18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

109. mál, skipun prestakalla

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. hefur gert skilmerkilega grein fyrir afstöðu n. og till. hennar, og þarf ég ekki að bæta við það. En ég hef látið geta þess í nál., að ég hefði fyrirvara um eitt atriði, prestssetur á Þingvöllum. Enn fremur hefur það fallið í minn hlut að eiga þátt í afgreiðslu þessa frv. og einnig þess frv., sem samþ. var í fyrra, en þau ganga nokkuð sitt í hvora átt. Ég hef ekki tekið til máls áður um þetta og vil því segja nokkur orð um málið í heild.

Núgildandi löggjöf um skipun prestakalla er að stofni til frá 1907. Það er því tímabært, að hún sé endurskoðuð, enda hefur oft verið hreyft breyt. á þeim 40 árum, sem liðin eru síðan l. voru sett. Með breyt., er gerð var á l. árið 1940, var prestum fjölgað í Reykjavík.

Á árunum eftir 1930 var atvinnumálum þjóðarinnar þannig komið, að ástæða þótti til að gæta sparnaðar. Þá var skipuð mþn. í launamálum, sem starfaði árin 1933–34 og vann merkilegt verk. N. þessi lagði fram álit og till., sem mikinn fróðleik hafa að geyma, og var þar m. a. lagt til, að prestum yrði fækkað. Var frv. um það flutt á þinginu 1935. Skoðanir voru skiptar meðal þm. um þetta mál og sjálfsagt meðal fólksins líka. Þar, sem ég þekkti til, tók fólk þessu þó með ró og treysti fulltrúum þjóðarinnar til þess að leysa málið. En við, sem bjuggum þar, sem sameina átti prestaköll, urðum þess varir, að órói hafði gripið nokkra menn, sem sátu í embættum í Reykjavík. Við, sem unnum að því að ávaxta gróður jarðar, fengum í hendur skilríki frá prestvígðum mönnum í Reykjavík með ósk um, að þau væru borin frá manni til manns. Einn kunnur prestur, sem hafði með höndum umfangsmikið prestsstarf úti á landi, séra Eiríkur Helgason, ritaði þá grein um þetta mál. Þar er m. a. komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er á hvers manns vitorði nú orðið, að innan skamms verða bornar fram tillögur um talsverða fækkun á starfsmannaliði þjóðarinnar, og er vitanlega ekki nema gott eitt um það að segja, ef það er fært. Fámenn þjóð, sem býr í stóru landi, hlýtur alltaf að hafa fjölmennt starfsmannalið, og kaupgreiðslur til þessara starfsmanna verða því óhjákvæmilega þungur baggi, sem bundinn er á herðar alls almennings í landinu. Það er því augljóst mál, að þann bagga má ekki gera þyngri en þörf krefur.

En í sambandi við þessa væntanlegu starfsmannafækkun hef ég frekast heyrt talað um stórfellda prestafækkun. Langar mig að skýra frá því, hvernig þetta horfir við frá mínum bæjardyrum, enda ætlast ég til þess, að 16 ára prestsskapur hafi gefið mér nokkur kynni af málinu.

Því hefur verið haldið fram, að prestastéttin hafi á liðnum öldum átt drjúgan þátt í því að halda uppi menningu þjóðarinnar, og ég veit, að þetta er satt. Sá hlutinn af starfsemi prestanna fyrr á tímum verður seint of hátt metinn. Ekki dettur mér heldur í hug að halda því fram, að prestar nútímans séu menningarsnauðari menn en stéttarbræður okkar voru fyrr á tímum, öðru nær. En samt er það nú svo, að við prestarnir erum ekki lengur þau ljós á vegum almennings í menningarefnum, sem prestar liðins tíma voru, en það stafar af því, að þá menningu, sem alþýða manna fær nú á tímum, hana fær hún eftir ýmsum leiðum og margar þeirra liggja alveg fram hjá okkur prestunum og það að vonum, því að kirkjan hér sem annars staðar hefur frekar barizt á móti nýjum straumum og nýjum viðhorfum heldur en að hún hafi rutt þeim braut. Þessi gamla og markverða ástæða um menningargildi prestastéttarinnar á því ekki lengur þá stoð í veruleikanum, sem hún átti áður fyrr.

