17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

109. mál, skipun prestakalla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram brtt. á þskj. 422. Hæstv. kirkjumrh. hefur gert þessa brtt. að umtalsefni og bað menn að gera sér grein fyrir, hvað í henni fælist í raun og veru. Mér skildist á hæstv. ráðh., að ef þessi brtt. yrði samþ. og eftir henni farið, þá leiddi af því, að þeir prestar, sem ætla sér að sækja um þessi svokölluðu kennsluprestaköll, yrðu að bæta við sig einu ári við nám í kennaraskóla, og skildist mér á hæstv. ráðh., að hann teldi þetta óþarflega mikið, og meðal annars vegna þess, að prestarnir hefðu fengizt töluvert við kennslu í margar aldir. Það má minna á, að við höfum búið hér í margar aldir án þess að hafa nokkur fræðslulög. Ég veit ekki, hvað yrði gert í þessu prestakallamáli, ef taka ætti mikið tillit til þess, hvað hefur staðið í margar aldir og hvað ekki. En ég get látið þetta liggja á milli hluta.

Hæstv. ráðh. vildi þá halda því fram, að um þessi prestaköll mundu ekki sækja aðrir, að mér skildist, en úrvals kennarar, a. m. k. prestar, sem hefðu mikinn áhuga og sérstaka hæfileika til að kenna. Ég skal ekki endurtaka ummæli mín hér í þessari hv. d., en ég þóttist leiða að því allgild rök, að um þessi prestaköll sæktu ekki fyrst og fremst úrvals prestar, heldur prestar, sem eiga ekki annarra kosta völ og hverfa svo frá þeim síðar, ef þeir sjá sér völ á öðru betra.

Hvað felst í þessari brtt.? Ég vildi nú svara því í fáum orðum með því, að í henni felist staðfesting fyrirætlunar hv. mþn. í þessu máli. Svo mikið er vist, að í greinargerð þessarar hv. n. segir: „Prestar, sem kennslu ættu að hafa jafnframt, mundu verða að fá nokkurn sérstakan undirbúning í því skyni.“ Hér er gert ráð fyrir, að þeir fullnægi þeim skilyrðum, sem l. um menntun kennara setja þar um. Þetta er í greinargerðinni. Ég lét það í ljós í fyrri ræðu minni, að svona spjall í greinargerð mundi í framkvæmdinni reynast þýðingarlítið. Fæ ég satt að segja nokkra staðfestingu á því nú þegar, því að það kom berlega fram hjá hæstv. kirkjumrh., að hann hefur a. m. k. á þessu stigi málsins litið svo á, að í framkvæmdinni yrði fram hjá því gengið, þótt drepið væri á þetta með laglegum orðum í greinargerð.

Það, sem ég vildi segja, er þetta: Það, sem felst í minni brtt., er einfaldlega að staðfesta það í 4., sem ég geri ráð fyrir, að vakað hafi fyrir hv. mþn., að yrði í framkvæmd. Ég vil leyfa mér að segja, að eigi að hverfa frá þeim kröfum, sem fræðslul. gera um það, að barnakennslu skuli annast sérmenntaðir menn, þegar því verður við komið, — það hefur verið svo til ætlazt, þó að ekki hafi ávallt verið kennaraskólalærðir menn við kennslu, — ef á á annað borð að hverfa frá þessu, þá sýnist mér, að það sé tæplega mögulegt að hverfa frá svona stóru atriði með því að skjóta lítilli grein inn í lög, sem fjalla um allt aðra hluti. Það er hins vegar sameiginlegt með báðum stafliðum þessarar brtt., að þeim er ætlað að kveða skýrar á um það, sem hæstv. ráðh. vildi láta í ljós, að hefði vakað fyrir öllum hlutaðeigendum.

Ég get aðeins bætt því við, að ég hef í viðtali við fræðslumálastjóra minnzt á skyldukennslu og menntun í sambandi við þetta frv. Eins og menn kannske muna, þá er vikið að því í grg., að þetta hafi verið borið undir fræðslumálastjóra og hann hafi talið, að það gæti komið til greina að reyna þetta. En hann segir, að það hafi aldrei vakað fyrir sér annað en það, að ákveðið væri í l., að krafizt væri sömu menntunar þarna og fræðslul. gera ráð fyrir almennt um kennara. Einnig hef ég orðið þess var, að samtök kennara hér í Reykjavík hafa áhuga á því að fá þessi ákvæði sett inn í lögin.