18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

109. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Í maí s. l. skipaði kirkjumrh. nefnd til að gera till. um skipun prestakalla. Ekki er hægt að segja annað en n. hafi haft góðan starfstíma, ekki sízt ef miðað er við það, hve Alþ. flaustraði mjög afgreiðslu málsins af í fyrra.

Ekki get ég verið sammála hæstv. forsrh. í því að telja það eitt rétt, sem milliþn. leggur til í þessu efni, heldur tel ég að verði að taka fullt tillit til óska fólksins, þar sem það vill halda prestum sínum. Það, sem n. færir sem rök fyrir þeirri fækkun presta, sem ráðgerð er í frv., er, að fólki hafi fækkað í sóknum og samgöngur batnað. Ég vil leyfa mér að fræða hv. Alþ. um það, að það eru nú litlu betri samgöngur milli Stykkishólms og Skógarstrandar en þær voru 1907, er l. um skipun prestakalla voru sett. Ég verð því að gera ráð fyrir, að milliþn. hafi ekki verið svo kunnugt sem skyldi um þessar samgöngubætur, sem hún byggir svo mjög álit sitt á.

Milliþn. leitaði umsagnar kirkjunnar um þetta. Vil ég leyfa mér að vitna í þetta bréf, því að ég held, að Alþingi hljóti að taka tillit til þess. Í bréfi stjórnar Prestafélags Íslands segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt vill prestafélagsstjórnin taka það fram, að hún er mótfallin svo mikilli fækkun prestakalla í sveitum sem frumvarpið gerir ráð fyrir og væntir þess, að Alþingi sjái sér fært að bæta um það samkvæmt rökstuddum tillögum hlutaðeigandi aðila.“

Þá segir í bréfi frá biskupinum yfir Íslandi, sem er skrifað fyrir hönd kirkjuráðs:

„Vill kirkjuráðið taka fram og leggja áherzlu á, að það telur, að mjög varhugavert sé að leggja niður prestaköll í dreifbýlinu, jafnvel þótt fámenn séu, ekki sízt þar, sem vilji fólksins bendir eindregið til, að því sé mjög óljúft að verða svipt presti sínum.“

Brtt. á þskj. 545, sem fluttar eru við frv. eftir þær breytingar, sem hafa orðið á því í Ed., eru þessar:

Í fyrsta lagi, að Staðarhraunsprestakall verði tekið upp að nýju og Álftártungusókn verði tekin undan Borgarprestakalli og lögð til Staðarhraunsprestakalls. Eftir þessa breytingu verða á þriðja hundrað safnaðarmenn hér og rúmlega þúsund safnaðarmenn í Borgarprestakalli. Ég vil taka það fram, að mér og Alþingi hafa borizt áskoranir frá þessum söfnuði um, að Staðarhraunsprestakall verði endurreist á ný.

Í öðru lagi legg ég til, að Miklaholtsprestakall haldist óbreytt frá því, sem ákveðið var 1917, og það haldi nafni sínu áfram, en verði ekki kennt við Söðulsholt, eins og lagt er til.

Í þriðja lagi legg ég til, að Breiðabólstaðarprestakall verði tekið upp að nýju og gert að kennsluprestakalli, því að það mun vænlegt til sigurs góðu málefni. — Þá er ég samþykkur brtt. hv. þm. Dal. á þskj. 565 um, að prófastsdæmi Dala og Snæfellsness haldist óbreytt, en verði ekki sameinuð, eins og Ed. hefur ákveðið.

Um brtt. menntmn. á þskj. 648 er það að segja, að ég er samþykkur því, að prófastsdæmin verði sett í sama horf og áður.

Réttmæti brtt. minna til sönnunar vil ég taka eftirfarandi fram:

1) Kirkjuráð telur varhugavert að leggja niður prestaköll í dreifbýlinu.

2) Í bréfi stjórnar Prestafélags Íslands til milliþn. segir, að hún sé mótfallin svo mikilli fækkun og hún vænti þess, að Alþingi sjái sér fært að bæta um það samkvæmt rökstuddum tillögum hlutaðeigandi aðila.

3) Almennur kirkjufundur hefur alltaf mælt á móti slíku.

4) Allir söfnuðirnir í Breiðabólstaðar- og Staðastaðarprestaköllum hafa mótmælt breytingunum.

5) Sparnaður á ríkisfé verður sáralítill við fækkun þessara prestakalla. En þó svo, að hann næmi nokkurri upphæð, væri það samt óverjandi breytni gagnvart dreifbýlinu að leggja niður prestaköll, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Að sjálfsögðu mun ég greiða atkvæði með þeim till., sem stuðla að því, að prestaköllin haldist sem mest óbreytt. Þó er ég samþykkur fjölgun presta í þéttbýlinu og tel hana til bóta.

Þá vil ég einnig geta þess, sérstaklega vegna afstöðu þriggja hv. þm., sem hér töluðu á undan mér, að aðalfundur Stéttarsambands bænda s. l. haust tók afstöðu á móti fækkun prestakalla. Prestakallafækkunin kemur harðast niður á fólkinu í dreifbýlinu, og er þessi ályktun fundar Stéttarsambands bænda glögg yfirlýsing bændastéttarinnar gegn prestakallafækkuninni.

Hv. þm. A-Sk. vildi sanna réttmæti niðurfellingar prestakalla með því, að hann sagði, að nú færu 50 millj. kr. til kirkju- og kennslumála í landinu. Ég verð að segja, að það er alger blekking að nefna svona tölur, sérstaklega ef á að nota þær sem sönnun þess, að það beri að leggja niður óþörf prestaköll. — Nýlega lá fyrir Alþingi að samþykkja ríkisreikninginn fyrir árið 1950. Hefði verið betra fyrir hv. þm. að nefna tölurnar eins og þær lágu þar fyrir, sem sýndu, að til kirkjumála, þar með talinn kostnaður við endurbyggingar á prestssetrum o. fl., var varið samtals 4 millj. kr., en til kennslumála hafa farið 40 millj. kr. Ég gat ekki heyrt ræðu hans alla, en hann hafði mikið að segja í sambandi við kennslumál.

Það er von mín, að deildin sjái sér fært að gefa þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 545, jákvæði sitt.