Þá hefur því verið haldið fram, að nú sé þegar búið að fækka prestunum svo, að ekki sé fært að gera meira þar að. Já, það er satt, að prestunum hefur verið fækkað smátt og smátt alla tíð síðan um siðaskipti, og stærsta stökkið um fækkunina var tekið árið 1907. En þá, sem halda, að þá hafi verið fundið það skipulag þessara mála, sem haldast skuli um aldur og ævi, má minna á það, að síðan þetta gerðist hafa ýmsar breytingar orðið á landi hér. Vegir hafa batnað, vötn hafa verið brúuð, og samgöngutæki eru viða gerólík því, sem áður var. Sum stórvötnin, sem nú á síðustu árum hafa verið brúuð, voru þá eðlileg og sjálfsögð mörk milli prestakalla, en eru nú enginn farartálmi lengur, og á nokkrum stöðum veit ég að auðvelt væri að messa á tveim kirkjum samdægurs vegna breyttra samgöngutækja og bættra vega, en hefði verið ógerlegt að messa nema á einni fyrir fáum árum. Og hér við bætist þó það, að vegakerfið stendur til bóta og ef til vill samgöngutækin líka.

Þá má einnig minnast á útvarpið. Þó að það sé ekki gamalt í landinu, þá hefur það þó orðið til þess, að þeir, sem hlusta á messu nú, eru sennilega fleiri en nokkru sinni fyrr, og á það þó eftir að ná til miklu fleiri á næstu árum en það gerir nú. Þau eru orðin býsna mörg heimilin í landinu, sem kjósa þann kostinn fremur að hlusta á messur útvarpsins heima hjá sér heldur en að fara um langan veg og setjast þar inn í hálfkalda kirkju. Að vísu veit ég það, að ýmsir eru þeir, sem ekki eru meira en í meðallagi ánægðir með þá trúmálastefnu, sem ríkjandi er í messum útvarpsins, en lagfæring á því fæst ekki með því að fjölga prestunum eða viðhalda svo og svo mörgum prestsembættum í landinu, heldur með því að breyta tilhöguninni um útvarpsmessurnar, og það er fyllilega réttmæt og sjálfsögð krafa, þó að hún sé þessu máli óviðkomandi.

En á þá að leggja niður öll prestsembætti í landinu? Nei, öðru nær. Meðan þjóðin hefur nokkra þörf fyrir að hafa presta, þá á ekki að gera það, og ég vona, að til þess komi aldrei, að prestarnir reynist svo óþarfir, að skaðlaust verði að vísa þeim öllum á dyr. Þjóðin á einmitt að hafa svo marga presta sem hún hefur þörf fyrir, en ekki fleiri. Á hinn bóginn á hún að launa prestum sínum svo, að þeir geti lifað af þeim launum, og ég veit, að það er krafa okkar prestanna allra og sanngjörn krafa, að laun okkar verði bætt til muna. Og þar er þá loks enn ein ástæðan fyrir því, að það er sanngjarnt að fækka prestunum, því að móti fullkomnum launum eigum við vitanlega að leggja fullkomið starf, en nú er það svo, að ýmsir prestar geta haft prestsskapinn í ígripum, af því að þeim er ekki víðara verksvið ætlað.“

Mér þótti bæði rétt og eðlilegt að minna á þessa rödd. Ef menn hafa munað eftir þessu 1935, þá er ekki nema sanngjarnt, þótt ég ætlist til þess nú, því að það hefur ekki það mikið breytzt þessi 15 ár, jafnvel þótt miklar framkvæmdir hafi átt sér stað. Ég hygg, að svipuð hugsun ríki hjá þm. yfirleitt, að þeir vilji bæta þetta frv. eins og hægt er og gera það eins vel úr garði og þeir geta.

