14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

112. mál, öryrkjahæli

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. S-Þ. skilst mér, að hann væri í ræðulok eiginlega kominn inn á mína skoðun í málinu, að sveitarfélögin vilji raunverulega losa sig undan þessari byrði. Mér þykir það ekkert einkennilegt, því eins og ég tók fram fyrst hér, þá er farið út á þessa braut í hreinum vandræðum vegna þess, að ríkisvaldið hefur ekki gert sína skyldu í sambandi við þessa menn. En þegar upplýst er í málinu, og það við heilbr.- og félmn., að ríkið ætli sér ekkert að koma nálægt þessu, ef frv. nær fram að ganga, vegna þess að þá séu þeir búnir að losa sig undan þessari skyldu með 1½ milljón, og hins vegar vegna þess, að hér er aðeins um heimildarl. að ræða, þá sé ég ekki, að vandinn sjálfur sé leystur. Og alveg sérstaklega er vandinn um rekstur hælisins engan veginn leystur, þó að hægt væri að koma hælinu upp. Ég sé, að sveitarfélögin eru það bjartsýn að halda, að hægt væri að reka þetta sem sjálfseignarstofnun og þurfi ekki annað að koma til heldur en venjulegur styrkur, sem látinn er öryrkjum í té. En það er misskilningur, og mér þykir rétt að upplýsa það, sem hv. þm. S-Þ. veit eins vel og ég, að nýlega er búið að koma upp stofnun eða heimili fyrir vandræðabörn, og ég hef athugað, hvað margir hafa unnið við þessa stofnun. Það er læknir, forstöðukona, ein ráðskona, 4 vinnustúlkur, svo er vinna við flutning og aftur vinna við flutning og svo er stjórnarkostnaður. Og hvað haldið þið svo, að það séu margir vistmenn? Það eru 3 börn. Þetta er rannsóknarstöðin í Elliðahvammi. Þetta kostar ríkið eitthvað á annað hundrað þús. kr. Þetta var fyrst byggt af sveitarfélagi, Reykjavíkurbær kom þessari stofnun upp, síðan var þessu ýtt á ríkissjóðinn, og er þá ekki bezt að taka þessi mál strax frá byrjun með einhverju skynsamlegu fyrirkomulagi?

Ég er sammála hv. þm. S-Þ. um það, að það á að þvinga ríkissjóð til þess að taka slíka sjúklinga eins og vitfirringa inn á Klepp. Hugsum okkur slíka skyldu sem hvílir á landsspítalanum. Ég veit ekki betur en að landsspítalanum beri siðferðileg, ef ekki lagaleg skylda til þess að hafa ætíð til rúm í slysastofunni, ef slys ber að höndum, til að geta tekið inn menn, og það gæti oft legið við dauða ef ekki væri strax að gert. Ég sé ekki annað en að sama skylda ætti að hvíla á Kleppi til þess að taka við mönnum, sem verða brjálaðir og kosta sveitarfélögin 1000 kr. á dag. Það var þetta form, sem ég ræddi um að leggja frv. í, áður en það færi inn í d., þ. e. að skylda heilbrigðisstjórnina. til þess að geta alltaf tekið við slíkum sjúklingum, því að það er alveg óverjandi, að ríkið skuli reka hæli fyrir vitfirringa, en útiloka svo vitfirringana frá því hæli. Það er að snúa málunum við. Hvað mundi vera sagt, ef Reykjalundur tæki ekki lengur á móti berklasjúklingum, heldur tæki geðveika menn, eða heilsuhælið á Vífilsstöðum tæki aðeins menn, sem væru gigtveikir? Þetta er frámunalegt að skuli hafa verið liðið öll þessi ár, að neita að taka inn á Klepp geðveika menn, en taka í þess stað taugaveiklaða sjúklinga, sem sjálfsagt er og nauðsynlegt að lækna, en spítalinn er ekki byggður til þess að taka á móti þeim mönnum, fyrr en hann hefur rúm til að taka á móti öllum hinum. Ef umr. um þetta mál verða til þess, að þessu sé kippt í lag, þá er vel, en þær umr. gátu farið fram í n. eins og á Alþ., því að þessu máli var hreyft þar.

