14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2396)

112. mál, öryrkjahæli

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og kemur fram í grg. þessa frv., sem hér er til umræðu, eru nm. ekki óskiptir um flutning þess, og þeir, sem standa að því, eru ekki skuldbundnir til að fylgja því. Ég gat ekki orðið samferða hv. meðnm. mínum í þessu máli, og tel ég rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni.

Ég er þeirrar skoðunar í fyrsta lagi, að þótt þetta frv. næði samþykki, mundi það síður en svo verða til að leysa þetta vandamál, sem hér er um að ræða, heldur mundi það miklu fremur verða til að tefja lausn þess. Þetta er meginástæðan fyrir því, að ég hef ekki viljað taka þátt í flutningi frv., að ég held, að það muni einungis tefja nauðsynlega lausn málsins, og kom þetta sjónarmið einnig fram hjá félmrh., er hann ræddi við n.

Önnur ástæðan fyrir því, að ég hef ekki viljað vera með í flutningi frv., er sú, að með þessu frv. er verið að gera kaupsamning við ríkissjóð um það, að hann kaupi sig í eitt skipti fyrir öll undan þeirri skyldu, sem á honum hvílir, að taka við þessu vandræðafólki og sjá því fyrir hælisvist. Og það er einmitt vegna þess, að ríkið hefur ekki rækt þessa skyldu sína, að Samband ísl. sveitarfélaga hefur fundið sig knúið til að fara inn á þessa braut. Það hefur gert það í algeru vonleysi um það, að ríkið mundi nokkurn tíma rækja sína skyldu í þessu efni. Samkvæmt upplýsingum, sem voru gefnar á þskj. 514 frá síðasta þingi, var gert ráð fyrir, að af 110 sjúklingum, sem þyrfti að byggja hæli yfir, væru 60 geðsjúkt fólk, 44 fávitar og 6 ofdrykkjumenn. Nú er það vitað, að í hálfa öld hefur ríkið látið reka spítala til að taka á móti geðveiku fólki og fyrst og fremst þeim sjúklingum, sem taldir eru upp í 1. flokki á þskj. 514, þ. e. albrjáluðu fólki og öðru, sem þarf að hafa sérstakar gætur á, en þetta fólk er þyngsta byrðin á sveitarfélögunum. Og það er frámunalegt, að ríkið skuli ekki geta tekið við þessu fólki, og stafar það mikið af því, að á þessum geðveikraspítala dvelur allt of margt fólk, sem á þar alls ekki heima, heldur á allt öðru hæli. Hér hefur ríkisvaldið brugðizt skyldu sinni gagnvart sveitarfélögunum og þessum vesalingum, og ég vil ekki vera með í því að losa það undan því að rækja þessa skyldu sína. — Í öðru lagi var svo talið, að um 44 fávita skorti nú hælisvist. Nú er það upplýst í heilbr.- og félmn. og einnig í fjvn., að nú liggur fyrir óeydd ½ millj. kr., sem veitt hefur verið til fávitahælis í Kópavogi og ekki verið snert og einnig framlag frá Laugarnesspítalanum, sem nemur ½ millj. kr. og hefur heldur ekki verið snert. Samt hefur ekki verið hægt að ljúka við byggingu þessa hælis, og það hefur verið upplýst, að það er eingöngu að kenna því, að húsameistari ríkisins hefur ekki sinnt þessu máli sem skyldi. Ég vil ekki heldur vera með í að losa ríkið undan skyldunni til að byggja þetta hæli, þegar vanrækslan líka stafar eingöngu af því, að ein stofnun hefur ekki haft áhuga fyrir framkvæmdinni. En ef hægt væri að koma byggingu þessa hælis á, mundi það stuðla mjög að því að leysa þetta vandamál, sem hér um ræðir. — Í þriðja lagi hefur ríkið samkvæmt l. allmiklar skyldur gagnvart ofdrykkjumönnum, og nú hefur verið lögð til hliðar ½ millj. kr. til að standa undir byggingu drykkjumannahælis. Hér vil ég ekki heldur taka þátt í að losa ríkið undan ábyrgð sinni í þessum efnum. — Þá er ekki eftir af þessu vandræðafólki samkvæmt þessum skýrslum nema 44 einstaklingar. Af þeim eru 12 ellisjúkt fólk. Venjulega á þetta fólk heima á sjúkrahúsum og elliheimilum, og í sambandi við marga spítala landsins hefur verið komið upp deildum fyrir ellisjúkt fólk, og virðist það munu vera betur komið þar heldur en ef farið verður að safna því öllu á eitt hæli. — Þá koma 5 flogaveikisjúklingar, og lamaðir og aflvana sjúklingar eru taldir 6, og get ég ekki séð, að rétt sé að láta þetta fólk dvelja á hæli með geðveiku og öðru andlega óheilbrigðu fólki, ef aðeins er um líkamlega lömun að ræða og fólkið er alveg andlega heilbrigt, heldur ætti þetta fólk að dveljast á sjúkrahúsum. — Að lokum eru svo 19 skapgallaðir sjúklingar. Þegar landlæknir mætti hjá n., gaf hann þá yfirlýsingu, að hann væri því mótfallinn, að þetta fólk yrði allt sett á eitt og sama hælið, jafnvel þótt því yrði komið upp. Sjúklingarnir væru svo ólíkir, að ógerlegt væri að hafa þá alla á sama hæli. Hann taldi hins vegar, að það bæri að stefna að því að auka við Kleppsspítalann, svo að hann gæti tekið við öllum þeim sjúklingum, sem þangað ættu að fara. Hann benti líka á, að alltaf væri að losna húsnæði á Kristneshæli og líkur væru til, að bráðlega yrði unnt að flytja alla sjúklinga þaðan til Vífilsstaða, og virðist þá eðlilegt að athuga, hvort ekki mætti nota það húsnæði, sem þá losnaði á Kristnesi, fyrir einhvern hluta af því fólki, sem á að fara á öryrkjahæll samkvæmt frv., t. d. fyrir taugaveikt fólk, sem nú skipar allt of mikið rúm á Kleppi og á þar raunar ekki heima. Með þessu móti væri hægt að leysa úr stórum hluta þessa vandamáls með mun skjótari og auðveldari hætti en hægt er með frv. Nú er vitað, að á þessu þingi á að reyna að leysa mál ofdrykkjumanna, og hvað fávitana snertir, munu þeir allir komast fyrir á því hæli, sem nú er verið að byggja fyrir þá. Væri þannig ráðið fram úr vandanum með fjóra flokkana á mun auðveldari hátt en gert yrði með samþykkt þessa frv. Ég spurði hins vegar meðnm. mína í heilbr.- og félmn., hvort þeir vildu ekki leggja vinnu í að breyta frv. á þann hátt, að hægt væri að skapa meiri hl. í n., sem væri sammála um málið, því að hér er alls ekki um samkomulag að ræða, þar sem aðeins 3 nm. standa að frv. og allir með þeim fyrirvara, að þeir skuldbindi sig ekki til að greiða því atkvæði, og 4. nm., hv. 7. landsk. þm., lýsti sig algerlega andvígan ákvæðum frv. og að mér skildist fylgdi því eingöngu af vorkunnsemi við ríkissjóð. En ég get ekki verið með í að setja nafn mitt undir svona vinnubrögð. Og ef það er meiningin að vísa nú málinu til nefndar, hvar stendur þá nefndin? Hún verður þá að vinna að því að breyta frv., svo að eitthvert samkomulag náist um það, eins og ég óskaði áður en hún lét það frá sér. Og n. hefur engar ábendingar fengið um það frá ráðh. eða landlækni, hvernig þeir óskuðu eftir, að frv. yrði afgreitt.