Það hefur verið talað um það á opinberum vettvangi, að ríkisbáknið væri að þenjast óeðlilega út og þörf væri á að draga það saman. Sú ríkisstj., sem nú fer með völd, sýndi nokkra viðleitni til þessa í fyrra. Við þm. höfum orðið þess varir, að sú stefna ríkisstj. fékk góðan hljómgrunn og betri en stefna hennar í því, sem nú ræðir um. — Þegar við fórum að fjalla um mál þetta hér á þingi, kom það fram frá ýmsum kunnum mönnum, að þeir gátu ekki sætt sig við þá afgreiðslu málsins, sem fyrirhuguð var. Þeir töldu fráleitt annað en að sem flestir fengju að fylgjast með afgreiðslu málsins út á við. Ég benti á þetta, þegar umr. um þetta byrjuðu, að það bæri að taka þessa ósk til greina. Síðan hafa farið fram allmiklar umr. um þetta mál, bæði á Alþingi og þess utan í blöðum og almennt á opinberum vettvangi.

Það er sagt, að sagan endurtaki sig, og sagan frá 1935 virðist ætla að endurtaka sig. Nú liggur hér fyrir frv., undirbúið af milliþn., og er nú komið fram álit hennar. Tveir nm. gera grein fyrir því, að þeir vilji ekki leggja niður eins mörg prestaköll og n. lagði til, en einn vildi fækka prestunum meira en n. gerir í till. sínum. Nú er málið lagt þannig fram, að prestaköll í landinu eru 115, en ættu að vera 118, ef l. um fjölgun presta í Rvík frá 1940 væru framkvæmd. Till. n. eru, að þrestaköll skuli vera 114 og 2 aðstoðarprestar, þ. e. a. s. samtals 116. Í fyrra var það meginatriðið, að fækka skyldi prestum um 10, en samt skyldi fjölga prestum í Reykjavík. Það, sem milliþn. leggur til, er, að prestum verði fækkað um 7, en ekki 10, en ákvæði um presta í Reykjavík séu þau sömu og 1940, að hver prestur hafi 5000 manns, en úti á landi skuli 10 prestum lögð á herðar aukastörf án verulegrar kauphækkunar og tilfærsla verði á nokkrum sóknum úti á landi.

Þetta er munurinn á málinu nú og í fyrra. Í fyrra sögðu forvígismenn prestastéttarinnar: „Þessi endurskoðun er ekki viðunandi.“ Nú segja þeir: „Þetta frv. er eitt hið mikilvægasta, sem fram hefur komið.“ Hygg ég, að það fari fleirum en mér að ganga illa að skilja þetta, að þessi breyt., sem gerð var, orki svo miklu, en vitaskuld er það gott, ef þetta getur orðið til samkomulags.

Það hefur komið fram við umr. og endurskoðun málsins, að það er bæði vandasamt og viðkvæmt. Það hafa komið til þingmanna umsagnir um það, og hafa margar þeirra umsagna reynzt jákvæðar, en við skulum gera okkur grein fyrir því, að þær hafa líka reynzt neikvæðar. Við skulum taka tvö dæmi: Í umsögn af Austurlandi segir: „Héraðsmönnum kæmi betur, að settur væri læknir en prestur á Hofteig.“ Í umsögn af Vesturlandi segir: „Fari svo, að óskir og vilji manna verði virt, þá verður þessu skipað á annan hátt en nú.“ Hér er allstrítt talað. Við þm. vitum, hvernig það gengur til með umr. um fjárlfrv. á ári hverju. Sannleikurinn er sá, að þegar einhver einstök stétt verður vör við sparnað, sem getur snert hana, þá er ekki að hennar dómi hægt að spara. Og það hefur komið fram í sambandi við þetta mál, að prestastéttin er ekki ólík öðrum stéttum í þessu efni. T. d. hafa kennslumálin alltaf verið mikið umdeild. Vitanlega eru þau stór þáttur í lífi þjóðarinnar. En það er ekki nóg að afgr. fjárl. þannig, að þau mæti sem mestum vilja hjá fólkinu. Það verður líka að hafa í huga almenna lagasetningu.

