10.12.1951
Efri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

66. mál, byggingu nokkurra raforkuveitna

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. N. hefur rætt þetta mál ýtarlega og auk þess fengið þann ráðh., sem fer með raforkumál, hæstv. landbrh., og hæstv. fjmrh. á sinn fund og rætt við þá. Enn fremur hefur raforkumálastjóri mætt á fundum n. til viðræðna við hana. Við þessar umr. hefur það komið í ljós, að eftir er að leggja þrjár línur af þeim línum, sem ríkinu ber að leggja, og enn fremur, að það fé, sem lagt er til raforkuveitna, er að mestu bundið. N. lítur svo á, að ríkisstj. hafi tekið á sig loforð um, að þessi lína yrði lögð, og allir eru líka sammála um það, að þegar Akureyri fær rafmagn frá Laxárvirkjuninni, þá yrði nóg rafmagn, svo að hægt væri að selja það til Dalvíkur. Enn fremur eru vélarnar á Dalvík slitnar og spurning, hve lengi þær endast. N. er því sammála um að mæla með því, að línan verði lögð.

Hæstv. landbrh. hefur upplýst, að ef hann fengi greiddar þær 1½ millj. kr., sem ríkið skuldar raforkusjóði, og tekin yrði að láni 1½ millj. kr., sem heimilað var að taka að láni til raforkuveitna af síðasta Alþ., og Alþ. gæti bætt við fjárframlag til raforkuframkvæmda á árinu 1952 ½ millj. kr., þá mundi vera fært að leggja línuna til Dalvíkur, svo að orkuveitan yrði komin þangað um sama leyti og Laxárvirkjuninni væri lokið. Hins vegar er ekki talið gerlegt að leggja til að línan verði að öllu leyti lögð.

N. hefur því orðið sammála um að leggja til við hv. d., að hún afgr. málið með rökst. dagskrá, og er hún byggð á því, að hægt verði að fá þetta fé, sem hæstv. ráðh. telur sig þurfa að fá.

Ég sé, að hér hefur orðið prentvilla í nál. að því er varðar fjárframlagið 1952. Þar stendur 1½ millj. kr., en á að vera ½ millj. kr.

Við treystum því öll í n. — það er leitt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera við — að þetta verði framkvæmt á þann hátt, sem gert hefur verið ráð fyrir.