18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

109. mál, skipun prestakalla

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu um þetta frv., enda verð ég að segja eins og mér finnst, að þetta sé með ómerkari frv., sem liggja fyrir þessu þingi. En þó sýnist mér rétt að afgreiða það, þar sem það hefur tekið svo langan tíma, og bezt þætti mér, að það væri samþykkt eins og það kom frá n. þeirri, er skipuð var til athugunar málinn, því að ég tel, að sumt af því, sem breytt var í Ed., hafi verið bein skemmdarverk. Mér kom það t. d. mjög á óvart, þegar ég fékk einar 10 upphringingar í síma norðan úr Skagafirði um, að búið væri að leggja niður prestakallið á Hofsósi. Þetta var, er málið var enn til umr. í Ed. Hv. síðasti ræðumaður, sem ég tel að sé málinu mjög vel kunnugur, upplýsti það hér áðan, að það munaði ekki nema tveimur prestum á því, sem prestarnir töldu skemmdarverk á málinu í fyrra. og því, sem þeir telja nú hið eina rétta og góða. Ef þetta er svo, að það munar ekki meiru en þessu, mun ég ekki eyða tíma þingsins í langar umr. um þetta mál og láta það þeim eftir, sem komust að þeirri vísdómslegu niðurstöðu um, að prestar landsins skuli vera 116. Mun ég því fylgja þeim till., sem næst fara till. n., er samdi frv. Ég skal taka það fram, að ég met mikils störf kirkjunnar hér allt frá öndverðu. Hitt er svo annað, að hinar tómu kirkjur um land allt sýna það, að hið prédikaða orð nái ekki til eyrna þjóðarinnar, hverju sem um má kenna. En yfirleitt virðist mér, að menn vilji ekki tala um þá hlið á þessu máli. En það var áður þannig, að kirkjur voru fullar á hverjum sunnudegi, en eru nú tómar, hvernig sem á því stendur.

Ég vil enn gera tilraun til þess, að klerkastéttin fái tækifæri til þess að byggja upp sitt starf, því að ég vil einmitt fara sem næst óskum hennar og vilja, eins og hann kemur fram í till. nefndarinnar. En við megum vel minnast þess, að það kostar mikið fé, sem þjóðin gerir fyrir kirkju og presta, og prestarnir eru nú orðnir ein bezt launaða stétt landsins. Sú var að vísu tíðin, að hægt var að segja, að aðstaða prestanna væri erfið, en nú hafa þeir mjög góða aðstöðu. Og við eigum ekki að tala um þessi mál með neinni tæpitungu eða helgislepju, heldur verðum við að tala um þau af fullkomnu raunsæi og krefjast fulls starfs af þessum mönnum og að þeir hafi þor og dug til þess að hefja raust sína gegn öllu, sem miður fer í þjóðfélaginu. — Mun ég svo ekki hafa þessi orð fleiri, en mun greiða atkv. þeim till., sem eru um að kippa í fyrra horf því, sem breytt var í Ed.