Hv. þm. segir, að ég hafi verið að álasa sveitarfélögunum fyrir að létta kostnaði af ríkissjóði. Ég hef reynt að gera greinarmun á réttu og röngu. Ég tel rétt, að ríkissjóður sjái fyrir þessu máli. Það hefur verið ætlazt til þess, að viðkomandi stofnun fengi til þess fé, að vísu stundum skorið við nögl, en oft allmikið. Ef það fé hefði verið notað til þess að inna af hendi þetta hlutverk fyrst og fremst, að sinna hinum brjáluðu mönnum, þá hefði verið nægilegt rúm á Kleppi fyrir þá menn, svo að þeir þyrftu ekki að ganga lausir eða vera í gæzlu fyrir 1000 kr. á dag. Ég er ekkert að álasa sveitarfélögunum með þessu, ég skil vel, hvers vegna þau hafa verið þvinguð inn í þetta, en ég vil ekki vera að stuðla að því, að þau séu skuldbundin til þess að fara út á þessa brauf. Mér skildist á hv. þm., að hann sé sammála um það og óski ekki heldur eftir að þau neyðist til að fara út á hana. — Hann vildi segja, að ég væri of þungorður í garð sveitarfélaganna í sambandi við hungurgöngur. Ég vil benda hv. þm. á það, og alveg burtséð frá þeim göngum, sem gengnar hafa verið til fjvn. í sambandi við nýja tekjustofna, að okkur er báðum kunnugt um það, að ríkissjóður hefur orðið að greiða 8 milljónir af ábyrgðum fyrir bæjar- og sveitarfélögin, og það hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að geta fengið það fé inn aftur. Ég ofmæli því ekkert um það, að svo miklar byrðar séu á sveitarfélögunum, að þau eigi ekki að vera að gera sérstakar ráðstafanir til þess að leggja á sig nýja byrði og taka hana af þeim aðila, sem samkv. l. á að bera hana. Nú er mér líka kunnugt og sjálfsagt veit hv. 4. þm. Reykv. það einnig, að sveitarfélögunum gengur erfiðlega að rísa undir tryggingunum, og er því ótækt að fara að auka við útgjöld þeirra. Ríkinu ber skylda til að sjá þessum mönnum fyrir viðeigandi hælum, en það hefur ekki gert það. Ég vil taka höndum saman við hv. þm. S-Þ. um að þvinga það til að gegna skyldu sinni, en ég er alveg undrandi á því, að þm. fyrir sveitakjördæmi skuli ljá máls á því að taka þátt í samningum, sem leysa það undan þessari skyldu sinni. Ég fengist aldrei til að gera það. Ég tel, að þeir menn, sem unnið hafa að samningu frv., hafi ekki gert sér ljósan hinn gífurlega kostnað, sem það mundi leggja á sveitarfélögin, ef það yrði að lögum. Mér er kunnugt, að sjúkrahúsin stynja undan rekstrarkostnaðinum, og það hafa hópazt beiðnir frá þeim til fjvn. um að létta á þessum kostnaði, og það hafa komið fram kröfur um, að lögunum um sjúkrahús verði breytt. Ég get því ekki séð, að sveitarfélögin fengju klofið rekstrarkostnað slíks hælis. Kostnaðurinn við slíkt hæli yrði ekki minni á rúm en t. d. á Kleppi, sem er ódýrasta hæli hér á landi nú, en samt allþungur baggi á ríkinu. En í þessu frv. er ekkert á það minnzt, hver eigi að standa undir rekstrarkostnaði slíks hælis.

Mér virtist, þegar hv. þm. S-Þ. var að flokka þetta fólk hér áðan, að þá væru hinir brjáluðu og fávitarnir erfiðastir viðureignar. Í sambandi við fávitana vil ég taka það fram, að mér er kunnugt um flokk manna, sem vill taka að sér að starfrækja hæll fyrir 20–30 fávita, þangað til ríkið hefur komið sér upp slíku hæli, gegn því að fá löglega meðgjöf með þeim og auk þess verði hælið á Úlfarsá afhent þeim til umráða. Ég álít, að það væri tilraun fyrir hæstv. forsrh. og Framsfl. að reyna að þvo af sér smánarblettinn í sambandi við drykkjumannahælið á Úlfarsá með því að fá þessum mönnum það í hendur. Það hefur verið upplýst hér á hv. Alþ., að hæli þetta hefur staðið tilbúið í meir en ár, en enginn sjúklingur gist þar enn, sennilega aðeins af því. að þar fæst ekkert brennivín.

Hv. þm. S-Þ. gat þess, að vera mætti, að nokkru af þessu fólki yrði hægt að koma fyrir í Hafnarfjarðarspítala. Ég er því ekki kunnugur. Það er verk heilbrigðisstjórnarinnar, og það væri sannarlega nær fyrir hana að sannreyna það, heldur en að leggjast á dúnkoddann.

Ég skal svo ekki ræða málið meir á þessu stigi, en ég er fús til hvenær sem er að ræða það við form. n. Þetta var ég fús til að gera strax í haust, en hv. form. var þá eigi til viðræðu.