03.10.1951
Sameinað þing: 2. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

12. mál, sala og útflutningur á vörum

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta er að orðanna hljóðan alveg eins og frv., sem var flutt á síðasta þingi. Þetta frv. fór fyrir fjhn. þessarar d. og fékk þar þá undarlegu afgreiðslu, að þeir hv. þm., sem þar áttu sæti, vildu ekki taka afstöðu til þessa máls, hvorki með né móti. Málið kom því aldrei til atkvgr., þó að ég skilaði nál. Það kann að vera, að það hafi vakað fyrir meðnm. mínum, að í sambandi við komandi breytingu yrði þetta frv. óþarft. Ætlunin var að gera verzlunina frjálsari en verið hafði. Var það mín ætlun að fá samkomulag um þetta efni, en frv. ekki borið fram til að gera þetta að stefnumáli, heldur til að leggja fram praktíska till., sem gæti náð fylgi. Ég sagði í fyrra, að ég teldi annað fyrirkomulag heppilegra en það, sem ég legði til. Ég ætla ekki að fara lengra út í það, því að ég veit, að hv. þm. vita, hvað ég á við. Um þá stefnu þarf ekki að ræða, þar sem engir möguleikar eru á að fylgja henni við það ástand, sem við búum nú við. Þegar miðað er við það að hafa einokunina þannig í höndum fárra manna, sem nota vald sitt á þennan hátt, álit ég, að þrátt fyrir þá gífurlegu galla, sem eru á því, sem oftast er kallað frjáls verzlun, þótt það sé það í rauninni aldrei, þá hafi þó slíkt skipulag yfirburði yfir einkaeinokun nokkurra manna, eins og sú frjálsa verzlun, sem var á 19. öld, hafði mikla yfirburði yfir einkaverzlun Dana. Það væri þess vegna, með tilliti til þess vandræðaástands, sem nú ríkir í sambandi við útflutninginn, stór bót að því að samþ. þetta frv.; það mundi leysa höftin, sem nú eru á útflutningnum og draga úr framleiðslu og þar af leiðandi úr atvinnu, enda hefur hvað eftir annað farið svo, að beinlínis hefur verið stöðvuð framleiðsla bæði á síld og öðrum fiski undir því yfirskini, að ekki væri til markaður fyrir þessa vöru, á sama tíma og vitanlegt er, að auðvelt er að selja allar þessar vörur. Atvinna þjóðarinnar er þannig minnkuð, gjaldeyrisforði þjóðarinnar minnkaður, möguleikar til þess að kaupa inn vörur og borga þær með gjaldeyri eru líka minnkaðir. Og ég held, að jafnvel sjálfar útflutnings- og innflutningsskýrslurnar í ár komi til með að sýna, hve óheppileg sú aðferð er, sem nú er og hefur verið notuð, þ. e. að gera innflutninginn að einhverju leyti frjálsan, kaupa inn vörur, sem verða að verðmæti upp undir 900 millj. kr., og viðhalda margföldum höftum á öllum útflutningi, með þeim afleiðingum, að útflutningsframleiðslan verður hlutfallslega eins lítil og hún hefur verið undanfarin tvö ár, en vex ekki í neinu samræmi við það, sem hún gæti gert, sem hlýtur að leiða til óhagstæðs viðskiptajafnaðar við önnur lönd.

Nú hefur þetta mál aldrei fengizt rætt hér í þinginu. Samt vil ég vekja athygli á því, að þau bönn, sem eru á útflutningnum, eru margþætt. Það eru í fyrsta lagi þau bönn, sem ríkisstj. hefur á hann lagt, og þar að auki sérstök l., sem binda útflutninginn í hendur vissra aðila, t. d. Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, og svo eru í þriðja lagi þau bönn, sem venjulega eru mjög erfið í okkar þjóðfélagi gagnvart framleiðendum, en það eru þau bönn, sem bankarnir hafa jafnan beitt í þessum efnum. Hér í þessu frv. er aðeins farið fram á að skera eitt af þessum böndum, þ. e. ríkisstj. sjálfrar, þannig að mér er ljóst, að ekki er verið að gera verzlunina fullkomlega frjálsa með þessu. Hins vegar er alþjóð manna kunnugt frá stjórnarblöðunum, að allvíða hefur verið allmikill áhugi fyrir því að leysa slík bönn enn meir, t. d. að því er saltfisksverzlunina snertir. Það er varla hægt til lengdar að banna mönnum að flytja út framleiðslu sína gegn sæmilegu verði, ef þeir staðnæmast við það lágmarksverð, sem hér er gert ráð fyrir, og skylda þá til þess að afhenda framleiðslu sína einhverjum og einhverjum mönnum, sem ef til vill vinna vel og ef til vill ekki vel að sölu hennar, láta vöruna e. t. v. liggja tímunum saman og rýrna og gera þá kannske upp við þá seint og síðar meir. Menn ættu ekki að þurfa að sætta sig við slíkt. Ég álít, fyrst ekki er hægt að stíga betri og róttækari skref viðvíkjandi skipulagningu útflutningsins, að þá væri það, sem felst í þessu frv., spor fram á við frá því vandræðaástandi, sem nú ríkir. Væri ég mjög reiðubúinn til samkomulags um breyt. á frv., ef einhver von væri um að fá eitthvað í gegn, áður en þingi lýkur.

Fyrst ríkið tekur ekki að sér að ábyrgjast öllum þeim aðilum, sem framleiða t. d. fisk í landinu, ákveðið verð fyrir sína vöru og tekur vöru þeirra af þeim og ráðstafar henni, finnst mér ríkið ganga allt of langt, ef það bannar mönnum að selja vöru sína fyrir lágmarksverð, sem það telur hæfilegt, og skellir þeim þunga á herðar framleiðenda sjálfra að verða að þola hvers konar einokun af hálfu þeirra manna, sem þarna ráða, en hafa enga möguleika sjálfir til að gera þetta. Við vitum, að ástandið er þannig hjá fjölda manns úti um land nú, að þeir eru raunverulega ofurseldir þeim stjórnum og mönnum í Reykjavík, sem hafa með þessi mál að gera, og tel ég, að þetta komi sérstaklega hart niður á framleiðsluútflytjendum bæja og þorpa úti um allt land. Í þessu frv. er þessum mönnum aðeins gefinn kostur á að reyna að bjarga sér eins og þeir bezt geta. Með því að ríkisstj. setti lágmarksverð á vöruna, væri þannig tryggt, að þeir gætu ekki spillt hver fyrir öðrum með því að bjóða fyrir neðan þetta verð eða lægra en eðlilegt væri.

Ég mun gera það að till. minni, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn., og vildi ég eindregið vonast til, að hægt væri að fá einhverja lausn á þessu máli á þinginu. Mér fyndist það eitt vera í einhverju samræmi við þá yfirlýsingu, sem komið hefur frá hæstv. ríkisstj., að stefna hennar væri að losa um höftin á þessu sviði, og fæ raunar varla skilið, hver þessi sterku öfl eru, sem halda svona gífurlega fast um einokunina á útflutningnum, megininu af landsmönnum til óþurftar.