16.11.1951
Efri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

112. mál, öryrkjahæli

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er flutt á þskj. 212, er, eins og sagt er í greinargerð þess, flutt samkvæmt tilmælum félmrh. og er samhljóða frv., sem flutt var á síðasta þingi af hv. þm. S-Þ., en náði þá ekki afgreiðslu. Frv. þessu var á síðasta þingi vísað til heilbr.- og félmn. Ed., og sendi n. það þá til umsagnar tveim aðilum og fékk svar frá öðrum þeirra, yfirlækninum á Kleppi. og fólst í þeirri umsögn að nokkru leyti svar þeirra beggja, þar sem hinn aðilinn, sem var landlæknir, vísaði til svars Helga Tómassonar. Að þessum svörum fengnum þótti n. rétt að leita fyrir sér með áframhald þessa frv. og sendi því félmrn. ósk um, að það leitaði umsagna sveitarfélaganna um málið. Þetta var gert á s. l. vori og frv. síðan undirbúið af félmrn., sem óskaði þess svo, að heilbr.- og félmn. bæri málið fram á þingi nú. N. varð þó ekki sammála um flutning frv., og standa því aðeins 4 nm. að því. og hafa þeir allir óbundnar hendur um einstök atriði frv. og málið í heild. N. er þó öll sammála um meginefni þessa máls, að það þurfi sem skjótasta og bezta úrlausn.

Eins og kom fram á síðasta þingi, er þetta mál hið mesta vandræðamál fyrir sveitarfélögin, og er það fram borið vegna þess, að þau standa uppi alveg úrræðalaus með fávita, geðsjúklinga og aðra vandræðamenn, sem þau geta á engan hátt séð um og ógerlegt er að hafa á heimilunum. Þetta mál hefur verið alllengi á döfinni hjá sveitarfélögunum, en það var fyrst hafinn rækilegur undirbúningur að því á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga 1946, þar sem kosin var nefnd til að safna skýrslum um þetta vandræðafólk og koma fram með till. um, á hvern hátt verði heppilegast að ráða bót á þessu máli. Árangurinn af þessari starfsemi sambandsins var svo það frv., sem borið var fram á síðasta þingi, og eins og kemur fram í grg. þess, var það borið fram með það fyrir augum að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem er fyrir hendi að skapa þessu vandræðafólki tryggan dvalarstað. Eins og segir í frv. sjálfu, er ætlunin að gera þetta með þeim hætti, að sveitarfélögin fái heimild til að reisa og reka öryrkjahæli fyrir þá öryrkja, sem þeim ber að annast framfærslu á og eigi verður með öðrum hætti séð fyrir viðunandi dvalarstað. Svo er til þess ætlazt, að sveitarfélögin leggi fram ákveðna fjárupphæð í stofnkostnað hælisins og ríkissjóður leggi fram í eitt skipti fyrir öll 1½ millj. kr. til stofnunar þess. Gert er ráð fyrir, að félmrh. ákveði, að fengnum till. stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, hvar hælið skuli reist og hvenær hafist verði handa um framkvæmdir og starfsemi þess: Með öðrum orðum er aðeins gert ráð fyrir, að þetta verði heimildarlög og ákvörðunarvald um framkvæmd málsins verði í höndum félmrh.

En það er eitt atriði sérstaklega athyglisvert í þessu máli, sem ég vildi undirstrika í þessum umr., og það er samningsumleitun sveitarfélaganna við Reykjavíkurbæ út af hælinu í Arnarholti. Eins og kom fram í greinargerð þeirri, sem fylgdi frv. í fyrra, rekur Reykjavíkurbær hæli að Arnarholti á Kjalarnesi fyrir ýmiss konar sjúklinga og öryrkja. Á þessu hæli hafa dvalið um 60 manns til jafnaðar, og hefur verið á því nokkur rekstrarhalli, en þó er talið, að hann mundi hverfa með öllu, ef hælið yrði stækkað nokkuð. Nú er það álitið heppilegast með framkvæmda- og kostnaðarhlið málsins fyrir augum að reka aðeins eitt hæli á landinu fyrir þetta fólk. Því var það, að Samband ísl. sveitarfélaga ákvað að reyna að komast að samkomulagi við Reykjavíkurbæ um að gerast aðili að rekstri þessa hælis, sem þá yrði stækkað eftir þörfum. Þetta tókst þó ekki, og hefur komið í ljós, að Reykjavíkurbær telur ekki grundvöll til slíks samnings fyrir hendi, þar sem vanti í lög ákvæði, sem legðu kvöð á sveitarfélögin um að standa við sinn hlut í þessu efni. En í 17. grein þessa frv. er sérstaklega gerð grein fyrir því, hvernig bregðast skuli við, ef bæjarstjórn Reykjavíkur gengur til samninga við Samband ísl. sveitarfélaga um þetta mál, og vildi ég vekja athygli deildarinnar á þessu atriði, að með þessu ákvæði fellur niður sú hindrun. sem hefur orðið til að koma í veg fyrir samkomulag Reykjavíkur og sveitarfélaganna um rekstur Arnarholtshælisins.

Nú er mér óhætt að segja, að þótt heilbr.- og félmn. hafi látið þann fyrirvara fylgja frv., að nm. hefðu óbundnar hendur um málið, var öll n. sammála um nauðsyn á úrlausn þessa máls og þörfinni fyrir hæli handa þessu fólki, einnig sá nm., sem vildi ekki vera með í flutningi frv. Það, sem n. greindi á um, var aðeins það, hvor leiðin væri heppilegri fyrir skjóta lausn þessa máls, að flytja frv. eða ekki. En það er óhætt að segja, að n. hefur öll skilning á þessu máli og því, að það krefst sem skjótastrar úrlausnar, en þarf þó að vera vel undirbúið. Það kom fram í þeirri umsögn, sem okkur barst, og einnig í umr. um málið, að það eru talin á því nokkur vandkvæði að ætla að reka aðeins eitt hæli fyrir alla þá flokka vandræðamanna, sem talið er að þyrftu að dvelja á slíku hæli, en á síðasta þingi var þessu vandræðafólki skipt niður í 7 flokka. Það eru á því greinilegir erfiðleikar að ætla þessu fólki öllu einn dvalarstað. Þegar þetta mál var athugað fyrir nokkru, kom í ljós, að af 154 sjúklingum, sem talið var að þyrftu hælisvíst fyrir, voru um 2/3 geðsjúkt fólk og fávitar, en var úr hinum 5 flokkunum. Erfiðleikarnir stafa af því, að við höfum svo til allar tegundir slíkra sjúklinga, sem þurfa að dvelja á sérstökum hælum, en í sumum flokkunum er svo fátt, — sem betur fer, má segja. — að tæplega er hægt að hugsa sér að reisa fyrir þá sérstakt hæli, en erfitt er að koma þeim fyrir með annars konar sjúklingum. Þetta var sem sagt eitt af þeim atriðum, sem heilbr.- og félmn. sá að mundi verða örðugt að ráða fram úr í sambandi við byggingu hælisins. Hins vegar voru allir nm. einhuga um að gera það sem mögulegt væri, til að greiða fyrir því, að málið fengi heppilega lausn, og flm. þessa frv. töldu sig bezt geta unnið að því með því að flytja það. — Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði vísað til heilbr.- og félmn. á ný til athugunar.