Ráðh. gat engar upplýsingar gefið um afstöðu stj. til málsins, aðrar en þær, að það væri mikill léttir fyrir ríkissjóð, ef hann gæti létt af sér þeirri byrði, sem á honum hvílir í þessu efni, með því að greiða 1½ millj. í eitt skipti fyrir öll, og í þeim leik vil ég ekki taka þátt. Í þessu sambandi vil ég benda á, að með þessu frv. er verið að leggja á sveitarfélögin utan Reykjavíkur hvorki meira né minna en 3 millj. kr., ef aðeins er tekið tillit til stofnkostnaðar hælisins, á sama tíma og þau ganga hungurgöngu til Alþ., biðjandi um, að það taki frá sér þann kaleik, sem nú er að gera út af við þau. Ég get ekki séð samræmi í þessum vinnubrögðum. Það er verið að ræða um það í alvöru að gefa þeim eftir hluta af tekjustofni ríkisins, en á sama tíma á að leggja á þau þunga fjárhagslega byrði, sem þau geta ekki og munu aldrei reyna að standa undir. Þetta er aðeins til að hrinda málinu frá sér og skilja það eftir í sama öngþveitinu og það hefur verið. Og það er athyglisvert, að stærsta bæjarfélag landsins, Reykjavíkurbær, skuli ekki vilja vera með í þessum vinnubrögðum, og það er af því, að þetta félag hefur sýnt viðleitni til að bjarga þessu máli við og það veit, hversu þungur ríkissjóður er í þessu efni, og vill ekki losa hann við ábyrgðina, sem á honum hvílir gagnvart þessum sjúklingum. Það væru sannarlega góð viðskipti fyrir ríkissjóð, ef hann gæti keypt sig frá þessari ábyrgð með 1½ millj. kr. í eitt skipti fyrir öll. En ég vil ekki vera með í þeim kaupsamningi.

Ég tel mig þá hafa á þessu stigi málsins gert nægilega grein fyrir minni afstöðu, og ef málið kemur frá n. aftur, mun ég gera enn frekari grein fyrir viðhorfi mínu. En ég vænti þess og það er óhjákvæmilegt, að n. finni aðra leið í þessu máli en hún hefur nú farið.