18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér inn í þessar umr., en það er vegna þess, að hv. frsm. minni hl. deildi á vinnubrögð n., að ég kveð mér hljóðs.

Ég verð að kannast við það, sem hann sagði, að n. hefði ekki lagt mikla vinnu í þetta mál, en það var af því, að fjórir nefndarmanna voru sannfærðir um, að málið væri, eins og það var fram borið, ef ekki skemmtileg fjarstæða, þá að minnsta kosti fjarstæða.

Ég veit ekki til þess, að nokkur menningarþjóð sé án beinna skatta. Og hvað okkur Íslendinga snertir höfum við greitt beina skatta í 900 ár, og ég held, að ef það væri sýnt, að hægt væri að komast hjá því að hafa nokkra beina skatta, þá væri einhver þjóð búin að finna það upp, ef það þætti heppilegt og sanngjarnt. Ég ætla ekki að ræða þetta mál í bili, en bendi bara aftur á það, að fjórum nm. fannst frv. vera svo fjarstætt, að þeir sáu ekki ástæðu til þess að leggja á sig mikla útreikninga í sambandi við það.

Að öðru leyti vildi ég segja nokkur orð út af því sem hv. ræðumaður sagði. Hann gaf í skyn, að þeir menn, sem vildu fella þetta frv., væru með skattfrelsinu í samvinnufélögunum. En ég veit ekki til þess, að S. Í. S. sé skattfrjálst. En sköttum samvinnufélaganna er komið fyrir á alveg sérstakan hátt. Það mætti þá alveg eins segja, að Eimskipafélag Íslands sé skattfrjálst. Sannleikurinn er, að þau bera allþunga skatta.

Hv. frsm. sagði, að þetta mundu ekki verða síðustu átökin um þetta mál. Ég þykist vita, að hann muni enn eiga lengi sæti hér á Alþ. og þá bera þetta mál hér fram, því að það dettur engum öðrum en honum í hug, að hægt sé að afnema með öllu skattalöggjöfina. Hitt er svo allt annað mál, þótt Alþ. samþykki nú að endurskoða skattalöggjöfina.

Það, sem hv. þm. sagði um, að það þyrfti ekki að hækka tolla, þótt þetta frv. yrði samþ., sjá allir að er bein fjarstæða, því að einhvers staðar þurfa þær tekjur að koma, sem skattarnir gefa nú. Hv. þm. Barð. getur víst trúað því, að mikið líf og fjör hlaupi í atvinnuvegi landsmanna, ef skattar verða afnumdir, en það verða víst fáir til þess að trúa því með honum.