17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef talað í þessu máli við 2. umr. og gerði ekki ráð fyrir því, að ég þyrfti að standa upp við 3. umr.

Ég skal ekki segja um það, hvort þetta frv. batnar nokkuð enn þá. Það getur verið og getur verið ekki. En ummæli hæstv. kirkjumrh. gefa mér ástæðu til að segja hér örfá orð. Hann lýsti yfir ánægju sinni og fylgi, að mér skildist, við þá brtt., sem mér finnst vera einna fáránlegust við þetta frv., en það er brtt. á þskj. 411 frá hv. þm. Barð. um það, að á Þingvöllum skuli vera prestssetur, og er ekkert að segja við því. En 2. málsl. brtt. hljóðar þannig: „Skal Þingvallapresti skylt án sérstakrar greiðslu að leiðbeina gestum, sem heimsækja staðinn og þess óska, um allt það, sem lýtur að örnefnum, helgi hans og sögu.“ — Þetta er ekki viðhlítandi fyrir prestinn á Þingvöllum. Hann á að vera sá eini af þjónum kirkjunnar, sem er ekki háður aldurstakmarki embættismanna. En jafnvel þó að hann verði níræður, ef ellin gefur honum grið, þá er honum ætlað að vera snúningadrengur hjá útlendingum og öðrum gestum, sem heimsækja staðinn, og labba með þeim um sögustaðinn og ekki taka skilding fyrir. Það er ekki hægt fyrir þennan gamla mann að sitja heima og segja dálítið um örnefni og sögu staðarins, heldur þarf hann að fylgja þeim um staðinn. Þetta finnst mér vera álitshnekkir fyrir kirkjuna, og ég álít, að það geti orðið í augum útlendinga heldur niðrun, um leið og það er ofvaxið gamalmenni að vafra um þetta víðáttumikla land með hverjum, sem heimtar það. En um þetta hefur hv. þm. Barð. yfirsézt, og ég segi fyrir mig, að ég ætla ekki í þetta skipti að fjölyrða um þetta. En ég leyfi mér að bera fram brtt. um að fá þessa málsgrein burt.