18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

109. mál, skipun prestakalla

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við þetta frv. á þskj. 579 og breyta því ákvæði frv., að lagt sé niður Stóra-Núpsprestakall, þannig að haldið sé þeirri skipun, sem verið hefur, og það verði tveir prestar í Hruna- og Stóra-Núpsprestakalli, eins og verið hefur til þessa. Ég sé á allri meðferð þessa máls og undirbúningi þess, að það hefur ekki verið ætlunin að fækka neitt að ráði prestaköllunum í landinu heldur er aðeins um að ræða tilfærslur og önnur minni háttar atriði, en heildarstefnan er að halda tölu prestanna þeirri sömu. Þar sem fjölgað hefur í ýmsum byggðarlögum, er prestunum einnig fjölgað. Þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, fyrst sú stefna er ríkjandi að láta tölu prestanna fara nokkuð eftir tölu fólksins í landinu, en þar, sem strjálbýli er og ekki hægt um ferðalög, sé tölu presta haldið og þeirri gömlu skipun, sem gilt hefur, enda er frv. þannig úr garði gert, að það bendir glögglega til þess, að þessi stefna eigi að ráða. Mér þykir það því furðulegt, að þessi breyting er gerð í Árnessýslu og þar á að leggja niður prestakall, þar sem er nærri 600 manns, og sóknirnar eiga svo að skiptast milli tveggja presta. Ég þykist reyndar sjá tilefnið til þessarar niðurstöðu milliþn., sem undirbjó þetta mál, og það er myndun nýs prestakalls á Selfossi. Þetta er ný byggð, sem er orðin allfjölmenn, nærri því þúsund manns, og undir það prestakall legðist Laugardælasókn, sem yrði tekin úr Hraungerðisprestakalli. En þó að svo sé gert, þá er fólksfjöldinn í Hraungerðisprestakalli nokkuð á fimmta hundrað, svo að það virðist ekki mikill grundvöllur fyrir því, að sú ráðstöfun sé gerð í Árnessýslu að leggja niður Stóra-Núpsprestakall. Mér skilst, að orsökin sé sú, að þótt fólki hafi fjölgað mjög á Selfossi, þá hafi n. sett sér það takmark hvað Árnessýslu snertir, að þar skuli ekki fjölga prestum, hvað sem fólksfjölgun er mikil. Ef litið er nú á fólksfjölda í hinum ýmsu prestaköllum víðs vegar um landið og athugaðir eru staðhættir þar, þá réttlætist þessi ráðstöfun ekki.

Ég furða mig mjög á því, að hv. þm. A-Sk., sem flutti hér skemmtilega og merkilega ræðu, skuli geta lýst því yfir, að hann sé á móti því, að nokkur breyting verði gerð á þessari skipun, því að mikið í ræðu hans og röksemdum mælir gegn svona ráðstöfunum. Hér kom það líka fram í ræðu hjá einum ræðumanni, að hann taldi, úr því að prestastéttin með biskupinn í broddi fylkingar teldi svo mikilvægt þessu máli, að farið væri að þessum till., að þá væri rétt að láta það eftir þeim. Ég get ekki verið svo eftirlátur við einn eða annan, að ég taki ekki tillit til vilja fólksins í mínu byggðarlagi. En mér skilst, að allt þetta mál og það starf, sem í það er lagt, eigi að vera í þágu fólksins. Ég get ekki gert fólki í mínu byggðarlagi svo lágt undir höfði að meta ekki skoðanir þess meira en þeirra manna, sem að þessu frv. standa. Hér liggja fyrir áskoranir frá nærri öllum í þessum prestaköllum, og þó sérstaklega Stóra-Núpsprestakalli, um að fá að hafa þar prestakall áfram, og í bréfi frá safnaðarmönnum er bent á, að réttlátt er og sjálfsagt, að þetta fái að standa óbreytt. Dettur mér ekki annað í hug en að gera tilraun til að rétta hlut þessa fólks. Vil ég biðja hv. þm. að renna augunum yfir það, hvernig ástatt er um þetta prestakall. Það kunna að vera til þeir menn, sem gera lítið úr því, að þarna átti séra Valdimar Briem heima og í þessu prestakalli þjónaði hann. En ég ætla, að fólk úti um byggðir landsins og þó fyrst og fremst fólkið í því prestakalli, sem hann starfaði í, lifði og fór í fyrsta sinn með þau andlegu ljóð, sem þjóðin hefur sungið bæði við messur og undir öðrum kringumstæðum, það vilji, að þetta prestakall haldist og það sé kennt við þennan stað. Ég get að vísu viðurkennt það, sem hv. þm. A-Sk. sagði, að það er ekki hægt að fullnægja öllum þeim óskum, sem kynnu að koma fram. En vegna þess, hvernig þarna er ástatt og kirkja er til á staðnum, finnst mér, að við ættum að sýna þá ræktarsemi að breyta nú engu til þar, og þá getur þetta verið sögulegur staður. Okkur er nógu áfátt í þessum efnum, þó að við höldum ekki lengra á þeirri braut. Hvað snertir Þingvelli, þá er það sögulegur staður, og menn verða að hafa sínar eigin skoðanir um það, hve mikils þeir meta það. En fyrst þetta hefur komið til orða og er komið á þennan rekspöl, finnst mér, að við ættum ekki að leggja stein í götu þess. Vonandi velst til þess starfs góður maður. —

Ég vil beina því til deildarmanna, að þeir leiðrétti þann misgáning, — vil ég orða það, — sem orðið hefur hjá milliþn. varðandi Stóra-Núpsprestakall og einnig hjá Ed. um sama atriði, og samþykki nú brtt. mínar. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta máli