23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar frv., eins og það kom frá Nd., var í prentun í gærmorgun, þá hélt menntmn. d. fund um málið og hugsaði sér eftir nokkrar viðræður að reyna að koma fram með það litlar brtt. við málið, að ekki yrði hætta á, að það mundi þess vegna verða fellt í Nd. Þess vegna var það, að margar till., sem ýmsir vildu gjarnan koma á framfæri, voru ekki teknar til greina í áliti því, sem hér liggur fyrir á þskj. 741, heldur reyndu þessir 4 menn, sem standa að því áliti, að miða till. við það að verða sem allra næst frv. milliþn. annars vegar og nál. og till. menntmn. Nd. hins vegar. Seinna í gær var svo eftir ósk hæstv. kirkjumrh. haldinn fundur með n. í Nd. Þar voru að vísu ekki allir mættir; þar voru ekki nema þrír menn, sá fjórði kom þegar við vorum að fara hér inn á fundinn. Tveir af þeim mönnum, sem þar komu, töldu sig geta mælt með frv., þó að þær brtt., sem eru á þskj. 741, yrðu samþ., en einn faldi sig ekki mundu geta það. Það var borgarstjórinn í Reykjavík, sem taldi, að hann mundi ekki geta það, ef ekki væri látinn halda sér Breiðabólstaður á Skógarströnd.

Nú skal ég til að byrja með reyna að gera grein fyrir brtt. á þskj. 741 og hafa það eins stutt mál og ég get.

Þá er það fyrst till. viðvíkjandi Hraungerði, en við leggjum til, að Hraungerðisprestur, sem nú er, hafi sömu kirkjur og hann nú hefur, en Selfoss ekki gerður að sérstöku prestakalli. Ég skal geta þess, að þetta er eitt af þeim prestsembættum í landinn, sem virðist hvað bezt þjónað; það hafa verið í því 70–80 messur undanfarin ár, og það er meira en hægt er að segja viðast hvar annars staðar, þar sem eru 10–20 messur og sums staðar minna, svo að frá því sjónarmiði er ekki ástæða til að létta á prestinum í Hraungerði. Hins vegar leggjum við til, að það sé sett inn, að presturinn sitji í Hraungerði eða á Selfossi. Í Hraungerði er uppbyggt, og þarf ekki þar við að gera í náinni framtíð, en á Selfossi er ekkert prestsseturshús til, ef horfið yrði að því að flytja prestinn þangað, en þá kostaði það nýtt prestsseturshús. En það er ekkert atriði, því að á Selfossi er ekki enn þá nein kirkja, en það er kirkja í Laugardælum, og ég geri ráð fyrir því, að það sé stefnt að því, að hún verði flutt að Selfossi og fá prest þangað. En þótt hér sé sett Hraungerði eða Selfoss, þá er það ekki aðkallandi að byggja upp á Selfossi, það getur dregizt.

En úr því að farið er út í breyt., sem Nd. gerði og ég ætla ekki að skipta mér af, þá vil ég spyrja, hvernig stendur á því, að presturinn í Heydölum er áfram með tvær kirkjur, en presturinn á Djúpavogi með fjórar. Prestakallan. var sammála um að jafna þarna á milli, af því að kominn er bílvegur milli Heydala og Beruness, en Nd. hefur breytt þessu, sem ég tel til skemmda. Þessi breyt. virðist vera gerð af Nd. af vanafestu við það, sem er, án þess að taka tillit til nýrra aðstæðna, en n. kemur ekki með brtt. um þetta.

Þá er 2. brtt. n. sú að fella niður Staðarhraunsprestakall. Þetta eru fámennar sóknir með svolítið á annað hundrað manns, eins og það er nú í frv., sem er auðgert að þjóna annars staðar frá, og sjáum við ástæðu til að leggja til, að þessu verði breytt í sama horf og var, þegar frv. fór úr d. Ég skal geta þess, að milliþn. veiti Staðarhrauni ákaflega mikið fyrir sér og hvort þar ætti ekki að vera kennsluprestur. Það reyndist n. þannig, að hún gat ekki lagt það til, og það af þeirri ástæðu, að allir hreppar Mýrasýslu eru búnir að gera með sér samtök um að koma á heimavistarskóla við Varmaland í Stafholtstungum. Þar er laug, sem sýslan á og getur hitað skólann upp, og þar eru allir hreppar sýslunnar búnir að leggja fram fé til að koma upp heimavistarskóla fyrir öll börn á skólaaldri. Þetta er skipun, sem ég tel rétta, og ég tel, að kennslumálastjórnin á hverjum tíma sé allt of áköf í að koma upp skólum, sem kosta fleiri hundruð þúsundir, þar sem ekki eru nema 10–20 krakkar. Ég tel þá stefnu rétta þarna, að ríkið komi upp einum góðum heimavistarskóla, og þess vegna er það, að fræðslumálastjórnin mælti ekki með því við mþn., að kennsluprestur yrði á Staðarhrauni, og þess vegna tók n. það ekki upp. En nú hafa tveir ráðh. komið með brtt. um þetta, og tel ég illa farið, ef þessi viðleitni Mýramanna við að koma upp einum allsherjar barnaskóla fyrir alla sýsluna verður brotin á bak aftur af Alþ.