Það væri freistandi að rifja upp hin ýmsu sjónarmið, sem fram hafa komið, og gera þeim nokkur skil. En ég vildi aðeins velja þau sjónarmið, sem sett hafa verið fram, eftir að málið hlaut afgreiðslu í Ed. Það er vitað, að kirkjan í þessu landi var auðug fyrir daga Lúthers. Hann vildi, að yfirráðin færðust í hendur konunga. Alþingi hefur tekið við valdi konungs, en það er Alþingis að þjóna kirkjunni, en ekki drottna. Þar sem ég hef tekið fram þetta sjónarmið, þá ætla ég að greina frá, hvernig þetta er frá mínu sjónarmiði. Við skulum athuga, hvernig kaþólska kirkjan var fyrir daga Lúthers. Skyldu þá ekki hafa verið álíka sjónarmið ríkjandi og nú? Það eru fjölmörg dæmi um aðgerðir kirkjunnar, sem samræmast alls ekki nútíma hugsunarhætti. Saga þjóðarinnar greinir frá því, hvernig kirkjan var drottnandi höfuðvígi.

Við ýmsa staði í landinu eru tengdar sögulegar minningar. Sumir vilja hafa þær að grundvelli þess, hvar prestar eigi að sitja í landinu. Má þar t. d. minna á Hrafnseyri, þar sem 92 menn eru í prestakallinu og 17 heimili; þau rök hafa verið færð fyrir því að setja prest þar, að Jón Sigurðsson forseti hafi fæðzt þar. Sama á sér stað um Stóra-Núp; sálmaskáldið Valdimar Briem sat þar. Sá ljóður er nú á, að prestur situr ekki lengur þar, og er það ekki sök Alþingis. Ef á að grundvalla skipun prestakalla á sögulegum rökum, þá rekur hver spurningin aðra. Ef prestur á að sitja á Stóra-Núpi til minningar um Valdimar Briem, á þá ekki að setja prest að Skógum í Þorskafirði til minningar um kennimanninn, sem gaf okkur þjóðsönginn og margt fleira, sem helzt er gripið til á helgustu stundum lífsins? Á þá ekki að sitja prestur á Staðarbakka í Miðfirði til minningar um kirkjuhöfðingjann, sem þar fæddist? Og hvað um Holt á Síðu eða Hraun í Landbroti og minningu kirkjuhöfðingjans, sem grundvallaði evangelisk-lútherska kirkju í Skálholtsbiskupsdæmi? Samkvæmt breyt. Ed. á frv. er settur prestur á Þingvöllum. Auk þess að þjóna 11 heimilum er gert ráð fyrir, að hann hafi það starf að sýna gestum staðinn og gera grein fyrir örnefnum staðarins. Mun þetta hugsað svo fyrir þær sakir, að kristnitakan hafi farið fram á Þingvöllum árið 1000. Nú er það svo, að allmargir landnámsmanna voru kristnir, kristniboð fór fram á ýmsum stöðum, og kristnitakan fór fram á Þingvöllum aðeins fyrir þær sakir, að Alþingi var háð þar. Helgi Þingvalla er því ekki bundin við kirkjuna, heldur við Alþingi. Maðurinn, sem lýsti því yfir, að kristni skyldi lögtekin, var að sönnu goði, en hann gerði það ekki vegna þess, heldur sem forseti Alþingis eftir þeirra daga þingsköpum. Og ef þörf er fyrir að hafa þar sérstakan mann til þess að taka á móti gestum, þá er það ekki hlutverk kirkjunnar að vinna það verk. Væri það miklu frekar hlutverk Alþingis að heiðra minningu þess staðar en kirkjunnar. Mun ég ekki fylgja þessari breytingu. Kirkjan á aftur á móti sína sögustaði, sem eðlilegt væri, að hún hlynnti að og sýndi ræktarsemi. Má þar fyrst til taka Skálholt, hið forna biskupssetur, sem Gizur gaf kirkjunni með þeim fyrirmælum, að þar skyldi ávallt vera biskupssetur, á meðan Ísland byggðist. Þá má og nefna Hóla í Hjaltadal. Kirkjan á sína sögustaði og hefur næg verkefni að vinna við að sýna þeim rækt. Í grg., sem fylgir frv., er ástandi Skálholtsstaðar lýst átakanlega. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Helzt til lengi hefur Skálholt verið annexía og í niðurníðslu, og krefst nú þjóðin þess, að staðurinn verði endurreistur. Einn liður í þeirri viðreisn á að vera sá, að þar komi prestur og gegni hann öllu Torfastaðaprestakalli, sem áður var. Verði Torfastaðir seldir og andvirði þeirra varið til húsbyggingar í Skálholti. Þetta er einnig í samræmi við það, sem þegar hefur verið ákveðið með Hóla í Hjaltadal.“

