18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

109. mál, skipun prestakalla

Andrés Eyjólfsson:

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir því, að Staðarhraunsprestakall verði lagt niður. Í tilefni af því hafa sóknarmenn í því prestakalli sent mér bréf, sem ég vildi — með leyfi forseta — lesa upp:

„Almennur hreppsfundur í Hraunhreppi, haldinn að Hrafnkelsstöðum 12. des. 1951, mótmælir harðlega þeim ákvæðum hins nýja prestakallafrumvarps að leggja niður Staðarhraunsprestakall á Mýrum.

Fundurinn telur, að fækkun presta í sveitum sé spor í áttina til áframhaldandi fólksfækkunar þar, sem beri að reyna af fremsta megni að stöðva. — Einnig bendir fundurinn á, að prestar eru einu embættismennirnir, sem búsettir eru í sveitum, og að þeir hafa verið og eru brautryðjendur í mörgum menningarmálum sveitanna og að þau áhrif megi ekki skerða.

Fundurinn lýsir óánægju sinni yfir till. prestakallanefndar gagnvart þessu prestakalli og skorar á Alþingi að samþykkja ekki till. þá, sem fram hefur komið, að leggja Staðarhraunsprestakall undir Söðulsholt. Hins vegar bendir fundurinn á og gerir að tillögu sinni, að Álftártungusókn í Borgarprestakalli verði lögð undir Staðarhraunsprestakall.

Tillagan samþ. með shlj. atkv.

Auk þess vil ég benda á, að 15. þ. m. kom grein í Tímanum frá einum sóknarmanni í Staðarhraunsprestakalli, þar sem hann gerir mönnum grein fyrir því með skýrum og glöggum rökum, að það sé vanhugsað að leggja þetta prestakall niður. Ég vildi gjarnan lesa þessa grein upp; hún er eftir Bjarna V. Guðjónsson, Svarfhóli, en ég vil ekki þreyta hv. þingdeildarmenn á því.

Ég vil benda þm. á, að í Mýrasýslu voru fimm prestar, og mér er óhætt að fullyrða, að hver um sig var sveitarhöfðingi í sinni sveit og sókn og jafnvel héraðshöfðingi. En 1907 var gerð breyting á prestakallalögunum, og voru þá teknir tveir af þessum fimm prestum og prestaköll þeirra lögð niður, og tvær sóknir voru lagðar undir Borgarfjarðarprófastsdæmi. Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir því að leggja niður þriðja prestakallið og auk þess að leggja niður prófastinn í Mýrasýsluprófastsdæmi. Ég furða mig á því, að n. skuli ekki hafa komið auga á þann möguleika að leggja niður öll prestaköll í Mýrasýslu. Mætti eins vel hugsa sér, að Hvanneyrarprestur þjónaði á Borg og þá e. t. v. að Kvennabrekkuprestur kæmi í stað Stafholtsprests; hann yrði þá að skjótast yfir brekkuna, en það er ekki meira en margt annað, sem prestarnir í þessari sýslu verða að gera.

Ég vil geta þess, að í sambandi við þetta hef ég leyft mér að bera fram brtt., sem er á þskj. 551, og er hún um, að Staðarhraunsprestakall haldist eins og það nú er.

Um þetta prestakall er það að segja, að fyrir nokkrum öldum voru þarna tvö prestaköll hvort við annað, Hítardalur, eitt af frægustu og beztu prestaköllum landsins, og svo Staðarhraun. Var Hítardalsprestakall lagt niður fyrir alllöngu, en Staðarhraunsprestakall varð nokkurs konar arftaki gamla Hítardals að ýmsu leyti, m. a. um hlunnindi og þess háttar. Nú er svo ástatt, að heita má, að engir vegir liggi um þetta prestakall. Má komast þar um á sterkum bil yfir hásumarið, en þó verður að sæta sjávarföllum. Eftir því, sem segir í frv., er leiðin frá Söðulsholti að Ökrum 70 km. Það sjá allir, hvaða þjónusta það mun verða hjá prestinum í 70 km fjarlægð. Ég held, að milliþn. hafi tæplega gert sér grein fyrir þeim erfiðleikum, sem eru á því að njóta prestsþjónustu á þessum stað.

Ég skal ekki þreyta hv. d. með langri ræðu, en ég vil þó óska þess, að till. mín verði samþ., því að ég held, að það sé gengið nógu nærri Mýrasýslu, þótt ekki verði lengra gengið en þegar er, ef ekki er beinlínis ætlunin að afkristna sýsluna. — En í sambandi við þetta vildi ég minnast á till., sem hv. þm. Snæf. ber fram á þskj. 545 og ég vildi vera með í að flytja. Er till. hans um, að undir Staðarhraun falli Álftártungusókn. Er stutt leið þarna á milli, og ef mín till. verður felld, sem ég vona að verði ekki, þá mun ég styðja till. hv. þm. Snæf., og vil ég óska, að þm. vildu þá fallast á hana. Yrðu þá þrjár kirkjur lagðar undir Staðarhraunsprestakall, og Borgarprestakall mundi hafa tvær kirkjur, en þriðja kirkjan mundi bráðlega bætast við, því að í ráði er að byggja kirkju í Borgarnesi, en þar búa 700–800 manns. Ég vil því mælast til þess, að till. hv. þm. Snæf. verði samþ.