Þá er brtt. um Breiðabólstað á Skógarströnd. Þar horfir málið þannig við, að þar hefur verið prestslaust lengi, þangað til nú að þar er prestur, sem þó býr ekki á prestssetrinu, en stundar kennslu og er þess vegna nokkurs konar fyrirrennari kennsluprestanna, sem hér er gert ráð fyrir. Þar eru tvær kirkjur, á Breiðabólstað og Narfeyri. Kirkjan á Narfeyri er búin að vera ómessuhæf lengi. Það var þess vegna samróma álit mþn., að það væri ekki ástæða til að hafa þarna prest; hún lagði þess vegna til, að prestakallinu yrði skipt þannig, að önnur kirkjan, Breiðabólstaðarkirkja, félli undir Kvennabrekku í Dalaprófastsdæmi, en hin undir Stykkishólm. Þessu breytti Ed. og lét prestinn á Setbergi, sem býr langt frá barnaskólanum og á erfitt með að taka að sér kennslu, bæta við sig einni annexíu frá Stykkishólmi, Bjarnarhöfn, en lét Breiðabólstaðarprestakall leggjast undir Stykkishólm. Við leggjum til, að þessu sé aftur breytt og Stykkishólmur látinn taka við Breiðabólstað og Narfeyri, en Bjarnarhöfn verði lögð undir Setberg.

Næsta brtt., sem við gerum, er sú, að við leggjum til, að tekinn sé aftur út prestur, sem settur var inn í Nd., það er á Tjörn á Vatnsnesi. Í því prestakalli eru 143 menn. Það eru tveir prestar þarna í sama hrepp og þrjár kirkjur. Þetta var kannske eðlilegra, meðan vegleysur voru og vondir vegir, eins og sums staðar var, en nú, þegar akvegur er kominn eftir hreppnum endilöngum, þá sá mþn. ekki ástæðu til að hafa tvo presta í þessum hreppi og lagði til, að annar presturinn yrði felldur niður, en hann var tekinn upp í Nd. Nú leggjum við til, að hann sé tekinn út og annexian lögð undir Breiðabólstað í Vesturhópi.

Nd. hefur tekið upp Breiðabólstað á Skógarströnd sem kennsluprestakall, og þess vegna höfum við líka lagt til, að Breiðahólstaður á Skógarströnd sé tekinn úr 6. gr.

Þetta eru þær till., sem við 4 nm. stöndum að. Ef frv. fer svona breytt til Nd., þá halda sumir, að það verði gerðar á því breyt., svo að það fari í sameinað þing og kannske dagi uppi. Sumir hafa af því áhyggjur, ef það dagar uppi, og vilja ekki hafa það yfir höfði sér við næstu kosningar, eins og sumir orða það hér í þinginu; öðrum er það sama. Mér er alveg sama, hvort það er hér fyrir kosningar eða eftir kosningar. En ég geri ráð fyrir, að till. ráðh., sem fram eru komnar, séu miðaðar við að tryggja frekar fylgi við frv. í Nd. En þá vil ég alvarlega biðja þá að athuga það, ef þeir vilja halda þeirri till. til streitu og láta þingið samþ. það, að taka þá Staðarhraun út úr till. og gera ekki þann óvinafagnað að brjóta það samkomulag, sem er komið á í Mýrasýslu, og lofa þá þessum presti að vera yfir 124 sálum. Ég vil það heldur en kennsluskyldu á þann hrepp einan til þess að eyðileggja það myndarlegasta átak, sem ég tel að hafi verið gert í landinu með samkomulagi í Mýrasýslu um að byggja heimavistarskóla.