Hér stendur, að þjóðin krefjist þess, að staðurinn verði endurreistur, en hvað um kirkjuna sjálfa? Ég hef þá gert grein fyrir mínu sjónarmiði. Það er vandi að feta sig í þessum efnum eftir sögulegum rökum. Ef slíkt ætti að gera, ætti ekki að draga lengur að koma því í kring, að biskupssetur verði að nýju í Skálholti.

Það, sem ég vil leggja til grundvallar í þessu máli, er það, að fólkinu verði séð fyrir kirkjulegri þjónustu, án þess að kostnaður verði meiri en nauðsyn krefur. Til að ná þessu marki koma 3 leiðir til álita: Í fyrsta lagi, að prestarnir séu margir, en laun þeirra fari eftir svipaðri reglu og laun kennara. Kennarar eru margir í landinn, og um laun þeirra gilda sérstakar reglur, þannig að laun þeirra eru allbreytileg og fara eftir starfstíma. Þeir, sem eru á fullum launum, starfa í 9 mánuði árlega, en laun kennara lækka hlutfallslega, þegar kennslutíminn er styttri. Nú fer eftir staðháttum, hvernig kennslu er hagað í hinum ýmsu landshlutum. Til fróðleiks vil ég drepa á, hvernig þessu hefur verið hagað í vetur. Það er líka athyglisvert í sambandi við tal manna um styttingu skólaskyldunnar. — Barnakennarar við barnaskólana í landinu eru samtals 562. Þar af eru 271, sem starfa í 9 mánuði, og fá þeir full laun. Í 8 ½ mánuð starfa 9 manns, 100 manns í 8 mánuði, 5 í 7 ½ mánuð, 63 í 7 mánuði, 5 í 6½ mánuð, 69 í 6 mánuði, 1 í 5½ mánuð, 11 í 5 mánuði, 2 í 4½ mánuð, 17 í 4 mánuði, 7 í 3 mánuði, í 2½ mánuð og 1 í 2 mánuði. Launagreiðslurnar fara svo eftir þessu. Ef prestarnir gætu nú fallizt á svipaðan grundvöll, að launagreiðslur færu eftir því, hve umfangsmikil störf væri um að ræða, væri hægt að fjölga prestunum. Með því móti væri grundvöllur fenginn fyrir því að hafa prestana marga, en það liggur ekki fyrir, að vilji sé fyrir því.

