18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. um skipun prestakalla var til umr. á Alþ. s. l. Fól það í sér, að niður skyldu lögð 10 prestaköll, og mætti töluverðri andstöðu. Loks varð þó samkomulag um, að frv. yrði gert að l., en í þau voru sett ákvæði um, að l. öðluðust ekki gildi að því er varðaði fækkun prestakalla fyrr en 1. jan. 1952. Þá var ákveðið, að ríkisstj. skyldi þegar efna til endurskoðunar á löggjöfinni um skipun prestakalla og að kostað skyldi kapps um að ljúka henni svo fljótt, að hægt væri að leggja fyrir Alþ. næsta haust frv. til l. um heildarskipun prestakalla. Við endurskoðunina skyldi hafa náið samband við biskup, kirkjuráð, Prestafélag Íslands og prestastefnu.

Í sambandi við þetta skipaði hæstv. kirkjumrh. mþn. til þess að undirbúa málið, og lagði n. mikla vinnu í það, eins og kemur fram í grg. frv., eins og það var lagt fyrir Ed.

Meginniðurstöður n. eru þær, að lögð verði niður 7 prestaköll, en tekin verði upp þrjú prestaköll í Reykjavík, eitt á Selfossi, eitt í Keflavík og eitt í Hrísey. Auk þess lagði n. til, að biskup réði tvo aðstoðarpresta til þess að gegna þjónustu í forföllum sóknarpresta og til annarra starfa í þjónustu kirkjunnar.

Hv. Ed. gerði verulegar breyt. á frv., og hefur menntmn. Nd. farið rækilega yfir frv. og breyt. hv. Ed. Lauk svo, að n. varð sammála um málið, eins og sést á nál. á þskj. 647, og leggur n. til, að frv. verði afgr. á þessu þingi með fáeinum breyt.

Fyrst eru tvö prestaköll, Hofteigs- og Hofsósprestaköll, tekin upp í frv. að nýju, en Ed. hafði fellt þau niður. Hins vegar er látið kyrrt liggja um Mjóafjarðarprestakall.

Í öðru lagi flytur n. brtt. út af sameiningu prófastsdæma. Leggur n. til, að þau 10 prófastsdæmi, sem Ed. sameinaði í 5, verði aftur upp tekin. N. vill haga þessu á sama hátt og mþn. lagði til að gert yrði.

Þriðja atriðið varðar skipun sókna í prestaköll og flutning sókna milli prestakalla. Menntmn. þykir ekki rétt að rígbinda þessi mál í lögum, þar sem staðhættir og samgöngur gera eðlilegt, að sóknir séu fluttar milli prestakalla. N. flytur því brtt. um það, að sett verði í 10. gr. heimild til að flytja sóknir milli prestakalla, ef söfnuðir þeir og héraðsfundir, sem hlut eiga að máli, æskja þess. Í samræmi við þetta leggur n. ekki til, að breytt verði ákvörðunum Ed. í þessu efni.

Í fjórða lagi ber svo n. fram brtt. varðandi Þingvallaprestakall. Mþn. lagði til, að prestssetur væri á Þingvöllum og að Þingvallaprestakall hefði tvær sóknir, Þingvallasókn og Úlfljótsvatnssókn. Í Ed. var þetta ákvæði fellt niður og samþ., að ráðh. skipaði prest að Þingvöllum án kosningar, að fengnum till. biskups og guðfræðideildar Háskóla Íslands, og að lög um aldurshámark skyldu ekki ná til hans. Menntmn. Nd. er sömu skoðunar og mþn. um þetta atriði og leggur því til, að þetta verði fært í sama horf og var í frv. upphaflega.

Með þessu eru taldar breyt. n., og er hún sammála um að mæla með þeim, þó að mismunandi sjónarmið hafi komið fram varðandi einstök atriði frv. Hv. þm. A-Sk. hefur nokkra sérstöðu að því er varðar Þingvallaprestakall, og geri ég ráð fyrir, að hann muni gera grein fyrir sérsjónarmiðum sínum.

Um sjálfan mig er það að segja, að þó að ég sé fylgjandi till. mþn. og telji þar margt til verulegra bóta, þá hefði ég talið, að ekki ætti að fækka prestum eins mikið og hún hefur lagt til. Það er að vísu eðlilegt, að lögð séu niður prestaköll, þar sem mikil fólksfækkun hefur orðið, eins og Staður í Aðalvík, Tröllatunga og Auðkúla; hins vegar er ég á móti öðrum till. mþn. og mun greiða atkv. í samræmi við það.

Um málið í heild vil ég segja það, að mörg nýmæli frv. eru til verulegra bóta, og er þess að vænta, að þau verði til þess að auka og efla hina þýðingarmiklu starfsemi kirkjunnar í landinu.

Að síðustu vil ég leggja til, að hv. d. samþ. till. n., og skal geta þess, að n. hefur ekki tekið afstöðu til brtt. einstakra þm.