14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

112. mál, öryrkjahæli

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. taldi ekki alls kostar réttmætt að halda því fram, að Kleppur hafi ekki fullkomlega gegnt þeirri skyldu, sem honum bar til þess að taka við því fólki fljótt og biðlaust, sem hefur brjálazt. Ég hygg, að það væri ekki of mikið, þó að þessi skylda væri lögð geðveikrahælinu á herðar, og því síður nú, þegar aukið hefur verið við húsnæðið. Þessir menn, sem tapa sér snögglega og verða óðir, eru oft menn, sem gætu læknazt. og menn. sem þurfa að komast fljótt undir læknishendur.

Ég vil því ekki taka það aftur. sem ég sagði í þessu efni, þótt hæstv. dómsmrh. kunni að þykja það að einhverju leyti ofsagt. Um hitt er ég honum sammála, að þeir, sem von er til, að hægt sé að lækna, eiga að sitja fyrir dvöl á Kleppi. Þess vegna er varla hægt að hugsa sér, að skapgallað fólk geti fengið þar dvöl, nema því meira afgangsrúm sé. Það verður að finna einhver önnur ráð til þess að sjá slíku fólki farborða. En hins vegar er það ekki nema í fjórða þyngsta flokki fyrir sveitarfélögin að standa straum af því.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að hann sæi engan vinning í því, að sveitarfélögin kæmu sér upp slíku hæli sem þau eru að óska eftir heimild til að reisa. Ég er honum alveg ósammála í þessu efni. Ég álít það mikinn ávinning og bót frá því ástandi, sem nú ríkir. Mér finnst líka, að sönnun þess liggi í því, sem Reykjavík hefur gert, þar sem hún hefur komið upp slíku hæli. Hins vegar má ekki skilja það svo sem hæstv. dómsmrh. virðist hafa skilið það, að sveitarfélögin séu í raun og veru að sækjast eftir því að koma slíku hæli upp, ef þau ættu völ á öðru jafngildu eða betra. Þau hafa gert þetta að tillögu sinni og óskað eftir þessari heimild af því, að ástandið er algerlega óviðunandi. Og þó að það sé illt og erfiðleikum bundið að koma upp hælisbyggingu, þá er það lausn og bót á því, sem nú er.

Ég álít, að heilbr.- og félmn. hafi farið rétt með þetta mál, og einnig álít ég, að þingið í fyrra hafi afgreitt það skynsamlega til athugunar, og er ekkert á móti því, að n. hefur látið málið koma fram í því formi, sem það var í, til umr. í hv. deild. Hins vegar þætti mér meðferðin ill nú, þegar málinu verður aftur vísað til n., ef því yrði stungið undir stól og látið sofna. Sannarlega eru málavextir þeir, að við það væri ekki unandi, ef hæstv. Alþingi léti þetta mál sofna. Það verður að finna einhverja úrlausn. Ég treysti því, að n. leiti rækilega þeirrar úrlausnar, og ég treysti því líka, að hv. þm. Barð. standi við sín stóru orð um að leita vandlega eftir viðhlítandi niðurstöðum. Ég hlakka til að heyra þær niðurstöður. Mér er óhætt að lofa því, að ef n. tækist að finna hæli fyrir það fólk, sem talið er upp í grg. frv. og erfiðast er fyrir sveitarfélögin að standa straum af og finna hæli fyrir með öðru móti en á vegum ríkisins, þá yrðu sveitarstjórnarmenn ánægðir. Þá mundi þeim þykja þetta frv. heppilega fram borið og sent inn í Alþingi. Ég er viss um, að annars hefði málið ekki verið tekið upp til meðferðar. — Sé ég svo ekki ástæðu til að lengja þessar umr., en leyfi mér að vænta hins bezta, eins og nú horfir.