14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

112. mál, öryrkjahæli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umr., en vegna þess að mér voru þessi mál kunnug áður fyrr, meðan ég var borgarstjóri, vildi ég fara um þau örfáum orðum.

Ég verð að játa það, að ég sé ekki nein rök fyrir því. að Samband ísl. sveitarfélaga reki þetta hæli frekar en ríkið og Tryggingastofnunin. Samband ísl. sveitarfélaga er meira félagsskapur almenns eðlis, og þrátt fyrir góðan vilja, gæti ég trúað, að erfitt yrði fyrir sveitarfélögin að koma sér saman í svona máli, þegar á á að herða.

Ég verð að taka undir það með hv. þm. Barð. að það skýtur dálítið skökku við, þegar sveitarfélögin vilja nú fara að reisa slíkt hæli, en gera jafnframt harða sókn að ríkissjóði um aukna tekjustofna. Ég er því ekki viss um, að með þessu frv. sé fundin lausn á þessu máli. En hér er um vandamál að ræða, sem verður að taka föstum tökum. Hér er um menn að ræða, sem eiga ákaflega bágt, og því nauðsynlegt að hjálpa þeim, en vegna þess, hve gífurleg útgjöld það eru fyrir sveitarfélögin, hafa þau neyðzt til að ráðstafa þeim á allt annan hátt en sómasamlegt megi teljast, t. d. á Litla-Hraun.

Þar dvelja nú menn, sem eiga þar alls ekki heima og fangarnir kvarta um að hafa í samfélagi við sig.

Í þessum umr. féllu ummæli í þá átt, að Kleppur hefði vanrækt að taka á móti sjúklingum og að geðstirt og umgengnisvont fólk ætti að vera á Kleppi. Meðan ég var borgarstjóri, ræddi ég oft um þessi mál við yfirlækninn þar, dr. Helga Tómasson, og verð ég að segja, að þetta er á misskilningi byggt. Ef laus rúm eru á Kleppi, verður að gera sér grein fyrir því, hvernig allar aðstæður eru. Því hefur verið fylgt að láta sitja fyrir fólk, sem von hefur verið til, að hægt væri að lækna. Það hefur ekki þótt skynsamlegt að nota plássið á Kleppi handa fólki, sem ekki hefur von um bata, ef vonir hafa staðið til, að hægt væri að lækna þar annað fólk. Annars er yfirlæknirinn og hans fólk sett í erfiða aðstöðu, annars vegar að geta veitt manni fyrirgreiðslu og ef til vill læknað hann, en á hinn bóginn að taka við ólæknandi sjúklingi, sem fer illa um. Ég álít, að flestir líti svo á, að betra sé að taka þann inn, sem von er til að megi lækna. Ég vildi ekki ljúka þessum umr. án þess, að þetta yrði skýrt fyrir hv. d.

Það, sem hér skortir á, er fjármagn til að koma upp svona hæli á skömmum tíma. En lítil þjóð eins og Íslendingar hefur ekki enn allar þær stofnanir, sem telja má nauðsynlegar, en við munum koma þeim á, þegar tími gefst. En þetta má ekki verða til þess að halla á það, sem gert er í þessu máli.