Þá er annað sjónarmið að miða fjölda prestanna við það, að um nægilegt starf sé að ræða við embættið. Á þessu sjónarmiði voru l. Alþingis frá í fyrra byggð. Sum prestaköllin eru svo fámenn, að embættisstörf prestanna eru ekki full störf. Starfsemi prestanna sjálfra ber vott um þetta. Á Vesturlandi, að Núpi í Dýrafirði, hefur sá háttur verið á hafður, að presturinn þar hefur einnig verið skólastjóri, en jafnframt þjónað þremur kirkjum. Fyrir þetta fær hann 1½ laun. Á öðrum stað á Vesturlandi sinnir prestur kennarastarfi og fær auk prestslauna sinna mikinn hlut kennaralauna. Á Suðurlandi kennir prestur við gagnfræðaskóla, auk þess sem hann þjónar þrem kirkjum. Um prest á Austurlandi er svipað að segja. Prestur á Suðurlandi þjónar þremur kirkjum og gegnir auk þess störfum í yfirskattanefnd. Svona eru dæmin víða um land. Þetta sýnir, að prestarnir eru starfhæfir og starfsamir menn. Ef þetta er lagt til grundvallar, þá er ekki óeðlilegt að fækka prestum. Ég tel t. d. kleift að hafa tvo presta í Vestur-Skaftafellssýslu, þótt þar væru fjórar sóknir fyrir hvorn. Það er jafnt og á að vera í Mýrasýslu. Í Landeyjum hefur prestur tvær sóknir, og í Fljótshlíð hefur prestur tvær sóknir. Í Eyjafirði hafa prestar 4–6 sóknir. Samkv. till. mþn. er Skagafjarðarsýslu gert jafnt undir höfði og Húnavatns- og Strandasýslum til samans.

Í frv. þessu eru kennsluprestarnir algert nýmæli. Með þessu mun eiga að spara kennaralaun. Þetta held ég að geti nú orkað nokkuð tvímælis hvað sparnaðinn snertir. Prestarnir eru í hærri launaflokki en kennarar. Ég vil láta það rétta koma fram í þessu máli. Nú er aftur á móti rétt að gera sér grein fyrir, hvort þetta sé alls kostar heppilegt fyrir hinar fámennari byggðir. Þróunin hefur verið sú, að t. d. læknar hafa verið tregir til að sitja í hinum minni læknishéruðum. Landlæknir hefur af þeim ástæðum varað við að búa til lítil læknishéruð. Þar hefur þessu stundum verið svo varið, að hjúkrunarkonur hafa starfað þar í læknis stað og innt hið ágætasta starf af hendi. Svipað þessu er um prestana, að reynslan hefur sýnt, að þeir leita frá hinum fámennu sóknum til hinna fjölmennari. En stundum hefur heppnazt fyrir þær byggðir, sem hafa ekki getað haldið prestum sínum eða hafa orðið að skipta oft um presta, að þær hafa haldið kennurum sínum. Eykur þetta festuna í byggðarlaginu. Þess vegna vil ég benda hv. þm. á, að á máli þessu eru nokkrir annmarkar. Ég hef þó ákveðið að fylgja málinu og mun greiða atkvæði með því. Sum þessi kennsluprestaköll eru í 400–500 manna þorpum, þar sem eru tveir kennarar. Þar á skólastjórinn að vera annar kennarinn, en hitt kennarastarfið, fullt kennslustarf, á presturinn að taka. Ef þetta er hægt, tel ég alveg óhjákvæmilegt, að þetta geti viðar komið til framkvæmda en hér er lagt til. Og í þessu er líka nokkurt ósamræmi. Í Sauðlauksdal á presturinn að hafa þrjár kirkjur og kenna líka. Hvers vegna á þá presturinn á Brjánslæk ekki að kenna? Þar eru ekki nema tvær kirkjur að þjóna. Ef þetta skal svo vera á Raufarhöfn og Súgandafirði, hví þá ekki eins á Þingeyri? Enn má benda á það, að þegar prestar velja sér sjálfir kennslustarf, velja þeir sér venjulega kennslu á gagnfræðastiginu, en ekki barnaskólakennslu. Ekkert tillit er til þessa tekið í frv. Nú er víða svo háttað, að mikla stundakennslu þarf við gagnfræðaskólana, og er kostnaður við þetta tæpar 3 millj. á fjárl. 1952. Það er töluverð upphæð, t. d. miðað við það, að brúaféð er alls 3.5 millj. Ekki er reynt að koma þarna á sparnaði. Ég tel, að þessu ætti að gefa gaum, og tel nauðsyn, að þetta verði tekið upp víðar, er stundir líða fram.

Um einstakar brtt. við frv. vil ég taka það fram, að ég mun fylgja öllum till. n. nema um Þingvallaprest, því að ég tel aðrar till. n. heppilegustu lausn á málinu.