22.10.1951
Efri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki deila mikið um það atriði, er fyrst kom fram hjá hv. 6. landsk. Það er skoðun hans á opinberri útgerð og einstaklingsútgerð, sérstaklega í sambandi við togarana. Það er rétt, að stærsta bæjarútgerðin er í Reykjavík, en það er ekki af því, að það fyrirkomulag sýni yfirburði, heldur af því, að það voru of fáir útgerðarmenn, sem fengust til að halda þessari útgerð áfram undir þessari skattalöggjöf. (HV: Já, af því að þeir hafa ekki nóga gróðamöguleika.) Einnig af því að bæjarútgerðirnar eru ekki skattlagðar eftir skattalöggjöfinni. Öll þau ár, sem bæjarútgerð starfaði í Hafnarfirði, urðu einstaklingsútgerðir að greiða 500 þús. kr. í ríkissjóð, meðan bæjarútgerðin gat safnað þessu fé í sína sjóði. Þrátt fyrir þetta gat bæjarútgerðin aðeins bætt við sig einu skipi. Þetta sýnir, að hæfnin er ekki meiri en hjá einstaklingunum. En vegna skattalaganna hafa bæjarfélögin orðið að fara inn á þessar brautir sárnauðug. Skýrt dæmi um þetta er uppgjöfin á sérleyfisbifreiðunum undir stjórn flokksbróður þessa hv. þm., þegar milljónagreiðslur þurfti til að halda þeim uppi og hans ágæti flokksbróðir varð að fara ofan í orlofssjóðinn til að halda þeim uppi. Þetta sýnir, að það er rangt, sem hv. þm. sagði um hæfni þess opinbera til að reka fyrirtæki. og sýnir, að það á að samþ. þetta frv.

Hv. þm. sagði, að það yrði ekki farið svona með saltfiskinn, ef togararnir væru ríkisreknir. Ég vil benda á, að það var bæjarútgerð Reykjavíkur, sem tók fyrst upp þann sið að láta sigla með fiskinn til Esbjerg. Það var ekki einstakur útgerðarmaður, heldur bæjarútgerð, sem innleiddi þennan síð. Vel gæti verið, að ef ríkið ræki togarana, yrði annar háttur hafður á til að skapa vinnu handa atvinnulausu fólki, sem annars gæti fengið nóga vinnu ríkinu að kostnaðarlausu, ef skattalögin væru afnumin. — Á árunum 1933–35 voru í gildi lög um, að ný fyrirtæki væru skattfrjáls, og risu þá upp fjöldamörg ný fyrirtæki til að bæta úr atvinnuleysinu. — Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar við þessa umr.