22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Ég sting upp á þessu vegna þess, að við höfum svo stuttan tíma, og ég geri ráð fyrir, að þessi aðferð spari okkur tíma, og það verulegan tíma, ef svo færi, að frv. yrði breytt hér í verulegum atriðum og síðan breytt í Nd. og kæmi svo í sameinað þing, og ég hef nokkra ástæðu til þess að stinga upp á þessu, og hún er sú, að það liggur fyrir greinilega eftir þá meðferð, sem málið fékk í þessari d., að vilji þessarar d. var a. m. k. þá allt annar en hann hefur verið í Nd., og þess vegna er óhætt að gera ráð fyrir því, að vilji til þess að breyta málinu hér verulega sé fyrir hendi. En ég geri ráð fyrir því, að það kynni að geta ráðið nokkru um vilja og atkv. fleiri manna en mín, hvort líklegt er, að málið strandi á Alþ., ef verulegar breyt. eru gerðar hér, og þess vegna séu það fleiri en ég, sem óska eftir því að fá að vita um það, ef unnt er. Ég hef gengið út frá því, að sá vilji, sem hér kom fram í þessu máli, sé óbreyttur og muni ekki breytast, nema með því móti, að það liggi fyrir, að málið komist ekki fram, ef breyt. eru gerðar á því hér. Þess vegna sting ég upp á þessari leið.