19.10.1951
Efri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

66. mál, byggingu nokkurra raforkuveitna

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég hef ekki við höndina upplýsingar um þær rafveitur, sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. En sú n., sem fjallar um málið, getur fengið hjá mér upplýsingar um allar þær rafveitur, sem samþ. eru af raforkuráði og fyrirhugaðar eru á næstu árum. Ég man það, að þegar í fyrra var dæmið reiknað þannig, þegar þessi áætlun kom fram, að með sams konar fjárveitingu og Alþ. hefur veitt mundi taka 3 ár að fullgera þær rafveitur, sem þá var búið að samþ. Raforkuráð gerði ráð fyrir að halda áfram með þessar rafveitur. Þá var málið sent til Alþ., til þess að því gæfist kostur á að sjá till. Ég man ekki, hvaða n. tók málið til meðferðar. Í meginatriðum var farið eftir þessum till. það var mikill halli á rafveitunni á Sauðárkróki, því að hún framleiddi meira rafmagn en þurfti að nota. Þess vegna var lögð stutt lína fram að Löngumýri og Varmahlíð. Að öðru leyti var þarna fullgerð rafveita áður og löggilt af raforkuráði, sem jafnframt löggilti þessa veitu. Það má því alveg gera ráð fyrir, að þær rafveitur, sem verða samþ. núna, verði ekki fullgerðar á minna en 3–4 árum hér frá, með svipuðum fjárveitingum og verið hefur til þessara veitna. Það er eins og með annað, að menn hafa ekki gert sér ljóst, hve mikið þessar rafveitur kosta. Það var upplýst af hv.1. þm. Eyf., að línan út á Dalvík, með því að leggja á bæina í leiðinni, mundi kosta um 4.5 millj., en þá er ólagt í Svarfaðardal, sem mundi eflaust kosta annað eins. Ég geri ráð fyrir, að veitan kostaði ekki minna en 10 millj. Ég slæ upp mynd af því, hver kostnaðurinn mundi verða við að leggja þessar veitur, en till. nær ekki lengra en til Dalvíkur.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að með þeim fjárveitingum, sem veittar hafa verið undanfarið og núna eru veittar, mundi taka mörg ár að koma rafmagni á þá staði, sem fá það frá stórum orkuverum. Kröfur um rafveitur eru nú orðnar geysi almennar, og sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kynnir sér það að sjálfsögðu. Það er t. d. svo í Borgarfirði, að rafmagnið er ekki að fullu notað, og það var halli á stöðinni, þegar ég tók við þessum málum. Þennan halla tók ríkið á herðar sér og breytti rekstrarfyrirkomulaginu, en þó getur stöðin ekki selt verulegan hluta af sínu rafmagni. Kröfurnar um rafveitur eru víða úr Borgarfirði, eins úr Skagafirði og á Suðurlandi. Úr Þingeyjarsýslu kom n., sem krafðist rafveitu í sveitina, o. s. frv. Þó að ég bendi á þetta, er ég ekki að draga úr því. að rétt sé, að byggja þurfi þessar veitur. Það er gert ráð fyrir því, þó að horfið hafi verið frá því að byggja veitur á þeim stöðum, þar sem ekkert rafmagn er til. Síðastliðið sumar var reynt að leggja háspennulínu þar, sem tap var á orkuverunum og þau gátu ekki sett allt sitt rafmagn. Nú er það vitað, að innan skamms tíma verður lokið við að byggja Sogs- og Laxárvirkjanirnar. Þá verður áherzla lögð á að leggja háspennulínu um þau svæði, sem geta notað þessi orkuver. Þá kemur lína frá Akureyri og út á Dalvík. Ég tel rétt, þó að ég sé ekki að draga úr nauðsyn þess að leggja háspennulínur að vekja athygli þeirrar n., sem fer með þetta mál, á því, að réttmætar kröfur um línur eru víða að, og þarfnast málið því alvarlegrar athugunar. Sérhverjum, er óskar eftir línu um sveit, er hann býr í, finnst hann geta krafizt hennar með rétti. Það var ekki þægilegt, þegar línan var lögð fram í Varmahlíð, að vita af átta bæjum skammt frá, sem allir höfðu lagt til sín rafmagn með olíumótor, og þurfa að neita þeim. Það var ekki hægt annað en neita, vegna þess að peningarnir voru ekki til. Að mínu áliti þarf þetta mál því alvarlega athugun.