19.10.1951
Efri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

66. mál, byggingu nokkurra raforkuveitna

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Mér láðist áðan, er ég lauk máli mínu, að stinga upp á n. til að vísa málinu til. Ég geri það hér með og legg til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. Þetta er fjárhagsatriði, og mér finnst þetta eiga þar heima.

Út af ræðu hæstv. landbrh. hef ég ekkert sérstakt að athuga, en vil benda á, að það gegnir sérstöku máli um þessa rafveitu, sem hér um ræðir. Hún verður byggð samkv. tvennum l., hinum almennu raforkul. og þeim l., er með þessu frv. hér er lagt til að breyta og eru frá 1945. Þessi l. eru sett á undan hinum almennu raforkul. og hafa enn þá ekki verið numin úr gildi, það hef ég rannsakað. Það er almennt framkvæmdamál, og raforkuráð og ríkisstj. ákveða, hvar framkvæmdin skuli gerð, eftir því sem fé er fyrir hendi. Áður en sú skipun var gerð, var Alþ. búið að ákveða með l., að nokkrar rafveitur skyldu byggðar. Þessum l. er nú búið að fullnægja, nema í þessu eina atriði. Hefðu þessi l. ekki verið fyrir hendi, hefði ég ekki borið fram till. um þessa sérstöku rafveitu, heldur reynt að hafa áhrif á hæstv. ráðh. og raforkuráð, að meira fé verði veitt til nýrra raforkuframkvæmda á fjárl. En þar sem sérstök fyrirmæli Alþ. sjálfs eru fyrir hendi, finnst mér eðlilegt, að Alþ. geri nú ráðstafanir til að framkvæma það, sem það áður var búið að ákveða. Þess vegna ber ég nú fram þetta frv.

Þó að deila megi um, hvar þörfin er mest, þá hygg ég, að hún sé óvíða meiri en á Dalvík. Þar er t. d. töluverður iðnaður, sem er í bráðri hættu, ef vélar þær, sem nú framleiða rafmagn þar, bila, og mundi þá leiða af því atvinnuleysi og alls konar vandræði.

Eins og hæstv. ráðh. nefndi, var lögð lína frá Sauðárkróki til Varmahlíðar samkv. hinum almennu raforkul., áður en búið var að framkvæma eldri l. Ég vona fastlega, að tillit verði tekið til þessarar sérstöðu vegna þess, að ég álít þetta eiginlega réttarkröfu, og auk þess er óneitanlega gefið fyrirheit með l. frá 1945 um þessa rafveitu. Það er ekki hægt að líta á þessi l. öðruvísi en loforð um, að þessi rafveita verði byggð. Þess vegna er það óorðheldni hjá ríkisvaldinu, ef ekkert er gert. Nú vita allir, að þetta er hægt og rafmagnið verður fyrir hendi, þegar línan er fullgerð. Ef þessi l. hefðu ekki verið fyrir hendi og ég hefði viljað bera fram till. um sérstaka rafveitu í mínu héraði, er óvíst, að ég hefði borið fram till. um þessa línu. Sennilega hefði ég borið fram till. um að leggja línu fram Eyjafjörð. Það er sjálfsagt mál, að kauptún eins og Dalvík fái rafmagn. Það er einungis vegna þessara l., að ég ber fram þetta frv., en þó er enginn dómur lagður á það, að þetta sé sú framkvæmd, sem fyrst ætti að koma. En þetta er a. m. k. sú framkvæmd, sem Alþ. hefur ákveðið að skyldi koma og átti að vera komin fyrir 5 árum.