17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að hann liti svo á, að þessar öfgaöldur, sem hefðu orðið við 1. umr., hefði lægt og orðið að engu, þá er það misskilningur hvað snertir andstöðu þá, sem ég hef sýnt í þessu máli, því að ég hef ekki breytt um skoðun. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að endurtaka þau rök, sem ég færði hér fram við 2. umr. En það ber ekki að skilja svo, hæstvirtur ráðh., að ég hafi breytt um skoðun í málinu í heild, þó að ég haldi ekki uppi hér neinu málþófi við þessa umr., sem ég tel ekki til neins gagns.

Ég er þakklátur hæstv. ráðh. fyrir að vilja styðja mína till. En í sambandi við þetta mál vildi ég upplýsa það, sem hv. 11. landsk. þm. virtist ekki vita, að hér er ekki verið að stofna nýtt embætti, því að samkv. l. skal prestssetur vera á Þingvöllum, og það var svo til ætlazt í frv. eins og það kom frá hv. mþn., þó að síðar væri fellt niður, að prestssetur skyldi vera á Þingvöllum. (ÞÞ: Mín till. gengur ekki út á það.) En hv. þm. talaði um það, að hér væri verið að stofna nýtt embætti. Það hefur verið þar embætti, þó með nokkrum skiptum á milli tveggja presta. Hins vegar er till. hans um að fella niður úr l., að viðkomandi prestur ætti að hafa þá skyldu að upplýsa gesti, sem þangað kæmu, um staðinn og sögu hans. Ég skil ekki, hvað vakir fyrir hv. 11. landsk. þm. í þessu máli. Hugsum okkur, að útlendir menn kæmu í boði ríkisstjórnarinnar eða annarra til Þingvalla og fengju upplýsingar um Lögberg og aðra slíka merka staði og þá yrði fenginn maður frá Reykjavík til þess að útskýra sögu þessara staða. Ég sé ekki, hvers vegna presturinn má ekki gera þetta og þá án þess að taka gjald fyrir. Nákvæmlega sama er um að ræða, þegar koma þangað skólaflokkar. Ég sé ekki, hvers vegna presturinn má ekki uppfræða ungdóminn um sögu og helgi Þingvalla og það þá án endurgjalds, nema það vaki fyrir hv. 11. landsk. þm., að presturinn eigi að gera það fyrir sérstakt gjald, þar sem hann álítur, að presturinn eigi að vinna sem minnst fyrir aðallaununum og geti svo fengið tækifæri til þess að vinna sér inn tvöföld laun með aukastörfum. Sé það þetta, sem vakir fyrir hv. 11. landsk. þm., þá get ég skilið hans brtt., annars ekki. Þar að auki hefur verið rætt mikið um það hér, hve óeðlilegt það sé, að þessi prestur, sem hlýtur prestakallið, hafi ekki hliðstæðu málefni að sinna. Ég tel það ekki óskylt, þó að presturinn á Þingvöllum hefði samband við það fólk, sem kæmi þangað, og fræddi það um sögu staðarins. — Ég hef lagt til í brtt. minni, að aldurstakmark gildi ekki hvað viðvíkur Þingvallapresti, jafnvel þótt hann sé orðinn 70 ára eða meira. Ef þessi prestur vill vera áfram, þá sé ég ekki, hvers vegna hann þurfi að láta af embætti, þótt hann sé sjötugur að aldri. Þessi brtt., sem ég hef lagt hér fram, mundi ekki torvelda það, að hann gæti innt þetta starf af hendi. Og skal ég ekki ræða frekar um þetta atriði.

Þá vil ég segja nokkur orð um umferðarprestana eða umrenningana svokölluðu. Ég á erfitt með að skilja þessa afstöðu kirkjumálastjórnarinnar að hafa á launum tvo umferðarpresta til að senda þá við og við til að hafa samstarf við fólkið, sem býr í sveitum landsins, og yrði þá einungis það, að þetta fólk hlustaði á ræður, sem þeir kynnu að flytja í dag eða á morgun, en þeir gætu alveg eins flutt í útvarpið. Kjarni málsins er, að prestur, sem býr í sveit, hafi samband við fólkið á ýmsum öðrum sviðum en að halda ræður. En umferðarprestarnir geta ekki haft annað starf en prestsstarfið í sambandi við sín ferðalög. Og hér er í raun og veru torveldað fyrir prestana, sem koma sem nýútskrifaðir kandidatar, að fá embætti með því fyrirkomulagi, ef á að hafa marga umferðarpresta á fullum launum til að inna þessi störf af hendi, og kostnaðarminna verður það ekki. Ég tel þetta misráðið og hygg, að þeir, sem greiddu þessari till. atkv., séu við nánari athugun á þessu sömu skoðunar og ég.