17.12.1951
Efri deild: 46. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er af því, að hv. 2. þm. Árn. skildi ekki, hvað fyrir nefndinni vakti um sameiningu Stóra-Núps- og Hrepphólaprestakalla. — Það vakti fyrir nefndinni, að prestaköllin í Árnessýslu og landinu yfirleitt eru misfjölmenn og miserfið, og vakti fyrir n. að reyna að jafna þau. Sérstaklega er það presturinn í Laugardælasókn, sem nú hefur aðeins 1103 til sálnahirðingar, í stað þess að hann hafði áður á 16. hundrað. En við þetta verða ekki eftir nema liðlega 400, og þykir því eðlilegt að bæta við hann Ólafsvallasókn. Í Hrunaprestakalli verða eftir sameininguna 623. Í sóknum þessa prófastsdæmis eru 26 kirkjur og hægt að fara eftir upphlöðnum vegi á fjarlægustu annexíurnar, þar sem mjólkurpósturinn keyrir daglega. — Upp úr bréfi því, sem þm. las, er ekki leggjandi of. mikið. Hann telur, að þetta hafi verið eitt af síðustu verkum Eiríks Einarssonar á Alþ., en hann sat á Alþ. áratug eftir það.

Þá vildum við láta prestinn á Suðureyri annast kennslu. Hann hefur ekki nema 106 heimili að koma á, og hygg ég, að þau liggi flest í þorpinu, nema 8 eða 9. Ég held, að bæði Selárdalur og Botn séu í eyði. (HV: Ekki Botn.) Þau eru þá kannske níu, en það eru engin ósköp, því að það er stutt að fara, svo að prestsstarfið verður létt. Það var þetta, sem vakti fyrir n. Presturinn þar getur vel sinnt kennslu, og prestur sá, sem þar er nú, fæst eitthvað við kennslu.

Ég vil segja við menn eins og hv. þm. Barð. og hv. 11. landsk., sem vilja samþ. till., sem var á þskj. 337 einu sinni, það er eitthvert annað nr. núna, um að fresta þessu öllu, að það getur vel verið, að það sé rétt að gera það, en það á ekki að gera það hér. Eigi að gera það, eiga þeir, sem eiga að fjalla um það fyrir næsta þing, að fá að heyra um það frá Nd. Það má vera, að eigi að fresta því við 3. umr. í Nd., þegar búið er að sjá, hvað þeir segja um það þar og hvaða breytingar þeir gera á því. (GJ: Eða þegar það kemur hingað aftur?)

Ég skal svo endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel till. dómsmrh. vel viðhlítandi, að sé betra að þjóna Möðrudal frá Skútustöðum en frá Hofi í Vopnafirði, að öðru leyti raunar sama, hvort er, en ég tel, að hana eigi að samþ. — En það er fjarstæða að hafa prest áfram á Tjörn á Vatnsnesi. Þar þarf að byggja allt frá grunni, og slíkt er ekki hægt í svo fámennri sókn, enda stutt að þjóna frá Breiðabólstað. Presturinn kom oft á fund n., og bauðst hann til að gefa hús til að flytja að Tjörn, og lét nefndin einn mann fara og skoða það hús, og reyndist það verðlítið. Vildi hann gefa annað af tveim húsum, sem eru á hans búskaparjörð, en hann hefur ekki setið á Tjörn. — Svo legg ég að lokum áherzlu á, að brtt. mín um Stærra-Árskóg verði samþ.