17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég sé satt að segja ekki, að það sé neitt niðrandi í því, þótt prestinum á Þingvöllum sé gert að skyldu að gefa upplýsingar um sögustaðinn þeim gestum, sem ber að garði. Það kann að vísu að vera, að þetta orðalag sé of almennt orðað, að skyldan sé of rík, að það gæti hver og einn gengið á fund prestsins og imprað á við hann að gefa upplýsingar um örnefni og helgi sögustaðarins á Þingvöllum. Nú er ætlazt til þess, að þetta gildi fyrst og fremst um stærri heimsóknir á Þingvöllum, þar sem gefnar séu upplýsingar fyrir stærri hópa manna. Ég sé ekki sem sagt, að þetta sé svo mjög niðrandi, þar sem slíkir menn hafa gert þetta til þessa sem Sigurður Nordal prófessor, sem hefur stundum farið ferðir þangað, og Pálmi Hannesson eða fornminjavörðurinn. Sé ég því ekki, að þetta sé verk, sem setji menn lægra niður, þótt þeir reki sögu Þingvalla í viðurvist erlendra gesta. Og ef sami maðurinn gerir þetta oft, þá gerir hann þetta betur en almenningur annars ætti völ á. Ég segi fyrir mig, að ég tel, hvað sem þessu atriði líður, hvort sem þetta á að standa svona ákveðið í greininni eða ekki, alveg vafalaust, að þetta á að vera eitt af verkum prestsins, því að hann hefur ekki mikið að starfa þarna, en þetta kostar ekki heldur neitt verulegt fyrir ríkið, því að það er vitað mál, að ýmsir dugandi prestar eins og ýmsir aðrir eru vel vinnufærir eftir að þeir láta af störfum, og vilja þeir gjarnan sinna svoleiðis starfsemi og taka laun sín fyrir í staðinn fyrir að taka eftirlaun og gera ekki neitt, svo að kostnaðurinn við þetta verður sáralítill. En hitt held ég samt sem áður að þurfi að taka til athugunar viðvíkjandi skyldunni, hvort hún á að vera jafnundantekningarlaus og ákveðið er. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta eigi að vera hans verk í aðalatriðum og þá helzt, þegar stærri hópa gesta ber að garði.

Viðvíkjandi því, að hann eigi að labba þarna um staðinn, þá má benda á, að það eru ekki nema um 180 metrar út að fyrsta sögustaðnum frá prestssetrinu og gangurinn er ekki nema til hressingar, svo að ég held, að þau orð hjá hv. 11. landsk. þm., að þetta væri einhver þrælameðferð, hafi ekki við nein rök að styðjast. En sleppum því.

Ég skal ekki hafa langa ræðu um brtt. hv. 2. þm. S-M., sem hann lýsti hér áðan. Það kom fram, að þær eru fluttar að undirlagi kennara. Og hann álítur, að það sé mikil firra hjá mér að halda því fram og það væri afturför frá því, sem nú er, ef það ætti að koma fyrir, að ekki væru gerðar allar þær kröfur til þessara manna, sem að forminu til eru gerðar að l. um kennara. Þetta er atriði, sem má rökræða endalaust, og það mundi aldrei verða hægt að ljúka umr. um það. En mín skoðun er sú, eins og kom fram í því, sem ég sagði áðan, að þótt eðlilegt sé, að gerðar séu sérstakar kröfur til menntunar kennara, þá álít ég, að margt af þessum lagareglum sé þannig, að þær séu mjög þýðingarlitlar. Og ég ber minni virðingu fyrir mörgum þeirra, eftir því sem ég hef kynnzt þeim meir, bæði sem einstaklingur og menntmrh. Það er ekki vafi á því, að það, sem hefur verið haldið hér fram í þessu prestakallamáli um þessi brýnn uppeldisfræði, sem er eitt af því, sem þeir eiga að læra sérstaklega, sem við barnauppeldi eiga að fást, eru kenningar, sem eru lítils virði eða vafasamar að minnsta kosti.

Þegar ég var menntmrh., þá byrjuðu tveir ungir menn kennslu, útlærðir úr kennaraskóla, einhverjir duglegustu nemendur, sem þar hafa verið, og annar þeirra er nú þekktur kennari við unglingaskóla hér, en hinn er orðinn skólastjóri, þar sem hann tók við af manni, sem hafði verið veitt skólastjórastaðan án þess að vera lærður í uppeldisfræðinni. Þar sem þessir menn hófu kennslu, voru krakkarnir svo illa uppaldir, að þeir flæmdu þá báða burt. Annar þeirra kom til mín alveg yfirbugaður af framkomu krakkanna, sem hann gat ekki gert neitt við. Hann sagði mér t. d., að ef þau gleymdu blýanti, þá þættust þau ekkert geta skrifað og neituðu að skrifa nokkuð. Og strákarnir tóku þessu ákaflega rólega og komu aldrei með blýant eða pennastöng í skólann og skrifuðu því aldrei neitt. Sagði ég manninum, hvernig hann skyldi haga sér við strákana, og hefur það gefizt vel. Og virðist þetta eina uppeldisfræðslan, sem þessi maður hefur fengið. Ég held nefnilega, að sumt af þessum teóríum, sem við göngum með í dag, eigi eftir að sýna sig að vera á villigötum. En eins og ég sagði áðan, þá hefur hver sína skoðun, og má færa rök fyrir þessari og þessari skoðun, en það, sem ég hef sagt um þessa tvo uppeldisfræðinga, sem ég nefndi nú, er staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá. — Einn af þekktustu höfundum Dana í seinni tíð var á því, að þær uppeldisaðferðir hefðu hrokkið skammt fyrir sig, ef hann hefði ekki lært gömlu uppeldisaðferðina hjá móður sinni, og skal ég ekki blanda því nafni inn í þessar umr., en hann áleit, að þær hefðu dugað bezt, og þannig hugsa ég að það verði það, sem oft nær lengst. En ég get vel skilið, að í því landi, þar sem stéttafrelsið ríkir, þá geri kennarar kröfu til þess, að þessu formi sé fylgt. — Ég skal svo ekki lengja meir umr. um þetta máli