Þá hef ég sjálfur flutt fáeinar till. á þskj. 750, og um þær skal ég vera stuttorður, enda getur vel verið, að ég á síðara stigi taki þær aftur. Það eru aðallega tvær till., sem um er að ræða. Annars vegar legg ég til, að Hofteigur verði lagður niður, eins og þessi hv. d. gerði og ég talaði um þá, og skal ég því ekki eyða orðum að því núna; það er öllum kunnugt frá þeim umr. — Hin till. er um það, að við höldum okkur við það prinsip, sem mþn. tók og þessi d. samþ., að kalla brauðin eftir prestssetrunum, en vera ekki með einhver nöfn, sem ekkert hafa að segja annað en sem einhverjar sögulegar minjar. En Nd. hefur á einstaka stað fundið upp á slíkum till., t. d. að kalla Söðulsholtsprestakall Miklaholtsprestakall eftir þeirri jörð, þar sem einu sinni bjó prestur og einu sinni var kirkja. Nú er búið að færa kirkjuna að Fáskrúðarbakka og prestssetrið að Söðulsholti, og þess vegna er ekkert eftir, sem tengir söfnuðinn við þetta gamla prestssetur, sem einu sinni var. — Það sama er að segja um Stóra-Núp. Þar bjó á sínum tíma prestur og ríkissjóður átti jörðina, en 1907 var ákveðið að leggja prestakallið þar niður, og með því stóð presturinn þá, en söfnuðurinn var óánægður með, að það yrði lagt niður, og fékk það aftur tekið upp, að þar skyldi vera sérstakt prestakall, Stóra-Núpsprestakall. Þá var búið að selja jörðina, og þá var fengin önnur jörð fyrir prestinn til að búa á, sem er Skarð, og þar hefur hann búið síðan, og það er sjálfsagður hlutur að kenna söfnuðinn við Skarð, en ekki jörð, sem komin er í einstaks manns eigu, þó að einhvern tíma hafi búið á henni prestur. — Sama er að segja um Þingeyraklaustur; það eru nokkur hundruð ár síðan það var lagt niður. Ég tel það lýti á kirkjunni að binda sig við svoleiðis nöfn og finnst það fjarri öllu lagi. Ég vil láta halda þeirri reglu, sem fyrir forgöngu Vilmundar Jónssonar var tekin upp, þegar læknaskipuninni var breytt, að kenna hvert læknishérað við læknissetrið. Ég vil þess vegna láta prestaköllin heita eftir prestssetrunum, með þeirri undantekningu þó, þar sem ekki er hægt að ákveða prestssetur, eins og t. d. í Hvítanesprestakalli, sem hefur verið kallað Ögurþing. Það er vafasamt, hvort presturinn á heldur að búa í læknisbústaðnum, sem stendur auður í Ögri, eða byggja á yfir hann nýtt hús í Súðavík. Af því að þetta er óákveðið og n. er ekki sammála um þetta, þá lét hún þarna halda sér nafnið Ögurþing á þessu prestakalli.

En alls staðar þar, sem mögulegt er að ákveða, hvar presturinn verður, þá á að kenna prestakallið við það.

Loks vil ég svo benda á, að við það að samþ. brtt., sem við 4 nm. flytjum sameiginlega, sparast kostnaður. Einnig vil ég benda á, að tvö af þessum prestssetrum eru enn prestslaus og ekki líkur til, að prestar fáist þangað, fyrr en byggt hefur verið upp þar. Það er augljóst, að það verður að láta sitja fyrir að byggja yfir þá presta, sem búa í álíka lélegum húsakynnum, en þjóna fleiri hundruð eða þúsund manns. Það er ljóst, að þótt þetta verði samþ., eru líkur til, að það líði 2–3 áratugir, þar til ríkið sér sér fært að byggja og þangað til þarna kemur prestur, en sá prestur, sem þjónar þar, verður á hálfum öðrum launum. Nú er þetta svo, og það er bezt að klykkja út með því, að áhuginn fyrir þessari þjónustu, prestsþjónustu úti á landi, sýnir sig í því, — verst að biskup er ekki hér staddur í hliðarherberginu, — að í vetur er einn prestur landsins, sem situr í Hafnarfirði og lætur nágrannaprestinn þjóna fyrir sig. Áhuginn er ekki meiri en þetta. Þennan prest vantar eitt ár til að ná aldurstakmarkinu, en getur ekki hugsað sér að þjóna þennan tíma og fær nágrannaprestinn til að þjóna fyrir sig, og það eru fleiri slík dæmi, sem mætti nefna.