þskj. 399, þá verð ég að segja það í sambandi við fyrri brtt., sem er um að flytja prestinn úr Hrísey í Stærra-Árskóg, að ég hef ekki enn þá getað aflað mér þeirra upplýsinga, sem ég fel mig þurfa til þess að geta tekið afstöðu í málinu. Seinni brtt. á þessu þskj. leiðir af þeirri breyt., sem þegar hefur verið gerð á frv.

Þá eru það till. á þskj. 438. Ég er þeim andvígur af sömu ástæðum og ég ræddi um í upphafi máls míns, og ég hef ekki heyrt koma fram þau rök í því máli, sem hafa getað sannfært mig.

Ég held, að ef þetta frv. verður afgreitt eins og horfur eru á í þessari hv. d. og ef það fer, sem auðsætt er, til Nd. og verður athugað þar kannske nú fyrir jólin og svo síðar í janúarmánuði, eins og störfum þings verður háttað, þá sé engin hætta á því, að það fái ekki sæmilega afgreiðslu. Og það horfir allt í þá átt. að sá hiti, sem var í málinu í upphafi, sé nú orðinn minni, og það, sem ég kallaði öfgar og mér fannst gæta töluvert í þessu máli frá tveim hv. þm., — og mér er sagt, að þær hafi ekki verið minni við 2. umr. en við hina fyrstu, en ég var ekki sjálfur þá viðstaddur, — ég held, að þegar við förum að athuga þetta mál og því meira sem við athugum það og ræðum, þá sé það vísast, að við komumst að sæmilegri niðurstöðu, og það bendir til þess, að þær öfgar, sem hafa verið í málinu, séu nú að hverfa. Eins og frv. liggur nú fyrir eftir þær breyt., sem gerðar hafa verið á því, þá eru brtt., sem nú hafa komið fram, ekki stórvægilegar, og koma eðlilega fram fyrir það, að þessar breyt., sem gerðar voru á frv. við 2. umr., verða leiðréttar við þessa umr. Og þó að ekki sé hægt að gera að öllu leyti þær leiðréttingar á frv., eftir því sem ég álít að þurfi að gera, þá er ég ekki í neinum vafa um það, að hægt er að gera þær í hv. Nd. og ekki líkur til annars en þessi d. fallist á þær. En slíkar leiðréttingar verða að biða, þangað til málið kemur til umr. í hv. Nd.