14.01.1952
Efri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

112. mál, öryrkjahæli

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og sést í grg. á þskj. 212, þá var þetta frv. flutt af heilbr.- og félmn. samkvæmt ósk félmrh. Ég taldi ekki rétt þá að taka þátt í flutningi frv., því að ég var mótfallinn því í öllum meginatriðum.

Nú hefur n. athugað þetta mál og orðið sammála um að gefa út nál. á þskj. 487, n. er þar óklofin, og ég vil nokkuð lýsa málinu í heild og gangi þess.

Frv. er samhljóða frv., sem hv. þm. S-Þ. flutti í fyrra á þskj. 514, og fylgdi því þá ýtarleg grg. Með frv. er sveitarfélögunum gefin heimild til að koma upp og starfrækja öryrkjahæli. Samkvæmt grg. í fyrra var gert ráð fyrir 60 geðsjúkum mönnum, sem þyrftu hælisvíst, 44 fávitum og 6 ofdrykkjumönnum. Nú er vitað, að hér starfar geðveikraspítali og verið er að koma upp fávitahæli, og ættu þessar stofnanir að geta tekið við þessu fólki. En auk þessa fólks eru í grg. taldar 44 persónur í viðbót, sem þurfa hælisvist, af þessu fólki er 12 talið ellisjúkt, 5 flogaveikt, 8 lamað og aflvana og 19 stórlega skapgallað.

Hugsun flm. var, að allt þetta fólk fengi víst á þessu hæli, ef því yrði komið upp. Hvert sveitarfélag skyldi greiða 35–50 kr. stofngjald á hvern íbúa að viðbættum 50%, ef þess yrði þörf, til að koma hælinu upp. Ekki var ætlazt til, að ríkið legði annað fram en ríkisstyrk í eitt skipti fyrir öll sem stofnframlag. Ætlunin var svo, að sveitarstjórnirnar rækju hælið á sinn kostnað, og má ætla, að hann hefði orðið allmikill, ef marka má afkomu sjúkrahúsanna. Ef miðað er við fólksfjölda nú, mundi Reykjavík eiga að greiða í stofnkostnað 2.8 millj. kr., en önnur sveitarfélög 3.5 millj. En ekki er sannað, að Reykjavík vilji vera með, svo að vafasamt er að reikna með 2.8 millj. kr. framlagi þaðan, en með því mundu greiðslur sveitarfélaganna nema alls 6.3 millj. kr., en með ríkisframlaginu mundi þetta nema alls 7.8 millj. kr., þar sem ríkið átti að leggja fram 1½ millj. kr. En það er tekið fram í grg., að ekki sé vissa fyrir því, að Reykjavík verði með, og þá má gera ráð fyrir því, að önnur sveitarfélög verði að leggja fram þessar 2.8 millj. kr. eða að nota yrði heimildina um að bæta 50% ofan á stofngjaldið. Þetta torveldar sveitarfélögunum að koma hælinu upp og einnig rekstur þess.

Með tilvísun til þess, sem ég hef sagt, er ekki vissa fyrir því, að þessi ákvæði komi til framkvæmda, þó að frv. yrði að lögum. Svo gæti farið, að þetta yrðu bara pappírslög, sem ekkert mundu bæta ástandið, en gætu hins vegar orðið til þess að draga úr því, að farnar væru aðrar leiðir til þess að leysa þetta vandamál. Setti ég þetta sjónarmið strax fram við 1. umr. málsins.

Í grg., sem fylgdi frv., var það upplýst, að 154 persónur væru hjá 76 sveitarfélögum víðs vegar um landið, sem telja mætti að þyrftu hælisvíst, en einhverjar breyt. kunna að hafa orðið á þessu síðan.

Heilbr.- og félmn. ræddi þetta mál við landlækni og lagði þá spurningu fyrir hann, hvort hann teldi ráðlegt að setja alla þessa flokka sjúklinga á slíkt hæli. N. taldi nauðsyn að fá upplýsingar. um þetta, því að ef heilbrigðisstj. taldi þetta ekki heppilegt, var nauðsynlegt að hafa fleiri hæli. Landlæknir taldi alveg ógerlegt að hafa alla þessa flokka saman. Allri n. fannst, að þetta raskaði svo meginatriði frv., að ekki væri rétt að samþykkja það óbreytt. Auk landlæknis hefur n. rætt þetta mál við dr. Helga Tómasson, sem einnig er þeirrar skoðunar, að ekki komi til mála að starfrækja hæli með svo ólíkum sjúklingum. Læknarnir voru einnig spurðir að því, hvort ekki væri ódýrara, að sjúklingunum væri skipt þannig niður, að bætt væri úr húsnæðisleysinu á þeim hælum, þar sem þeir eiga heima, á Kleppi og fávitahælunum, og töldu þeir báðir hyggilegt að stækka Klepp og flýta byggingu fávitahælis, en þá minnkar hópurinn um 104 menn. Yfirlæknirinn á Kleppi hefur upplýst, að eins og nú stæði væru 35 auð rúm á Kleppi, og taldi hann, að stefna bæri að því að stækka Kleppsspítalann og bæta skilyrðin þar, svo að hann gæti tekið við öllu fólki, sem þar á heima.

Þá er það vitað, að allmikið fé er fyrir hendi til þess að halda áfram byggingu fávitahælis, og ef því máli er hraðað eins og unnt er, þá leysist það vandamál.

Þá er líka til allmikið fé til byggingar og starfrækslu hælis fyrir drykkjusjúka menn. Fyrir þinginu liggur frv., sem hefur verið afgr. í þessari hv. d., að vísu hefur eitthvað staðið á afgreiðslu þess í hv. Nd., en ég veit, að ég get sagt það fyrir munn heilbr.- og félmn. þessarar d., að það er einlæg ósk hennar, að það mál nái fram að ganga, til þess að húsnæðisleysi þessara manna verði leyst.

Með tilliti til þess, sem ég hef sagt, þykir n. ekki rétt, að málið verði samþ., heldur afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 487.

Út af umr. um Kleppsmálið, sem tekið var út af dagskrá áðan, vil ég víkja að því, að hæstv. dómsmrh. taldi rétt, að þessu máli yrði einnig frestað. Ég fæ ekki betur séð, ef þessi rökst. dagskrá verður samþ., en að það styðji að því að ýta undir lausn þess máls, því að í rökst. dagskránni stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti hraða svo sem unnt er byggingu fávitahælis í Kópavogi, eins og það er fyrirhugað, og láti enn fremur á næsta ári reisa hæli fyrir drykkjusjúka menn, en vitað er, að fé er fyrir hendi til þessara framkvæmda, og geri enn fremur nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að geðveikrahælið á Kleppi geti jafnan tekið á móti geðveikisjúklingum, sem óðir eru og ekki er unnt að vista í venjulegum sjúkrahúsum eða á heimilum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með þessari afgreiðslu er það lagt á vald hæstv. ríkisstj. að ráða fram úr þessum vandræðum. Um hælin er þegar vitað, að allverulegt fé er fyrir hendi, og hvað Klepp snertir standa vonir til þess, að fullt samkomulag náist við yfirlækninn um lausn málsins, sem báðir aðilar sætta sig við og miðar að því að leysa þau vandræði, sem við er að stríða.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. N. leggur til, að frv. verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 487.